Sprenging opnaði gat - í baksýn er eitthvað - vinna góða vinnu

Orðlof

Tölustafir

11.3 Tölur í upphafi málsgreina

Í almennum texta skal forðast að hefja setningu með tölu ritaðri með tölustöfum (t.d. 89 nemendur útskrifuðust um vorið.). 

Betra er að rita töluna með bókstöfum eða breyta orðaröð:

Áttatíu og níu nemendur útskrifuðust um vorið.
Um vorið útskrifuðust 89 nemendur.

Íslenskar réttritun. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Tveimur starfsmönnum Matvælastofnunar, sem var við reglubundið eftirlit í matvælafyrirtæki, varð nýverið fyrir hótunum.

Frétt á ruv.is. 

Athugasemd: Í tilvitnuninni var Matvælastofnun ekki í eftirliti heldur starfsmenn hennar. Þeir voru í eftirliti.

Fyrirtækið varð ekki fyrir hótunum heldur starfsmennirnir. Þeir urðu fyrir hótunum.

Betur hefði þó farið á því að segja að þeim hafi verið hótað, ekki „urðu fyrir hótunum“.

Athygli vekur að starfsmennirnir eru sagðir tveir en engu að síður segir forstjóri Matvælastofnunar „að starfsmanninum hafi verið hótað líkamlegu ofbeldi.“ 

Hversu margir voru starfsmennirnir? 

Tillaga: Tveimur starfsmönnum Matvælastofnunar sem voru við reglubundið eftirlit í matvælafyrirtæki var nýverið hótað.

2.

Sagði í yfirlýsingu HUR um árásina að drónarnir hefðu náð að opna gat á bakborða skipsins, sem hefði sökkt því.“

Frétt á blaðsíðu 36 í Morgunblaðinu 15.2.24.

Athugasemd: Gat er ekki opnað nema það hafi verið þar fyrir.

Réttara er að drónarnir sprengdu gat á síðu skipsins og því hafi það sokkið.

Gat sökkti ekki skipinu, það varð til þess að skipið sökk. Drónar sökktu skipinu.

Tillaga: Sagði í yfirlýsingu HUR um árásina að drónarnir hefðu náð að gera gat á bakborða skipsins og þá hefði skipið sokkið.

3.

Húsgrunnur með nýrunnið hraun í baksýn er eitthvað sem varla hefur sést nokkurs staðar í heiminum.“

Myndatexti á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu 16.2.24. 

Athugasemd: Hvaða tilgangi þjónar „eitthvað“ í myndatextanum? Engum. Þetta orð tröllríður bæði talmáli og ritmáli en hefur enga þýðingu. 

Áður hefði þetta verið orðað á þessa leið: … er nokkuð sem varla hefur sést annars staðar í heiminum.“ Tillagan er mun skýrari.

Fullyrðing um að svona hafi „varla“ sést nokkurs staðar í heiminum er vafasöm.

Tillaga: Húsgrunnur og nýrunnið hraun í baksýn. 

4.

„Slökkviliðið vann greinilega frábæra vinnu.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Þetta segir löggan og blaðamaðurinn birtir ummælin orðrétt. Báðir virðast halda að þetta sé „gullaldarmál“.

Dæmi um hugsunarlaust orðalag: Blaðamaður skrifar góð skrif. Hástökkvarinn stekkur stökk. Hlauparinn hleypur hlaup. Menn vinna rannsóknarvinnu. 

Tillaga: Slökkviliðið leysti verkefnið með sóma.

5.

Sáttaumleitanir hafnar innan bresku konungsfjölskyldunnar.

Frétt á dv.is. 

Athugasemd: Tillaga er einfaldari og mun betri en tilvitnunin. Nafnorðaárátta blaðamanna er að drepa tungumálið.

Tillaga: Leitað sátta í bresku konungsfjölskyldunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband