Fiskerí, framkvæma árásir og vél bilaði í vélarvana skipi
13.3.2021 | 18:27
Orðlof
Innviðir
Er ekki merkilegt hvað einstök orð geta skyndilega orðið frek til fjörsins og sópað öðrum orðum út af borðinu án þess að hafa nokkurn skapaðan hlut fyrir því? Orðið innviðir er gott dæmi.
Upp úr miðjum síðasta áratug óx því snarlega fiskur um hrygg og á tímabili opnaði enginn stjórnmálamaður munninn án þess að minnast á innviði eða öllu heldur skort á þeim. Þetta er sérstaklega eftirminnilegt fyrir kosningarnar 2016 og 2017. Við verðum að muna að spyrja pólitíkusana okkar um stöðuna á þessum ágætu innviðum áður en kosið verður í haust.
Innviðir eru svo sem víðar, ekki síst í viðskiptum og rekstri. Þannig var hermt af því í fréttum í vikunni að Sýn hefði selt óvirka innviði fyrirtækisins á sex milljarða króna. Hreint ekki slæmt. Hvað fengist þá fyrir virka innviði?
Morgunblaðið. Pistill. Orri Páll Ormarsson.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Ævintýralegt fiskerí.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Fólk þarf ekki að hafa verið á sjó til að vita að orðið er fiskirí. Fiskerí er ekki til. Líklega er komin kynslóð sem þekkir ekki atvinnuvegi þjóðarinnar, ekki einu sinni af bókum.
Daniel W. Fiske (1831-1904) var bandarískur fræðimaður. Margir kannast við hann, ekki síst þeir sem hafa verið í MR. Hann stofnaði þar lestrafélag sem nefnt var Íþaka og þar á skólalóðinni er hús sem ber nafnið. Ég dreg stórlega í efa að bókakostinn megi kalla Fiskerí en það væri svo sem eftir Emmerringum.
Tillaga: Ævintýralegt fiskirí.
2.
Dómarinn, Royce Lamberth, sagði að Chansley iðraðist ekki og gæti framkvæmt frekari árásir gegn stjórnvöldum í Bandaríkjunum ef hann yrði settur í stofufangelsi.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Allt er nú framkvæmt nú til dags. Samkvæmt Mogganum eru sumir að framkvæma lögbrot, framkvæma lygi, framkvæma árekstur, framkvæma bingó og framkvæma löggjafarstörf.
Heimild blaðamannsins er vefur CNN og þar stendur:
Judge Royce Lamberth said that Jacob Chansley was unrepentant and could plot further attacks against the US government if put on house arrest.
Framkvæma árásir gegn Notar Mogginn Google-Translate í stað blaðamanna?
Tillaga: Dómarinn, Royce Lamberth, sagði að Chansley iðraðist ekki og gæti ráðist aftur gegn stjórnvöldum í Bandaríkjunum ef hann yrði settur í stofufangelsi.
3.
Undirbúa vernd mikilvægra innviða vegna mögulegra eldsumbrota.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Innviðir er svo sem ágætis en talsvert ofnotað. Í Íðorðabankanum er ágæt skilgreining á orðinu:
Atvinnu- og þjónustumannvirki sem mynda undirstöðu efnahagslífs í hverju landi, s.s. orkuveitur, fjarskipta- og samgöngumannvirki, skólar, sjúkrahús, o.þ.h.
Á ensku er talað um infrastructure. Hér áður fyrr var bara talað um mannvirki og þótti gott. Nú þykir fínna að tala um innviði enda ber það vott um menntun og gáfur.
Tillaga: Engin tillaga.
4.
Þegar um klukkutími var eftir af siglingunni kom upp bilun í einu aðalvél Baldurs sem varð til þess að skipið rak vélarvana um Breiðafjörð
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Skip sem er vélarvana er án vélar, hefur ekki vél. Í Baldri bilaði vélin en samkvæmt orðalaginu mætti skilja það svo að hún hafi horfið úr skipinu. Væri það rétt hefði það verið saga til næsta bæjar.
Blaðamaðurinn skrifar ýmist að Baldur hafi verið vélarlaus eða vélarvana. Það er ekki gott.
Svo er það hitt. Skipið rak í Breiðafirði en ekki um Breiðafjörð. Með heila vél í gangi siglir Baldur um Breiðafjörð, ekki í Breiðafirði.
Tillaga: Þegar um klukkutími var eftir af siglingunni kom upp bilun í vél Baldurs sem varð til þess að skipið rak með í Breiðafirði
5.
Fimm af sjö efstu í prófkjöri Pírata á fjórum kjördæmum eru sitjandi alþingismenn.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Það er ekkert til sem heitir sitjandi alþingismaður. Annað hvort eru menn alþingismenn eða ekki. Þó er fjöldi alþingismanna sitjandi, að minnsta kosti í þingsal og á nefndarfundum. Ekki þarf að hafa orð á því.
Íþróttablaðamenn Ríkisútvarpsins tala oft um ríkjandi Íslandsmeistara/heimsmeistara, bikarmeistara og svo framvegis. Hér á við það sama og áður sagði. Annað hvort er íþróttamaður eða lið Íslandsmeistari, heimsmeistari, bikarmeistari eða ekki. Lýsingarorðið ríkjandi er hrikalega misnotað.
Tillaga: Fimm af sjö efstu í prófkjöri Pírata á fjórum kjördæmum eru alþingismenn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)