Er horfin og missa vinnur

Orðlof

Spænskt fyrir sjónir

Þegar fólki þykir eitthvað undarlegt er stundum sagt að það komi spánskt fyrir sjónir. 

Orðatiltækið kemur upphaflega úr þýsku. Árið 1519 fengu Þjóðverjar spænskættaðan keisara, Karl V. Sá hafði vanist spænskum siðum og háttum og innleiddi þá við hirð sína í Þýskalandi. 

Hirðmönnum hans þóttu margir þessara siða ansi undarlegir, hristu gjarnan hausinn og muldruðu í barm sér: 

„Das kommt mir spanisch vor!“.

Orðaborgarar.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Hvernig væri lífið ef það væri dregið fyrir himininn.“

Frétt á ruv.is.                                       

Athugasemd: Þetta er ekki rangt orðalag. „Það“ er svokallað aukafrumlag, stundum kallað leppur og hefur enga sjálfstæða merkingu en er mjög algengt í talmáli: Það er nú það. Það er blessuð blíðan. Það var fjör á ballinu. Það er líf eftir dauðann. 

Ég er svo sem ekkert sérstaklega á móti leppnum en reyni að sleppa honum ef ég mögulega get. Þá þarf oft að ummorða og um leið verður oft mikill galdur, setningin eða málsgreinin verður skýrari. Vísa til fyrri skrifa um aukafrumlagið, sjá hér.

Tillaga: Hvernig væri lífið ef dregið væri fyrir himininn.

2.

„Farþega­flug­vél er horf­in af rat­sjám í Indó­nes­íu, skömmu eft­ir að hún tók á loft frá höfuðborg­inni Jakarta.

Frétt á mbl.is.                                        

Athugasemd: Skrýtið orðalag. Af hverju notar blaðamaðurinn ekki þátíð sagnarinnar að hverfa eins og eðlilegt er? Flugvélin hvarf og því er óþarfi að nota lýsingarhátt þátíðar; er horfin.

Í fréttinni segir:

Um er að ræða 27 ára gamla Boeing …

Mun skárra er að sleppa klisjunni og segja:

Flugvélin er tuttugu og sjö ára gömu Boeing …

Ungir og óreyndir blaðamenn þurfa tilsögn. Hún virðist ekki í boði á Mogganum frekar en öðrum fjölmiðlum. Verst er hversu margir blaðamenn byrja á fjölmiðlum án þess að hafa reynslu í skrifum.

Tillaga: Farþega­flug­vél hvarf af rat­sjám í Indó­nes­íu, skömmu eft­ir að hún flaug frá höfuðborg­inni Jakarta.

3.

„Mikið áfall að missa föður sinn allt of snemma.

Frétt á mbl.is.                                        

Athugasemd: Er það ekki hámark letinnar þegar einn fjölmiðill býr til frétt um viðtal sem birt er í allt öðrum og óskyldum? Mogginn birtir hér frétt um viðtal sem er á forsíðu Fréttablaðsins, sjá hér.

Dv birtir ósjaldan vafasaman úrdrátt um forystugreinum og Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins sem hugsanlega getur veitt óvandað fólk til að skrifa í athugasemdadálkinn. Í dag vekur dv.is athygli á leiðara Fréttablaðsins og er passlega mikið vitnað í hann. Og viti menn, fjölmargir bíta á. Þetta þykir ekki merkileg blaðamennska.

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„Nicky og William misstu vinnur sínar vegna COVID-19 en …

Frétt á dv.is.                                        

Athugasemd: Vinna er eintöluorð sem þýðir að það er ekki til í fleirtölu.

Skyldi ekki vera aumt að vinna á fjölmiðli og þurfa að skrifa heimskulegar „fréttir“. Þessi er eins sú vitlausasta sem um getur og jafnframt illa fram reidd.

Tillaga: Nicky og William misstu vinnuna vegna COVID-19 en …


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband