Bloggfærslur mánaðarins, október 2021

Elta drauminn - allt múlígt maður - óleyfisíbúð

Orðlof

Brottfall

En nú virðist sem sagt hilla undir breytingar. Afleiðingarnar eru að málið breytist hratt. 

Áherslur eru að breytast, bæði í orðum og setningum, brottfall í áherslulausum atkvæðum er áberandi [fosstráðherrann, hljósstinn] - og hljóðrof og tafs er orðið algengt - og þykir fínt.

Tryggvi Gíslason.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Ekkert sé komið fram sem bendi til þess að slíkir ágallar hafi verið á kosningunni í Norðvesturkjördæmi sem leitt geti til ógildar þeirra.

Frétt á ruv.is.                                      

Athugasemd: Hér er verið að tala um kosninguna, í eintölu. Þar af leiðandi á persónufornafnið líka að vera í eintölu, ekki „þeirra“ heldur hennar. 

Blaðamaðurinn virðist hafa gleymt að lesa yfir. Þarna stendur „leitt til ógildar þeirra“ sem er óskiljanlegt orðalag.

Tillaga: Ekkert sé komið fram sem bendi til þess að slíkir ágallar hafi verið á kosningunni í Norðvesturkjördæmi sem leitt geti til ógildingar hennar.

2.

„Dönsk útfærsla á rétti almennings til beinnar aðkomu að ákvörðunum með þjóðaratkvæðagreiðslum gæti átt fullt erindi í íslenska umræðu um meðferð fullveldisréttar og alþjóðlegra samninga ekki síður en til að mæta vilja þeirra sem kjósa lifandi málskotsrétt minni hluta þingmanna gagnvart nýjum lögum – eða til að mæta vilja annars áhugafólks um þjóðaratkvæðagreiðslur.“

Frétt á blaðsíðu 16 í Morgunblaðinu 22.1.021                                     

Athugasemd: Þessa löngu málsgrein skil ég ekki að fullu. Gæti trúað að svo sé um fleiri. Fréttin er um atriði sem gleymdist að birta í grein sem send var til blaðsins. Ekki veit ég hvort leiðréttingin er blaðamanns eða greinarhöfundar.

Fyrri hluti málsgreinarinnar er nokkuð skýr, svo er talað um „lifandi málskotsrétt“ sem er erfitt að skilja. Einnig er illskiljanlegt þetta um „vilja annars áhugafólks um þjóðaratkvæðagreiðslur“. Ég telst til hóps áhugafólks um fjallaferðir og því gengur hann á fjöll. Velti fyrir mér hvort „áhugafólk um þjóðaratkvæðagreiðslur“ hafi ekkert annað fyrir stafni en að vilja þjóðaratkvæðagreiðslur. Af þessu má sjá að hið minnsta einn lesandi er í skilningsþoku staddur ofan við dalinn.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„Ásamt kórónuveirufaraldrinum setti fornleifauppgröftur strik í reikninginn hvað framkvæmdahraða varðar.

Frétt á blaðsíðu 6 í Morgunblaðinu 23.10.21.                                     

Athugasemd: Setningin er skelfilega ljót.

Tillaga: Kórónuveirufaraldurinn og fornleifauppgröftur töfðu framkvæmdirnar. 

4.

„Hætti í bankanum til að elta drauminn.

Fyrirsögn á mbl.is.                                      

Athugasemd: Aðalatriðið er hvers vegna draumurinn flúði  og hvers vegna þurfti að elta hann.

Á íslensku tölum við um að láta drauminn rætast. Við „eltum hann“ ekki eins og það er orðað á ensku. „Follow my dream“ þýðir ekki að „elta draum sinn“. Enska sögnin „follow“ hefur margar merkingar. Meðal annars að elta, fylgja, fara eftir og skilja svo dæmi séu tekin. 

Ekki má þýða beint af ensku yfir á íslensku, jafnvel þó orðin séu kunnugleg. 

Sagt er til dæmis á ensku: 

He follows Manchester United.

Varla mun nokkur maður þýða þetta á þessa leið:

Hann eltir Manchester United.

Svona þýðing væri ekki til fyrirmyndar, ekki frekar en að „elta drauminn“. Maðurinn hlýtur að halda með Manchester United, styðja félagið.   

Tillaga: Hætti í bankanum til að láta drauminn rætast.

5.

„Hæstaréttarlögmaðurinn Vilhjálmur H. Vilhjálmsson segist vera allt múlígt maður á lögfræðiskrifstofunni sinni en …

Frétt á vísi.is.                                     

Athugasemd: Hvað merkir orðasambandið „allt múligt maður“? Er frekar illa að mér í færeysku. Vera má að stafsetningin sé röng, fann ekki þetta í orðabók.

Tillaga: Hæstaréttarlögmaðurinn Vilhjálmur H. Vilhjálmsson segist vera í mörgum og mismunandi verkefnum á lögfræðiskrifstofunni sinni en …

6.

„Kærðir fyrir að stofna lífi fólks í hættu í óleyfisíbúð.

Fyrirsögn á ruv.is.                                      

Athugasemd: Ég hlýt að búa í „leyfisíbúð“? Hingað til hélt ég að ég ætti bara heima í íbúð. Hún er á efstu hæð í lítilli blokk. Í gamla daga var talað blokkaríbúð en það orð sést sjaldan núorðið. Stigi er frá kallara og alla leið upp til mín og niður aftur. Hann er til mikils hagræðis ekki síður en lyftan sem dragnast lóðrétt sömu leið. Án stiga eða lyftu gæti ég ekki tekið á móti öldruðum frænkum sem vilja koma í heimsókn. Ætli íbúðir í húsinu megi ekki kallist „stigaíbúðir“ eða lyftuíbúðir. Varast ber þó að kalla þá stigamenn sem hlaupa upp og niður stigann sér til heilsubótar. Er það þó réttnefni.

Í gamla daga bjó fólk í húsum sem voru bara ein hæð. Slík hús kallast í dag einlyft og er þó engin lyfta í þeim. Húsið mitt má því kallast „marglyft“ því það er fjórar hæðir með lyftu. Þó hefur enginn lyft húsunum, hvorki þeim sem eru ein hæð eða fleiri. Upplyfting var nafn á hljómsveit og lyfti hún þó engu en lék við hvern sinn fingur.

Ég hef búið úti á landi í „rafamagnsíbúð“ sem er auðvitað lakari en „hitaveituíbúð“ því „rafmögn“ eru dýr. Í útlandinu bjó ég eitt sinn í „óhitaveituíbúð“. Aldrei hef ég búið í öðrum en „leyfisíbúðum“. Ég hef gist nokkrum sinnum í tjaldi, það er sko „óíbúð“. Svo hef ég á ferðum mínum stundum sofið úti undir beru lofti. Er það eiginlega „ekkiíbúð“ og í sjálfu sér „óleyfisíbúð“. Vera má að líf mitt hafi verið í hættu.

Þetta datt mér í hug er ég sá fréttina um „óleyfisíbúð“ og ákvað að skrifa niður þanka mína áður en þeir myndu trufla líf mitt frekar á fögrum sunnudegi.

Tillaga: Kærðir fyrir að stofna lífi fólks í hættu í ósamþykktu húsnæði.

 


Fjall sem er staðsett - vistaðir fyrir rannsókn máls - gengið í gegnum hurð

Orðlof

Grafinn hnífur

Magnús Halldórsson skrifar: „Í fréttaskýringarþætti sem kallaður er hádegið, þ.e. ef ég man rétt, kom í viðtal kona. Sú mun vera sérfræðingur í japönskum keisarafjölskylduvandamálum. Þessi ágæta og greinargóða kona sagði til skýringar á vanda: 

Þarna sem sagt liggur hnífurinn grafinn.“ 

Nú, auðvitað hef ég heyrt um grafinn hund og hníf sem stendur í kú. Ekki man ég eftir þessu ágæta orðatiltæki, er nokkuð víðlesinn þó“: 

Um örlög verður enginn krafinn, 
eitthvað hefur þarna skeð.
Eftir stendur aðeins vafinn,
er þá beljan hundinn með. 

Vísnahornið. Halldór Blöndal. Morgunblaðið 19.10.21, blaðsíðu 25.   

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Eng­ar fregn­ir hafa borist af meiðslum fólks en fjallið er staðsett í suðvesturhluta Jap­ans.

Frétt á mbl.is.                                      

Athugasemd: Fréttin er aðeins níu línur en illa skrifuð. Í stað þess að nota sögnina að vera segir blaðamaðurinn að fjallið sé „staðsett í suðvesturhluta Japans“. Hvernig dettur fullorðnu fólki í hug að segja svona?

Verst er hversu fréttin er ruglingslega skrifuð. Ofangreind málsgrein er annars vegar um fólk og hins vegar um fjallið. Þetta tvennt á ekki að vera þarna í einni málsgrein. Tvær eru betri, nota punkt eins og gert er í tillögunni hér fyrir neðan.

Í fréttinni segir:

Eld­gos er hafið í jap­anska eld­fjall­inu Aso með til­heyr­andi ösku­skýi sem nær þúsund­ir metra upp í loftið.

Mikill munur er á öskumekki og öskuskýi. Líklega er átt við hið fyrrnefnda. Samkvæmt frétt Reuters steig gosmökkurinn upp í 3,5 km hæð. Afar barnalegt er að segja gosmökkurinn hafi náð „þúsundir metra upp í loftið“. 

Of mikið er að segja „tilheyrandi öskuskýi“ vegna þess að misjafnt er hversu mikil aska kemur frá eldgosi. Askan úr gígnum í Geldingadal var frekar lítil, svo dæmi sé tekið.

Tillaga: Eng­ar fregn­ir hafa borist af meiðslum fólks. Fjallið er í suðvesturhluta Jap­ans.

2.

„… og vistaðir fyr­ir rann­sókn máls­ins í fanga­geymslu lög­reglu

Frétt á mbl.is.                                      

Athugasemd: Löggufréttir fjölmiðla byggjast á svokallaðri „dagbók lögreglu“. Hún er oftast illa skrifuð. Þar að auki er oft er þar sagt frá málum sem ekki geta kallast fréttir. Blaðamenn slökkva hins vegar bæði á dómgreind sinni og skynsemi og halda að allt sé frétt sem kemur frá löggunni.

Hvað merkir tilvitnunin hér fyrir ofan? Orðalagið að „vista fyrir rannsókn máls“ er merkingarleysa.  Menn eru settir í fangelsi meðan verið er að rannsaka meint lögbrot þeirra. Slíkt dvöl er ekki vistun, þeir eru í fangelsi. 

Réttara væri að segja þarna:

… og settir í fangelsi vegna rann­sóknar máls­ins …

Betra er þó:

… og settir í fangelsi meðan verið er að rannsaka málið …

Þar sem orðalagið er orðið ansi staðlað og að baki óljós hugsun er eiginlega skást að orða þetta svona:

… og settir í fangelsi …

Varla er neinn settur í fangelsi löggunni eða meintum lögbrjóti til skemmtunar. Nei, það er alltaf verið að rannsaka mál þess sem inn er settur. Algjör óþarfi er að tilgreina það sérstaklega að verið sé að rannsaka málið.

Svo má spyrja hvort fangageymslur séu víðar en hjá löggunni. Eða hvers vegna þarf er sagt „fangageymslu lögreglu“ í ofangreindri tilvitnun? Auðvitað eru þetta bara „pennaglöp“ hjá löggunni sem skrifar enda hugsar hún ekki og enginn les yfir.

Hvers vegna er fangelsi núorðið kallað „fangageymsla“? Síðarnefnda orðið er tómt bull enda hvorki tilhlýðilegt að „geyma“ fólk né „vista“ í örskamman tíma. 

Í fréttinni segir:

Af­skipti voru höfð af ung­um öku­manni bif­reiðar í hverfi 105

Hvað er átt við með „afskipti“? Svona yfirlýsingar frá löggunni eru staðlaðar og ætlast til að allir vita hvað við er átt. Hló löggan að ökumanninum, skensaði hann, skammaði eða hótaði honum? Allt telst þetta „afskipti.“

Seint ætlar löggunni að lærast sú einfalda staðreynd að póstnúmer eru ekki nöfn á hverfum. Fari löggan svona rangt með einfaldar staðreyndir hversu treystandi er henni fyrir mikilvægari málum? Og blaðamenn éta þetta hugsunarlaust upp.

Tillaga:  og settir í fangelsi vegna fyr­ir rann­sókn máls­ins í fanga­geymslu lög­reglu …

3.

Þannig vilja heim­ilda­menn mbl.is meina að hver sem er hafi getað gengið inn og út um eina hurð á saln­um.

Frétt á mbl.is.                                      

Athugasemd: Álíka sárt kann að vera að ganga á hurð og á vegg. Hvorugt lætur undan. Hurðir eru gagnslausar nema í dyrum. Svo má hér upplýsa að nokkur munur er á dyrum og hurð.

Atviksorðið þannig er gott og gilt. Ekki fer þó alltaf vel á því að nota það upphafi setningar. Sé því sleppt í ofangreindri tilvitnun breytist ekkert, en setningin skánar mikið.

Dálítið dönskuskotið er að segja að menn „meini“ eitthvað. Í tilvitnuninni virðast heimildarmennirnir fullyrða það sem þarna kemur fram. Ef svo er ekki er útilokað að skilja málsgreinina og er það mein.

Tillaga: Heimildarmenn mbl.is fullyrða að hver sem er hafi getað gengið inn og út um einar dyr á saln­um.

4.

49 óbirt ljóðahandrit voru send inn undir dulnefni en …

Frétt á ruv.is.                                      

Athugasemd: Grundvallareglan er sú að byrja aldrei málsgrein á tölustöfum. Sá sem spyr hvers vegna hefur ekki tekið vel eftir í skóla. Eða þá að samstarfsmenn hans á fjölmiðlinum halda þessu leyndu til að gera lítið úr honum.

Tillaga: Handrit með 49 óbirtum ljóðum voru send inn undir dulnefni en …

5.

„Ó­hreinsað sorp rennur út í Faxa­flóa næstu vikurnar.

Fyrirsögn á fréttablaðinu.is.                                      

Athugasemd: Auðvitað er þessi fyrirsögn röng en einhver ber ábyrgðina á henni, blaðamaðurinn eða annar starfsmaður. Þarna á að standa skólp. Skyldi þetta verða leiðrétt? 

Já, innan sólarhrings var búið að leiðrétta fyrirsögnina. Það er nú gott. Á mbl.is fá vitleysur að standa svo lengi sem jörðin snýst. Hvað síðar gerist veit ég ekki alveg.

Tillaga: Ó­hreinsað skolp rennur út í Faxa­flóa næstu vikurnar.


Viðbúinn - snögg viðbrögð - fjölpunkta beygja

Orðlof

Nú til dags

Orðasambandið „nú til dags” er fengið að láni úr dönsku „nu til dags” og er ekki alveg nýtt af nálinni. Dags í dönsku er gamalt eignarfall sem stýrðist af forsetningunni til. Í íslensku þykir vandaðra mál að segja til dæmis „nú á dögum.”

Vísindavefurinn. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„… segir að stýrivaxtahækkun Seðlabankans í gær um 0,25 prósent, eða alls í 1,5 prósent, hafi verið viðbúin.

Frétt í Fréttablaðinu.is.                                     

Athugasemd: Af og til öðlast orð miklar vinsældir oft vegna þess að þau virðast flott og gáfuleg.

Ástæðan fyrir því að ég segi þetta um lýsingarorðið „viðbúið“ er að oft er óþarfi að notað það. Orðalagið að búast við dugar ágætlega og er langoftast miklu betra. Einnig má nota orðalagið von á, von til og vonast eftir.

Hér eru nokkur dæmi á vefnum um orðalagið: 

  1. Viðbúið að réttarhöldin standi í níu mánuði.
  2. Viðbúið að Bandaríkin opni á ferðalög …
  3. viðbúið er að hlaupvatn muni halda áfram að dreifa úr sér …
  4. Einnig er viðbúið að fólksflutningar verði meiri hingað til lands þegar uppgangur verður meiri í atvinnulífinu.
  5. Viðbúið er að stokkað verði frekar upp í ráðuneytum.
  6. Eins og e.t.v. var viðbúið þá voru Valsmenn sterkari en Víkingar …
  7. Það voru viðbúin vonbrigði að ekki hefði öllum tekist að rata þann gyllta meðalveg.
  8. Hins vegar er viðbúið að þetta ástand vari fram til áramóta …
  9. … og viðbúið að gosefni dreifist þá víða um sunnan- og vestanvert landið.
  10. Nokkuð viðbúið að rokkhljómsveitin Hawks and Doves (sjá mynd) hafi hækkað vexti.

Í öllum tilvikunum færi betur á því að segja búist er við.

Tillaga… segir að von hafi verið á stýrivaxtahækkun Seðlabankans í gær um 0,25 prósent, eða alls í 1,5 prósent.

2.

„Í tilefni af 10 ára fráfalli Steve Jobs var gerð þessi stuttmynd um líf hans og einstakrar sýn hans.

Texti frá fyrirtækinu Epli á Facebook.                                     

Athugasemd: Textinn er ekki boðlegur. Svona var textinn á ensku á Youtube:

To commemorate the 10th anniversary of Steve’s passing, this short film is a celebration of his life and his extraordinary vision.

Íslenski textinn en hrákasmíði enda oft vonlaust að koma innihaldi til skila með beinni þýðingu. Tillagan hér fyrir neðan er ekki góð en mun skárri.

Tillaga: Nú er þess minnst að tíu ár er frá andláti Steve Jobs og því var þessi stuttmynd gerð um líf hans og stórkostlegar hugsjónir.

3.

„Páll hef­ur, eins og áður hef­ur komið fram, tekið ákvörðun um að stíga til hliðar eft­ir 8 ár í for­stjóra­stóln­um.

Frétt á mbl.is.                                      

Athugasemd: Blaðamaðurinn misskilur allt. Forstjóri Landspítalans er ekki að stíga eða víkja til hliðar. Hann er að hætta. Á þessu tvennu er mikill munur.

Á ensku getur orðalagið „step aside“ merkt tvennt; víkja til hliðar og hætta.

Svo ísmeygileg er enskan að fjölmargir ístöðulitlir blaðamenn halda að í lagi sé að þýða úr henni beint á íslensku. Nú er svo komið að fjöldi fólks heldur að orðalagið „stíga til hliðar“ sé römm íslenska.

TillagaPáll hef­ur, eins og áður hef­ur komið fram, tekið ákvörðun um að hætta eft­ir 8 ár í for­stjóra­stóln­um.

4.

„Von der Leyen boðar snögg viðbrögð vegna Póllands.

Frétt á ruv.is.                                      

Athugasemd: Þegar finna þarf „rétt“ orð hlýtur leitin að byggjast á tilfinningunni fyrir málinu. Sé hún ekki til er skrifarinn í vanda. Góð máltilfinning fæst einna helst með drjúgum lestri bóka og helst talverðum skrifum, helst frá barnæsku.

Orðalagið snögg viðbrögð er ekki rangt. Þó má íhuga orð og orðalag eins og skjót viðbrögð, bregðast fljótt við, bregðast hratt við og svo framvegis. Í fréttinni er líka talað um „hröð viðbrögð“ sem gæti dugað.

Þó það skipti litlu máli má velta því fyrir sér hvað snögg, skjót eða fljót viðbrögð merkja í huga þeirra sem stjórna hjá ESB. Í fréttinni segir:

… hefur beðið embættismenn framkvæmdastjórnarinnar um að fara í saumana á því hvað sé hægt að gera. Næstu skref verða ákveðin að því loknu.

Snöggu, skjótu, hröðu viðbrögðin gætu því látið á sér standa og þeirra beðið um langa hríð. Viku eftir að fréttin birtist hefur ESB ekki enn brugðist við, að minnsta kosti opinberlega.

Tillaga: Von der Leyen boðar skjót viðbrögð vegna Póllands.

5.

„Bjargaði móður sinni frá eldsvoða.

Frétt á mbl.is.                                      

Athugasemd: Talsverður munur er á því að bjarga einhverjum frá eldsvoða eða úr eldsvoða. Samkvæmt fréttinni gerist hið síðarnefnda.

Í fréttinni segir:

Hefði hann ekki komið að móður sinni á þess­um tíma tel­ur hann ólík­legt að hún hefði lifað af en hann þurfti að breiða yfir and­lit henn­ar til þess að koma í veg fyr­ir frek­ari bruna því eld­ur lá á henni líka.

Þetta er nú meira bullið. Annað hvort las blaðamaðurinn ekki textann yfir eða hann er ekki dómbær á hann. Veit ekki hvort er verra.

Tillaga: Bjargaði móður sinni úr eldsvoða.

6.

„… á meðan hver og einn tek­ur fjölpunkta beygju til þess að snúa við í botn­lang­an­um og halda þá leið sem hann kom.

Frétt á mbl.is.                                      

Athugasemd: Aldrei hef ég heyrt um „fjölpunkta beygju“ og hef þó iðulega „fjölbeygt“ á ökumannsferli mínum. 

Í heild sinni er málsgreinin svona:

Í frétt BBC um málið seg­ir að íbú­ar göt­unn­ar segi ástandið stund­um svo slæmt að sjálf­keyr­andi bíl­ar bíði í röðum, hver eft­ir öðrum, á meðan hver og einn tek­ur fjölpunkta beygju til þess að snúa við í botn­lang­an­um og halda þá leið sem hann kom.

Látum nástöðu orðiðs „hver“ vera að þessu sinni. Af forvitninni eini saman skoðaði ég heimild fréttarinnar sem er vefur BBC. Þar stendur:

Residents say vehicles sometimes have to queue before making multi-point turns to leave the way they came.

Vissulega kann að vera að enskumælandi þjóðir tali dags daglega um „fjölpunkta beygjur“. Dreg það þó í efa, held að þetta sé tæknimál. Ég lagðist leit á vefnum og fann það út að „fjölpunkta beygja“ er ekki beygja jafnvel þó notað sé enska orðið „turn“.

Orðalagið er haft um það þegar ökumaður þarf að snúa við þar sem gata er þröng. Þá þarf hann að bakka, aka áfram, bakka, aka áfram og svo framvegis, þangað til hann á greiða leið til baka.

Ég minnist þess ekki að til sé á íslensku orðalag sem lýsir þessum aðgerðum ökumanns og dreg í efa að þörf sé á orðalagi eins og „fjölpunkta beygju“. Fyrir umhverfið er þetta vissulega vandi og var svo fyrir tíma sjálfkeyrandi bíla.

Margvísleg orð og orðasambönd á ensku „vantar“ á íslensku. Dæmi um það er „slow street“ sem er haft yfir þær götur þar sem umferðin er mikil og hæg. Heilalausir þýðendur eins og Google-Transleit kalla svona fyrir brigði „hæga götu“. Bíð eftir að sjá það í íslenskum fjölmiðlum.

Tillaga… á meðan þeir þurfa margoft að bakka og aka áfram til þess að geta snúið við í botn­lang­an­um og komist til baka.

 


Í ferð sem verður farin - að óléttu lokinni - verða fyrir líkamstjóni

Orðlof

Mynd sem telur

No time to die" er lengsta Bond myndin til þessa. Hún telur tvær klukkustundir og 43 mínútur, …

… var lesið af reyndum fréttamanni í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins.

Getur kvikmynd talið?

Sögnin að telja er góð þar sem hún á við en hér er væntanlega um ensk máláhrif að ræða og jafnvel áhrif frá þýðingarforriti Google. Hér hefði auðvitað átt að nota sögnina að vera: 

Myndin er tvær klukkustundir og 43 mínútur (að lengd).

Kjartan Magnússon á Facebook.  

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Auk Shatners mun Au­d­rey Powers, aðstoðarfor­stjóri Blue Orig­in, halda með í ferðina sem far­in verður næsta þriðju­dag.

Frétt á mbl.is.                                      

Athugasemd: Hann ætlar að „halda með í ferðina sem verður farin“ … Þetta er auðvitað tóm vitleysa. Skárra er að orða þetta eins og segir í tillögunni.

Tillaga: Auk Shatners mun Au­d­rey Powers, aðstoðarfor­stjóri Blue Orig­in, fara í ferðina næsta þriðju­dag.

2.

„Borchardt lést 67 ára gamall eftir stutta sjúkrahúsinnlögn

Frétt á vísi.is.                                      

Athugasemd: Aumingja maðurinn lenti í „innanhúslögn“. Ekki furða þó hann hafi dáið. Aðrir eru lagðir inn á sjúkrahús og braggast margir við það séu þeir ekki í „innanhúslögninni“.

Tillaga: Borchardt lést 67 ára gamall eftir stutta sjúkrahúsvist

3.

Þriggja stiga skjálfti laust fyrir miðnætti.

Fyrirsögn á mbl.is.                                      

Athugasemd: Loksins, loksins. Blaðamaðurinn orðar það þannig að skjálftinn hafi verið þrjú stig. Þetta gladdi mig en því miður entist gleðin ekki lengi. Megintextinn byrjar svona:

Jarðskjálfti af stærðinni …

Af orða allir fjölmiðlar þetta á sama hátt. Samantekin ráð? Jarðskjálftar eru stigvaxandi samkvæmt þeim kvarða sem notaður er. Þar af leiðandi er ekkert að því að segja þriggja stiga skjálfti.

Þess í stað er notað stirðbusalega, þreytta og leiðinlega orðalagið „skjálfti af stærðinni“.

Ég man það í sumar að hitinn í Ásbyrgi var af stærðinni 22. Ég veit um mann sem er af stærðinni 185 sm. Kjúklingurinn grillast í ofninum sem er af stærðinni 59,5 x 59,4 x 54,8 sm. Er þetta hægt? Nei, alls ekki.

TillagaEngin tillaga.

4.

„Þar segir hún á ensku að hún vilji sanna að það sé hægt að mæta aftur í atvinnumennsku að ó­léttu lokinni.

Frétt á fréttablaðinu.is.                                      

Athugasemd: Hvernig lýkur óléttu, man það ekki alveg? Jú, yfirleitt með fæðingu. Vera má að blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina viti ekkert um blómin og býflugurnar og hvernig lífið tímgast.

Fæðing, ekki endalok óléttu. 

Furðuleg skrif.

Tillaga: Þar segir hún á ensku að hún vilji sanna að það sé hægt að mæta aftur í atvinnumennsku eftir fæðingu.

5.

„Þá festi Al-Thani-kon­ungs­fjöl­skyld­an í Kat­ar kaup á tveim­ur af dýr­ustu heim­il­um London í gegn­um af­l­ands­fé­lög.

Frétt á mbl.is.                                      

Athugasemd: Eðlilega geta heimili aldrei verið til sölu. Á málinu.is er ágæt skilgreining á heimili:

Bústaður (með tilheyrandi húsgögnum og áhöldum) til einkanota manns (fjölskyldu) að staðaldri.

Lykilorðið er hér bústaður, sem merkir íbúð, hús, hellir, kofi, greni og svo framvegis. Þar sem maður býr er heimili manns. Heimilið flyst með manni. Enginn selur heimili sitt það líklega vonlaus gerningur.

Hitt er svo annað mál að í heimild fréttarinnar, vefur BBC, segir:

The Qatari ruling family purchased two of London’s most expensive homes through offshore companies …

Blaðamaðurinn þýðir þetta beint og hann grunar ekkert, heldur að „home“ þýði beinlínis heimili á íslensku. Svo er ekki alltaf. Skynsamlegt er að skoða samhengið áður en þýtt er blint að hætti „google-translate“.

Tillaga: Al-Thani-kon­ungs­fjöl­skyld­an í Kat­ar keypti tvö af dýr­ustu húsum/íbúðum í London í gegn­um af­l­ands­fé­lög.

6.

„Á mánu­dag­inn var ekið á stúlku við Grandatorg í Reykja­vík og varð hún fyr­ir lík­ams­tjóni.

Frétt á mbl.is.                                      

Athugasemd: Löggan skrifar furðulegt mál sem er í órafjarlægð frá því sem öll alþýða manna talar. Blaðamenn sem margir skrifa oft ágætlega umbreytast þegar þeir fjalla um löggumál. Belgjast út og upphefjast eins og lögfræðinemar á fyrsta ári, buna út úr sér nafnorðakenndu stagli og búast líklega við föðurlegu klappi frá löggumanninum.  

Venjulegt fólk segir að einhver hafi meiðst eða slasast. Blaðamenn og löggan segja að fólk „verði fyrir líkamstjóni“.

Samtal löggunnar við stúlkuna var svona, samkvæmt áreiðanlegum heimildum vegfaranda:

Unga stúlka, varstu fyrir líkamstjóni þegar þú dast? Hvar var vettvangur umferðaóhappsins? Já, einmitt, í hverfi 107. Sástu ekki líkamstjónsvaldinn á bifreið sinni áður en að líkamstjónsatburðurinn gerðist? Hvert er nákvæmlega tjónið á líkamstjóni þínu?

Já, ekki alveg sannleikanum samkvæmt, dálítið, bara dálítið ýkt. Svona er enskuskotið mál. Nafnorðið „líkamstjón“ er orðið aðalatriðið, ekki að einhver hafi meiðst.

Í fréttinni segir:

Lög­regla hafði óskað eft­ir vitn­um að slys­in­um og sömu­leiðis beðið öku­mann­inn um að gefa sig fram.

Heppilegt er að blaðamenn láti villuleitarforritið í tölvunni lesa yfir texta fyrir birtingu. Þessi stafsetningarvilla mun aldrei verða leiðrétt frekar en aðrar sem í fréttum á mbl.is. Textinn var birtur klukkan tíu þann 6. október og rúmlega tíu tímum síðar var hann óbreyttur. Mogginn er hræðilega kærulaus. Klukkan. 18 þann 7. október var villan enn óleiðrétt og þannig verður þar til korter í heimsenda (segi bara svona, veit ekkert hvað gerist þá).

„Atviksorðið „sömuleiðis“ er oft gagnslaust eins og í málsgreininni hér fyrir ofan. Prófið að sleppa því. Ekkert gerist, merkingin er óbreytt en orðalagið betra, miklu betra. Orðið er þarna ómerkileg málalenging, svona „humm og ha“, sem þjónar engum öðrum tilgangi en að lengja mál án sýnilegs tilgangs. 

Jamm og já. Það er nefnilega það. Það held ég nú bara.

Tillaga: Á mánu­dag­inn var ekið á stúlku við Grandatorg í Reykja­vík og meiddist hún.


Úrkomuákefð, talsmennska og Westman Islands

Orðlof

Hæstaréttarmálaflutningsmanns

Fólk hefur lengi velt fyrir sér þessari spurningu og gert sér leik að því að búa til orð eins og Vaðlaheiðarvegavinnuverkfærageymsluskúr eða jafnvel hæstaréttarmála-flutningsmannsvinnukonuútidyralyklakippuhringur. 

Slík orð koma auðvitað ekki fyrir í venjulegu máli en í raun og veru má hugsa sér að halda endalaust áfram að prjóna við þau. 

Menn hafa aftur á móti athugað hversu löng orð koma fyrir í raunverulegum textum og komist að því að þau verði tæpast lengri en 8-10 atkvæði. 

Í einni athuguninni reyndist lengsta orðið sem greinilega var ein heild vera ellefu atkvæði. Það var undirstöðuatvinnufyrirtæki en sjálfsagt er hægt að finna fleiri orð af sömu lengd í öðrum textum.

Orðaborgarar. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Lægðin stefnir til vesturs og beint yfir Vestfjaðakjálkann. Henni fylgir mikil úrkomuákefð

Veðurlýsing á Facebook.                                     

Athugasemd: Ákefð er fallegt orð og merkir samkvæmt málinu.is kappsfullur eða ærslafullur. Yfirleitt er talað um mikla rigningu, úrhelli, steypiregn og svo framvegis. Frekar óþægilegt að tala um úrkomuákefð og staldra margir við orðið og sitt sýnist hverjum.

Fróðleg grein er um orðið á vef Árnastofnunar. Þar segir Ágústa Þorbergsdóttir, málfræðingur:

Orðið úrkomuákefð er íðorð í veðurfræði sem merkir ekki ’mjög mikil rigning’ heldur ’það hversu mikil úrkoma fellur á tímaeiningu’. Langoftast er átt við úrkomu í tiltölulega stuttan tíma, allt niður í um eina mínútu, en gjarnan 10 til 60 mínútur. Á ensku kallast þetta preciptation intensity. Fræðileg orðræða krefst nákvæmra íðorða og það er engan veginn hægt að nota orðið hellirigning á sama hátt og orðið úrkomuákefð.

Til nánari skýringar merkir íðorð fagorð eða fræðiorð. Ágústa segir ennfremur:

Orðið úrkomuákefð er þýðing á preciptation intensity og má spyrja hvort heppilegra hefði verið að þýða intensity á annan hátt. Í Íðorðabankanum má sjá að algengt er að þýða intensity með styrkur eða styrkleiki og því hefði mátt mynda orðin úrkomustyrkur eða úrkomustyrkleiki. 

Þess má þó geta að orðin æfingaákefð og þjálfunarákefð, sem notuð eru í íþróttum, virðast hafa fest sig í sessi en þau eru þýðingar á exercise intensity og training intensity. Þau eru því sambærileg við veðurfræðiorðið úrkomuákefð hvað varðar beina þýðingu og vísa til skilgreindra stiga í þjálfun á sama hátt og veðurfræðiorðið er notað til að mæla magn.

Íþróttaorðin tengjast óneitanlega ákafa eða kappsemi og þar með eru þau nær grunnmerkingunni í orðinu ákefð en veðurfræðiorðið úrkomuákefð.

Mér finnst þetta mjög skynsamlega skrifað og hallast að því sem Ágúst segir og nota orðið úrkomustyrkur frekar en útkomuákefð. Engu að síður ber sérstaklega að fagna áhuga veðurfræðinga að mynda íslensk orð í stað þess að nota ensk orð í umfjöllun á íslensku.

Tillaga: Lægðin stefnir til vesturs og beint yfir Vestfjarðakjálkann. Henni fylgir mikil úrkomustyrkur

2.

„Þau eignuðust þannig nokkur góð ár þar sem góð geðtengsl mynduðust þeirra á milli.

Viðtal á blaðsíðu 40 í Smartlandi Morgunblaðsins 1.10.21.                                     

Athugasemd: Orðið „geðtengsl“ man ég ekki eftir að hafa heyrt fyrr. Gagnslaust að fletta upp í málinu.is en þegar orðið er gúgglað kemur margt fróðlegt í ljós. Læt nægja að vitna í Wikipedia:

Geðtengsl er hugtak í sálfræði og er haft um gagnkvæm tilfinningatengsl milli barns og foreldra sem einkennast af gagnkvæmum tilfinningaböndum og löngun til að viðhalda nánd. 

Orðið er frekar framandi, merkingin fjölþætt, en ekki skal gert lítið úr því að þetta er eflaust hið besta fagorð. Fyrri hluti orðsins, geð, bendir til andlegs sjúkdóms. Samanber fjölmörg orð sem byrja eins.

Hins vegar finnst mér í fljótu bragði að tilfinningabönd eða bara tengsl dugi ágætlega. Samt ber að fagna nýju orði og taka viljann fyrir verkið. 

Tillaga: Þau eignuðust þannig nokkur góð ár þar sem góð tengsl mynduðust þeirra á milli.

3.

„Alls greind­ust 39 kór­ónu­veiru­smit …

Frétt á mbl.is.                                     

Athugasemd: Stórfrétt verður það að kallast að í frétt mbl.is um kórónuveirufaraldurinn byrjar engin málsgrein á tölustaf en á þeim fjölmiðli hefur það hingað til verið miskunnarlaust gert. Mikið má gleðjast yfir litlu.

Vont fólk mun ábyggilega halda því fram að þetta sé tilviljun eða handvömm hjá Mogganum. Við, góða fólkið, viljum sjá hvort framhald verði á þessari nýbreytni áður en afturbatinn verði opinberlega staðfestur.

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„… hafi brotið starfsreglur stjórnarinnar með talsmennsku fyrir virkjunina.

Frétt á blaðsíðu sex í Fréttablaðinu 1.10.21.                                     

Athugasemd: Æ, æ, æ! Orðið „talsmennska“ er ekki til og þar að auki kjánalega myndað. Til er ræðumennska sem merkir allt annað. Líklega er verið að gagnrýna stjórnarmann fyrir að vera fylgjandi byggingu virkjunar og stutt hana í ræðu eða riti. Sé svo hefði átt að orða það þannig.

Tillaga: Engin tillaga.

5.

Congratulations to the Westman Islands.“

Auglýsing á blaðsíðu sjö í Morgunblaðinu 4.10.21.                                     

Athugasemd: Fyrirsögn auglýsingarinnar er á ensku. Með aðstoð orðabókar fann ég út að átt er við Vestmannaeyjar.

Hvers vegna er fyrirsögnin ekki á íslensku? Vera kann að íslenskan sé hallærislegt tungumál í augum alþjóða fyrirtækisins Zeiss í Þýskalandi og þarna votti fyrir hroka.

„Westmann Islands“ er ekki til. Eyjarnar við suðurströnd landsins hafa í meira en eitt þúsund ár verið nefndar Vestmannaeyjar. Það er ekkert annað en fölsun að þýða íslensk örnefni á erlendar tungur.

Einfaldast og um leið fallegast hefði verið að óska Eyjamönnum til hamingju með áfangann - á íslensku.

Tillaga: Til hamingju Eyjamenn.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband