Í ferð sem verður farin - að óléttu lokinni - verða fyrir líkamstjóni

Orðlof

Mynd sem telur

No time to die" er lengsta Bond myndin til þessa. Hún telur tvær klukkustundir og 43 mínútur, …

… var lesið af reyndum fréttamanni í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins.

Getur kvikmynd talið?

Sögnin að telja er góð þar sem hún á við en hér er væntanlega um ensk máláhrif að ræða og jafnvel áhrif frá þýðingarforriti Google. Hér hefði auðvitað átt að nota sögnina að vera: 

Myndin er tvær klukkustundir og 43 mínútur (að lengd).

Kjartan Magnússon á Facebook.  

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Auk Shatners mun Au­d­rey Powers, aðstoðarfor­stjóri Blue Orig­in, halda með í ferðina sem far­in verður næsta þriðju­dag.

Frétt á mbl.is.                                      

Athugasemd: Hann ætlar að „halda með í ferðina sem verður farin“ … Þetta er auðvitað tóm vitleysa. Skárra er að orða þetta eins og segir í tillögunni.

Tillaga: Auk Shatners mun Au­d­rey Powers, aðstoðarfor­stjóri Blue Orig­in, fara í ferðina næsta þriðju­dag.

2.

„Borchardt lést 67 ára gamall eftir stutta sjúkrahúsinnlögn

Frétt á vísi.is.                                      

Athugasemd: Aumingja maðurinn lenti í „innanhúslögn“. Ekki furða þó hann hafi dáið. Aðrir eru lagðir inn á sjúkrahús og braggast margir við það séu þeir ekki í „innanhúslögninni“.

Tillaga: Borchardt lést 67 ára gamall eftir stutta sjúkrahúsvist

3.

Þriggja stiga skjálfti laust fyrir miðnætti.

Fyrirsögn á mbl.is.                                      

Athugasemd: Loksins, loksins. Blaðamaðurinn orðar það þannig að skjálftinn hafi verið þrjú stig. Þetta gladdi mig en því miður entist gleðin ekki lengi. Megintextinn byrjar svona:

Jarðskjálfti af stærðinni …

Af orða allir fjölmiðlar þetta á sama hátt. Samantekin ráð? Jarðskjálftar eru stigvaxandi samkvæmt þeim kvarða sem notaður er. Þar af leiðandi er ekkert að því að segja þriggja stiga skjálfti.

Þess í stað er notað stirðbusalega, þreytta og leiðinlega orðalagið „skjálfti af stærðinni“.

Ég man það í sumar að hitinn í Ásbyrgi var af stærðinni 22. Ég veit um mann sem er af stærðinni 185 sm. Kjúklingurinn grillast í ofninum sem er af stærðinni 59,5 x 59,4 x 54,8 sm. Er þetta hægt? Nei, alls ekki.

TillagaEngin tillaga.

4.

„Þar segir hún á ensku að hún vilji sanna að það sé hægt að mæta aftur í atvinnumennsku að ó­léttu lokinni.

Frétt á fréttablaðinu.is.                                      

Athugasemd: Hvernig lýkur óléttu, man það ekki alveg? Jú, yfirleitt með fæðingu. Vera má að blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina viti ekkert um blómin og býflugurnar og hvernig lífið tímgast.

Fæðing, ekki endalok óléttu. 

Furðuleg skrif.

Tillaga: Þar segir hún á ensku að hún vilji sanna að það sé hægt að mæta aftur í atvinnumennsku eftir fæðingu.

5.

„Þá festi Al-Thani-kon­ungs­fjöl­skyld­an í Kat­ar kaup á tveim­ur af dýr­ustu heim­il­um London í gegn­um af­l­ands­fé­lög.

Frétt á mbl.is.                                      

Athugasemd: Eðlilega geta heimili aldrei verið til sölu. Á málinu.is er ágæt skilgreining á heimili:

Bústaður (með tilheyrandi húsgögnum og áhöldum) til einkanota manns (fjölskyldu) að staðaldri.

Lykilorðið er hér bústaður, sem merkir íbúð, hús, hellir, kofi, greni og svo framvegis. Þar sem maður býr er heimili manns. Heimilið flyst með manni. Enginn selur heimili sitt það líklega vonlaus gerningur.

Hitt er svo annað mál að í heimild fréttarinnar, vefur BBC, segir:

The Qatari ruling family purchased two of London’s most expensive homes through offshore companies …

Blaðamaðurinn þýðir þetta beint og hann grunar ekkert, heldur að „home“ þýði beinlínis heimili á íslensku. Svo er ekki alltaf. Skynsamlegt er að skoða samhengið áður en þýtt er blint að hætti „google-translate“.

Tillaga: Al-Thani-kon­ungs­fjöl­skyld­an í Kat­ar keypti tvö af dýr­ustu húsum/íbúðum í London í gegn­um af­l­ands­fé­lög.

6.

„Á mánu­dag­inn var ekið á stúlku við Grandatorg í Reykja­vík og varð hún fyr­ir lík­ams­tjóni.

Frétt á mbl.is.                                      

Athugasemd: Löggan skrifar furðulegt mál sem er í órafjarlægð frá því sem öll alþýða manna talar. Blaðamenn sem margir skrifa oft ágætlega umbreytast þegar þeir fjalla um löggumál. Belgjast út og upphefjast eins og lögfræðinemar á fyrsta ári, buna út úr sér nafnorðakenndu stagli og búast líklega við föðurlegu klappi frá löggumanninum.  

Venjulegt fólk segir að einhver hafi meiðst eða slasast. Blaðamenn og löggan segja að fólk „verði fyrir líkamstjóni“.

Samtal löggunnar við stúlkuna var svona, samkvæmt áreiðanlegum heimildum vegfaranda:

Unga stúlka, varstu fyrir líkamstjóni þegar þú dast? Hvar var vettvangur umferðaóhappsins? Já, einmitt, í hverfi 107. Sástu ekki líkamstjónsvaldinn á bifreið sinni áður en að líkamstjónsatburðurinn gerðist? Hvert er nákvæmlega tjónið á líkamstjóni þínu?

Já, ekki alveg sannleikanum samkvæmt, dálítið, bara dálítið ýkt. Svona er enskuskotið mál. Nafnorðið „líkamstjón“ er orðið aðalatriðið, ekki að einhver hafi meiðst.

Í fréttinni segir:

Lög­regla hafði óskað eft­ir vitn­um að slys­in­um og sömu­leiðis beðið öku­mann­inn um að gefa sig fram.

Heppilegt er að blaðamenn láti villuleitarforritið í tölvunni lesa yfir texta fyrir birtingu. Þessi stafsetningarvilla mun aldrei verða leiðrétt frekar en aðrar sem í fréttum á mbl.is. Textinn var birtur klukkan tíu þann 6. október og rúmlega tíu tímum síðar var hann óbreyttur. Mogginn er hræðilega kærulaus. Klukkan. 18 þann 7. október var villan enn óleiðrétt og þannig verður þar til korter í heimsenda (segi bara svona, veit ekkert hvað gerist þá).

„Atviksorðið „sömuleiðis“ er oft gagnslaust eins og í málsgreininni hér fyrir ofan. Prófið að sleppa því. Ekkert gerist, merkingin er óbreytt en orðalagið betra, miklu betra. Orðið er þarna ómerkileg málalenging, svona „humm og ha“, sem þjónar engum öðrum tilgangi en að lengja mál án sýnilegs tilgangs. 

Jamm og já. Það er nefnilega það. Það held ég nú bara.

Tillaga: Á mánu­dag­inn var ekið á stúlku við Grandatorg í Reykja­vík og meiddist hún.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Annað sem er máske áhyggjuefni og orsök margra þessara hortitta eg Google translate. Blaðamenn virðast treista á þetta blint og hleypa þessum þýðingum athugasemdarlaust í gegn.

Í gær var frétt um morð í bandaríkjunum þar sem sagt var að atburðirnir hafi átt sér stað "i Árbakka", sem ég man ekki eftir að finnist í USA. Staðurinn heitir River Side við nánari athugun.

Jón Steinar Ragnarsson, 8.10.2021 kl. 04:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband