Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2022

Rumble - mikil sókn við tendrun - brjótandi tíðindi

Orðlof

Þing

Ýmsir gagnlegir hlutir eru stundum kallaðir þarfaþing. Merking fyrri hlutans er augljós, hann vísar til einhvers sem þarft er og tengist t.d. lýsingarorðinu þarfur. 

Orðið þing merkir oftast ’samkoma’ (sbr. alþing) en það getur líka merkt „hlutur’ og það er auðvitað sú merking sem þarna er á ferðinni. 

Hún sést vel á líkindum við danska orðið ting, hið þýska Ding og enska orðið thing sem öll hafa þessa merkingu og eru runnin af sömu rót og íslenska orðið.

Orðaborgarar 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

221128 Moggi1.

„Rumble.

Texti í skopmynd á blaðsíðu 8 í Morgunblaðinu 28.11.22.

Athugasemd: Skopmyndateiknarinn Ívar er oft góður en við ósigldir og illa talandi útlenskur skiljum ekki hvað orðið „rumble“ merkir. Það finnst ekki á málinu.is eða í íslensku orðabókinni sem ég fékk í fermingargjöf fyrir allnokkru. Þar segir þó að rumbi sé mikill sinuflóki, rumba getur verið hellirigning, demba. Og rumpur merkir rass. Rumur er beljaki. Giska má að að líklega sé fjallið beljaki, ef til vill með sinuflóka. E’þaki?

Þetta minnir á manninn sem sagði við afgreiðslustúlku í verslun: „Mæ monní plís“ og bætti svo við; „ef ég má sletta“. Svo brosti hann vinsamlega. Hún svaraði samstundis. „Nei, þú mátt ekki sletta,“ broslaust því slettur eru ekkert grín.

Og þannig er nú það. Annað hvort talar fólk íslensku eða útlensku. Engan milliveg, ekkert hálfkák, hálfyrði, óreiðu, hálfverk, fúsk, vettlingatök … sem afgreiðslustúlkan átti við. 

Tillaga: Rumbi.

2.

„Mikil sókn við tendrun Óslóar­trésins.

Frétt á fréttablaðinu.is. 

Athugasemd: Sókn merkir að sækja fram. Mörg orð enda á sókn. Nefna má framsókn, aðsókn, kirkjusókn, sjósókn, skólasókn, lögsókn, skyndisókn, leiftursókn, tangarsókn svo einhver dæmi séu nefnd. 

Stytting aðsókn í sókn er klúður því lesandinn veit ekki við hvað er átt þó hann geti ráðið í samhengið. Blaðamaður í vafa með orð hlýtur að nenna að fletta upp á málinu.is. Sá sem er svo sjálfsöruggur að hann telji sig ekki þurfa þess gerir vitleysur.

Svo er það hitt, orðalagið er tilgerðarlegt, engin hefð fyrir því. Af hverju var ekki hægt að segja að fjöldi hafi fylgst með því þegar ljósin á trénu voru kveikt. 

Tillagan er jafnlöng í slögum og tilvitnaða setningin.

Tillaga: Margir sáu ljósin kveikt á Óslóartrénu.

3.

„Hvað er verra heldur en að koma inn á heimili einhvers til að skoða húsið þeirra, í heimili ókunnugs fólks?

Frétt á ruv.is. 

Athugasemd: Málsgreinin skilst hún ekki. Hún er viðvaningsleg og ruglingsleg. Þarna segir:

Hvað er verra heldur en að koma …

Sé atviksorðið „heldur“ ekki tekið með verður afar vond málsgrein örlítið skárri. Einfalt er að álykta sem svo að sé orði sleppt og ekkert breytist til hins verra er því ofaukið.

Að öðru leyti er nástaðan drepleiðinleg eins og alltaf, „heimili … heimili“. Hins vegar er útlokað að reyna að lagfæra málsgrein sem ekki skilst.

Ekki er framhaldið gæfulegra. Strax á eftir ofangreindri tilvitnun segir:

Svo tekur hann það upp um nokkur stig með því að láta fólkið vera jafn vonlaust í lífinu og það gjarnan er hjá honum …

Skilur einhver þetta? Það sem á eftir kemur skýrir ekki neitt. Hugsanlega skilst þetta af vörum viðmælandans en ekki í rituðu máli.

Sjaldgæft er að finna svona samhengislaust rugl á vef Ríkisútvarpsins.

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„Hvað gefur maður manni sem á allt í afmælisgjöf?

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Ekki geta allir gert eins og Nóbelsskáldið sem lét söguhetju sína í Íslandsklukkunni segja:

Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?

Eflaust myndi einhver kalla þetta nástöðu en snilldin liggur hins vegar í augum uppi. 

Betur hefði farið á því að blaðamaðurinn hefði hugsað sig um í örlitla stund áður en hann reyndi að vera Laxnes. Svo óskaplega auðvelt er að laga þetta.

Tillaga: Hvað gefur maður þeim sem á allt í afmælisgjöf?

5.

„Arnar tjáir sig um athæfin á RÚV sem allir eru að ræða …

Frétt á dv.is. 

Athugasemd: Nafnorðið athæfi er eintöluorð. Orðið er ekki til í fleirtölu eins og blaðamaður DV virðist halda. Hægt er að nota fjölmörg önnur orð sem hafa svipaða merkingu. Dæmi: Hegðun, breytni, háttalag og hátterni.

Ofangreind málsgrein er fyrirsögn og samin þannig að hún veki forvitni hjá lesendum. Fréttin er hins vegar svo óskaplega ómerkileg, stendur alls ekki undir nafni, að furðu sætir að DV skuli birta hana.

Þannig er nú margt birt í fjölmiðlinum og raunar öðrum sem enginn með snefil af sjálfsvirðingu ætti að snerta á.

Tillaga: Arnar tjáir sig um athæfið á RÚV sem allir eru að ræða …

6.

„Brjótandi tíðindi …

Frétt á dv.is. 

Athugasemd: Ensk orð og orðasambönd er ekki alltaf hægt að þýða beint. Börn halda það og margir fullorðnir sem hafa ekki eru vel að sér í íslensku.

„Breaking news“ er haft um þau tilvik þegar ný og mikilvæg frétt er tekin fram fyrir aðrar. Oft er hefur atburðurinn nýlega gerst eða er enn að gerast. 

Margir íslenskir fjölmiðlar tala um nýja frétt þegar enskir segja „breaking news“. Fer vel á því.

Margir blaðamenn þurfa að hafa það hugfast að vandi þeir sig ekki við fréttaskrif geta þeir ofboðið lesendum og jafnvel fælt þá frá fjölmiðli sínum.

Tillaga: Ný frétt …


Aftur í fyrndinni - sýna viðbrögð - flugskeyti sem fóru og drápu

Orðlof

Nafnorðastíll

Á þessum vettvangi hefur verið vikið nafnorðastílnum svo kallaða, tilhneigingu til að ofnota nafnorð eða búa til ’ný’ samsett nafnorð. Dæmi um þetta blasa víða við. 

Á forsíðu Morgunblaðsins í morgun gat t.d. að líta þriggja dálka fyrirsögn:

Efla þarf skaðaminnkun (Mbl 5.1.17, 1).

Í meginmáli mátti lesa að um var að ræða það sem kallað var skaðaminnkunarverkefni Rauða krossins, einnig kom fram að brýnt væri að þjónusta þennan hóp út frá skaðaminnkun og enn fremur: 

Þarf að efla skaðaminnkunarþjónustu verulega (Mbl 5.1.18, 14). 

– Ekki er öll vitleysan eins, þá væri ekkert gaman að henni.

Málfarsbankinn. Jón G. Friðjónsson. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Ekkert er gefið um að repúblikanar hreppi þau í nægilegum mæli og líklegt að demókratar eigi allnokkur þeirra vís.

Frétt á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu 14.11.22.

Athugasemd: Hér er rætt um atkvæði í bandarísku þingkosningunum. Málsgreinin er loðin og illskiljanleg.

Orðalagið að manni sé ekkert gefið um eitthvað merkir til dæmis að honum líki ekki við eða hafi ímugust á.

Við nánari athugun, nenni maður á annað borð að velta þessu fyrir sér, gæti blaðamaðurinn átt við að ekki sé víst að repúblikanar fái nægilega mörg atkvæði.

Oft á lesandi fréttar tvo kosti. Marglesa það sem hann skilur ekki í fyrstu atrennu, hvort sem illa er skrifað eða málefnið flókið, og reyna að skilja. Hinn kosturinn sem lesandinn getur nýtt sér er sleppa því að lesa fréttina, fletta yfir á næstu síðu.

Af þessu má ráða hversu mikilvægt er að blaðamaður vandi skrif sín, lesi yfir, og helst að einhver annar geri það líka. Það er hins vegar sjaldan gert, viðkvæði fjölmiðlamanna er að ekki sé tími til þess, þeir eru að flýta sér og að endingu bitnar allt á lesandanum. Manni dettur í hug hvað gerðist ef sama viðhorfið væri til dæmis í matvælaframleiðslu. 

Ekki er öll framleiðslan eins, sagði maðurinn, og lokaði dagblaðinu.

Tillaga: Ekki er víst repúblikanar hreppi nógu mörg og líklegt að demókratar eigi allnokkur þeirra vís.

2.

Deilur um ábyrgð komandi kynslóða á því sem gerðist aftur í fyrndinni er fullkomið fánýti og tímasóun …“

Leiðari Morgunblaðsins 14.11.22.

Athugasemd: Öllum getur orðið á í skrifum og þess vegna er brýnt að fá aðra til að lesa yfir því sjálfvirk leiðréttingaforrit hefðu ekki gert athugasemd við ofangreint. 

Þarna er atviksorðinu ’aftur’ ofaukið.

Tillaga: Deilur um ábyrgð komandi kynslóða á því sem gerðist í fyrndinni er fullkomið fánýti og tímasóun …

3.

„Manchester United hefur nú sýnt viðbrögð við því sem fram hefur komið …

Frétt á ruv.is. 

Athugasemd: Þetta er orðalag er í svokölluðum nafnorðastíl sem einkennir ensku. Íslenskt mál byggir á sagnorðum en margir blaðamenn halda að enskt orðalag eigi að vera ráðandi. Þarna er talað um að „sýna viðbrögð“ í stað þess að bregðast við

Fullyrða má að nafnorðastíllinn sé ein sú mesta hætta sem stafar að íslenskunni.

Tillaga: Manchester United hefur nú brugðist við því sem fram hefur komið …

4.

„Dóra Björt kom aftur til Íslands sem trúlofuð kona.

Frétt á fréttablaðinu.is. 

Athugasemd: Þetta er broslegt. Blaðamaðurinn sem samdi fyrirsögnina á skilið hrós fyrir að reyna sitt besta en engu að síður er útkoman hallærislega skondin, líkt og barn hafi samið hana.

Lesandinn spyr sig hvort þessi Dóra Björt hafi farið út sem ólofuð stelpa en komið heim sem trúlofuð kona. Auðvitað er þetta enn barnalegri útúrsnúningur.

Einfaldast er að segja að hún og unnustinn hafi trúlofað sig í útlandinu því ekki var hún ein um þetta.

Tillaga: Engin tillaga.

5.

„Rúss­nesk flugskeyti fóru yfir landa­mæri Pól­lands og drap tvo í kjöl­farið.

Frétt á fréttablaðinu.is. 

Athugasemd: Flugskeytin eru í fleirtölu, þau „fóru“. Svo breytist orðalagið í eintölu og þau „drap“. Ekki heil brú í þessu. Enginn dó „í kjölfari“ flugskeytanna en þau urðu tveimur að bana þegar þau sprungu og það gerðist auðvitað við lendingu.

Tillaga: Tveimur rússneskum flugskeytum var skotið yfir til Póllands og urðu tveimur að bana.


Ganga inn í starf - ganga heilt yfir sáttur frá landsleik - jólahlaðborð sem fer fram

Orðlof

Hælarnir

Skömmu fyrir áramót voru gögn gerð opinber sem sýndu að Eimskip hugðust setja Samskip á hælana eins og það var orðað. 

Hér er einkennilega komist að orði og umsjónarmaður kannast ekki við neinar hliðstæður. 

Merkingin virðist vera ‘leika grátt, fara illa með’ eða ‘koma á kné’. 

Hér er vafalaust um nýmæli að ræða sem orðið er til fyrir áhrif slangurmálsins vera á hælunum’ standa sig illa’ og andstæðunnar vera á tánum ‘standa sig vel’. Hvort tveggja á rætur sínar í ensku eins og vikið var að í 37. þætti, sbr. e. on ones’s toes og down at heel. 

Málfarsbankinn, Jón G. Friðjónsson.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Logi Ein­ars­son, nýr þing­flokks­formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og fyrr­ver­andi formaður flokks­ins, seg­ist ganga auðmjúk­ur inn í þetta nýja starf.

Frétt á mbl.is.

Athugasemd: Hvernig er hægt að „ganga inn í starf“? Er starfið hús eða hellir? Venjan er sú að maður tekur við starfi, gengur að verkefni. Starf eða embætti lykst ekki utan um einstakling. Maðurinn sem er forseti Íslands er ekki inni í starfinu, hann gegnir því.

Alþýða manna vinnur fram á nótt. Gáfumennirnir vinna „inn í nóttina“ (enska: „into the night“).

Mörgum finnst greindarlegt að tala ekki eins og ótíndur almúginn. Slíkir tala aldrei við neinn heldur „eiga samtal“ við einhvern, telja mikilvægt að upphefja sig með sérviskuorðalagi sem virðist líta svo óskaplega vel út.

Lokar maðurinn sem „gengur inn í starfið“ á eftir sér?

Tillaga: Logi Ein­ars­son, nýr þing­flokks­formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og fyrr­ver­andi formaður flokks­ins, seg­ist taka auðmjúkur við starfinu.

2.

„Aðalritarinn kallaði sérstaklega til löndin Kína og Bandaríkin …

Frétt á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 8.11.22.

Athugasemd: Sögnin að kalla merkir að hrópa. Orðalagið að kalla til er þekkt, til dæmis: hún kallaði til mín, félagið kallað til sérfræðing, lögreglan var kölluð til.

Orðalagið að „kalla til Kína og Bandaríkin“ er skrýtið, líklega fundið með „google translate“.

Í netfjölmiðlinum Al Jazeera segir:

The UN secretary-general said the target should be to provide renewable and affordable energy for all, calling on top polluters China and the United States in particular to lead the way.

Líklega er orðalagið svipað í öðrum fjölmiðlum. Aðalritarinn er ekkert að „kalla“ eitt eða neitt, hann er að hvetja ríkin tvö, mestu mengunarsóða heimsins, til að standa sig betur, vera í fararbroddi.

Líklega er vonlaust að berjast gegn enska orðalaginu „to call for“ í margvíslegum merkingum þess. Blaðamenn halda að þeim sé heimilt að þýða orðin eftir merkingu þeirra en ekki samhengi. Staðreyndin er hins vegar þessi: Allir geta orðið blaðamenn en færri geta skrifað íslensku skammlaust. 

Tillaga: Aðalritarinn hvatti sérstaklega Kína og Bandaríkin …

3.

Að fara á tónleika er góð skemmtun.“

Frétt á blaðsíðu 30 í Morgunblaðinu 11.11.22.

Athugasemd: Æ algengara í fjölmiðlum er að málsgrein byrji á nafnháttarmerki og sögn. Má vera að það sé ekkert að því en skelfing finnst mér það ómerkilegt.

Í þessum pistlum hefur sáralítið verið farið út í málfræðilegar skilgreiningar heldur höfðað til málkenndar lesenda. Oftar en ekki hefst málsgrein á frumlagi og á eftir fylgir sögnin. Á þessu eru undantekningar en nafnháttarmerkið ’að’ og sögn er ekki heppilegt í byrjun og hér er einfaldlega máltilfinningin sem ræður enda truflar óbragðið lesturinn.

Tillaga: Gaman er að fara tónleika.

4.

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari A-landsliðs karla í knattspyrnu, gekk heilt yfir sáttur frá vináttulandsleiknum gegn Sádi-Arabíu um síðustu helgi.“

Frétt á blaðsíðu 18 í Fréttablaðinu 11.11.22.

Athugasemd: Átt er við að þjálfarinn hafi verið nokkuð sáttur með árangurinn. Sé svo, hvers vegna fer byrjar blaðamaður á því að setja hann í göngutúr „heilt yfir“ eitthvað. Hjálpar orðalagið lesandanum, auðveldar það skilning hans, taka allir svona til orða?

Blaðamenn sem eiga að temja sér alþýðlegt mál, flytja fréttir án rembings og varast að ofnota orðasambönd:

Þriðja dæmið um ofnotað orðasamband er heilt yfir ‘þegar alls er gætt; almennt séð’, sbr.:

staðreyndin er sú að heilt yfir hafa ríkisútgjöld vaxið gífurlega (24.9.18, 8); […]

Dæmi af þessum toga glymja daglega í eyrum útvarpshlustenda. Mér virðist merkingin fremur óljós og einnig uppruninn. Hvaðan kemur þetta? Giska má á danskt ætterni en þó hef ég ekki fundið beina samsvörun þar. 

Þetta segir Jón G. Friðjónsson í Málfarsbankanum. Honum má treysta.

Fréttin er um fótbolta og í millifyrirsögn segir:

Reynsluboltarnir mikilvægir.

Hvers konar fótboltar eru reynsluboltar? Auðvitað er þetta útúrsnúningur en samt er orðalagið frekar broslegt.

Tillaga: Arnar Þór Viðarsson, þjálfari A-landsliðs karla í knattspyrnu, var nokkuð sáttur eftir vináttulandsleiknum gegn Sádi-Arabíu um síðustu helgi.

5.

„Eld­ur kviknaði í Skíðaskál­an­um í gær­kvöldi þegar þar fór fram fyrsta jóla­hlaðborð vetr­ar­ins.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Nei, jólahlaðborð „fer ekki fram“. Boðið er upp á slíkt. Af hverju eru margir blaðamenn svona áhugalausir um skrif sín. Þeir gleyma því að þúsundir landsmanna eru vel að sér og orðalagið stingur í auga.

Eflaust eru ekki allir sammála því að jólahlaðborð í nóvember sé álíka áhugavert eins og gamlárskvöld í júní.

Tillaga: Eld­ur kviknaði í Skíðaskál­an­um í gær­kvöldi þegar boðið var upp á fyrsta jóla­hlaðborð vetr­ar­ins.


Farinn að fara með fararstjórn - biðfreiðar aka saman - ekki stætt á ráðherrastóli

Orðlof

Íslensk orð úr gelísku

Sterkar vísbendingar eru um að gelíska hafi verið útbreitt mál á Íslandi við landnám og að málskipti hafi orðið á landinu skömmu síðar. Þetta er mat eins helsta sérfræðings landsins í sögu Kelta sem bendir á gríðarlegan mun á íslensku og hinum norðurlandamálunum.

Belja, ær, ýsa, hurð, spýta og strákur. Allt dæmi um orð sem fræðimaðurinn Þorvaldur Friðriksson hefur tekið sem dæmi yfir orð í íslensku sem finnast ekki í öðrum norðurlandamálum.

„Þetta eru allt mjög mikilvæg örnefni. Og ef þetta er rétt, sem ég tel að sé, að þau séu gelísk, þá hlýtur að hafa verið töluð hér gelíska,“ segir Þorvaldur.

Vísir, viðtal við Þorvald Friðriksson fornleifafræðing um bók hans Keltar sem er nýkomin út. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Lygasaga að Helgi sé farinnfara með fararstjórn

Frétt á dv.is. 

Athugasemd: Er þetta nú ekki of mikið? Samviskusamir blaðamenn lesa frétt yfir fyrir birtingu og laga orðalag. Góðir blaðamenn forðast nástöðu. Bestu blaðamennirnir hugsa.

Tillaga: Lygasaga að Helgi sé orðinn fararstjóri.

2.

„Þau fluttu í íbúðina fyr­ir tæp­lega 26 árum ásamt dætr­um sín­um sem eru fjór­ar tals­ins.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Dæturnar eru fjórar og ekkert meira um það að segja. Ekki „talsins“. Atviksorðið er algjörlega óþarft, skýrir ekkert eða hjálpar lesandanum enda er það hér vita gagnslaust. 

Í fréttinni segir:

Vinna Ein­ars fer fram á heim­il­inu á leynd­ar­dóms­full­um stað sem hann vill alls ekki sýna í þætt­in­um.

Maðurinn er rithöfundur og vinnur heima. Orðalagið „fer fram“ er ofnotað og oftast þarflaust.

Tillaga: Þau fluttu í íbúðina fyr­ir tæp­lega 26 árum ásamt fjórum dætr­unum sínum.

3.

„Í hverfi 105 í Reykjavík barst lögreglu tilkynning um ógnandi aðila í fyrirtæki.

Frétt á fréttablaðinu.is. 

Athugasemd: Sjaldan bregðast blaðamenn sem fá það verkefni að vinna fréttir úr „dagbók lögreglunnar“. Þeir taka gleyma út á hvað starf þeirra gengur og tíunda allt. Jafnvel þó löggan haldi að póstnúmer séu heiti á hverfum. Blaðamenn afrita vitleysuna. 

Löggan talar ýmist um aðila, menn eða fólk, getur ekki gert upp hug sinn eða er svo skyni skroppin að allt þetta hrekkur upp úr henni. Blaðamenn afrita vitleysuna og gera enga tilraun til að fylgja eftir þeim fáu fréttapunktum sem löggan birtir.

Í fréttinni segir um slys:

… ekið á gangandi vegfaranda sem kenndi sér þó einskis meins og var ekið heim til sín. 

Er þetta frétt?

Í fréttinni segir:

Í Kópavogi höfðu tvær biðfreiðar ekið saman og skemmst lítilega við árekstur, ekkert líkamstjón varð á fólki.

„Biðfreiðar“ óku saman svo skemmdust þær „lítilega við árekstur“. Spyrja má hvort áreksturinn hafi orðið fyrir eða eftir „samaksturinn“ sem var „lítilegur“. Ekkert „líkamstjón varð á fólki“ en kannski á bílunum.

TillagaEngin tillaga.

4.

„… kall­ar eft­ir því að kjós­end­ur í Banda­ríkj­un­um styðji fram­bjóðend­ur re­públi­kana í þing­kosn­ing­un­um sem haldn­ar verða á morg­un.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Þetta er nú meiri orðaþvælan: „kallar eftir því að kjósendur styðji“. Af hverju gat blaðamaðurinn ekki notast við fyrirsögnina:

Musk hvetur fólk til að kjósa repúblikana.

Hrákasmíðin „kalla eftir“ er komin úr ensku og tröllríður nú öllum fréttum og þykir óskaplega flott, þó veit enginn hvað hún merkir á íslensku annað en að hrópa eða kalla. Hvorugt á við hér. 

Tillagahvetur kjós­end­ur í Banda­ríkj­un­um til að styðja fram­bjóðend­ur re­públi­kana í þing­kosn­ing­un­um sem haldn­ar verða á morg­un.

5.

„Þar hélt hann því fram að Guðlaugi væri ekki stætt á ráðherrastóli ef hann tapaði kosningunni.

Frétt á dv.is.

Athugasemd: Hér er orðtökum klúðrað. Sé skáldað áfram gæti einhver gáfumaðurinn hafa sagt: „sitjandi ráðherra er ekki stætt á ráðherrastóli og þarf að stíga til hliðar“. Og þá myndi hann líklega detta.

Best er að sleppa málsháttum og orðtökum því það er aldrei að vita nema maður fari rangt með eða klúðri þeim eins og hér er gert.

Tillaga: Þar hélt hann því fram að Guðlaugi geti ekki haldið áfram sem ráðherra tapi hann kosningunni.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband