Rumble - mikil sókn við tendrun - brjótandi tíðindi

Orðlof

Þing

Ýmsir gagnlegir hlutir eru stundum kallaðir þarfaþing. Merking fyrri hlutans er augljós, hann vísar til einhvers sem þarft er og tengist t.d. lýsingarorðinu þarfur. 

Orðið þing merkir oftast ’samkoma’ (sbr. alþing) en það getur líka merkt „hlutur’ og það er auðvitað sú merking sem þarna er á ferðinni. 

Hún sést vel á líkindum við danska orðið ting, hið þýska Ding og enska orðið thing sem öll hafa þessa merkingu og eru runnin af sömu rót og íslenska orðið.

Orðaborgarar 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

221128 Moggi1.

„Rumble.

Texti í skopmynd á blaðsíðu 8 í Morgunblaðinu 28.11.22.

Athugasemd: Skopmyndateiknarinn Ívar er oft góður en við ósigldir og illa talandi útlenskur skiljum ekki hvað orðið „rumble“ merkir. Það finnst ekki á málinu.is eða í íslensku orðabókinni sem ég fékk í fermingargjöf fyrir allnokkru. Þar segir þó að rumbi sé mikill sinuflóki, rumba getur verið hellirigning, demba. Og rumpur merkir rass. Rumur er beljaki. Giska má að að líklega sé fjallið beljaki, ef til vill með sinuflóka. E’þaki?

Þetta minnir á manninn sem sagði við afgreiðslustúlku í verslun: „Mæ monní plís“ og bætti svo við; „ef ég má sletta“. Svo brosti hann vinsamlega. Hún svaraði samstundis. „Nei, þú mátt ekki sletta,“ broslaust því slettur eru ekkert grín.

Og þannig er nú það. Annað hvort talar fólk íslensku eða útlensku. Engan milliveg, ekkert hálfkák, hálfyrði, óreiðu, hálfverk, fúsk, vettlingatök … sem afgreiðslustúlkan átti við. 

Tillaga: Rumbi.

2.

„Mikil sókn við tendrun Óslóar­trésins.

Frétt á fréttablaðinu.is. 

Athugasemd: Sókn merkir að sækja fram. Mörg orð enda á sókn. Nefna má framsókn, aðsókn, kirkjusókn, sjósókn, skólasókn, lögsókn, skyndisókn, leiftursókn, tangarsókn svo einhver dæmi séu nefnd. 

Stytting aðsókn í sókn er klúður því lesandinn veit ekki við hvað er átt þó hann geti ráðið í samhengið. Blaðamaður í vafa með orð hlýtur að nenna að fletta upp á málinu.is. Sá sem er svo sjálfsöruggur að hann telji sig ekki þurfa þess gerir vitleysur.

Svo er það hitt, orðalagið er tilgerðarlegt, engin hefð fyrir því. Af hverju var ekki hægt að segja að fjöldi hafi fylgst með því þegar ljósin á trénu voru kveikt. 

Tillagan er jafnlöng í slögum og tilvitnaða setningin.

Tillaga: Margir sáu ljósin kveikt á Óslóartrénu.

3.

„Hvað er verra heldur en að koma inn á heimili einhvers til að skoða húsið þeirra, í heimili ókunnugs fólks?

Frétt á ruv.is. 

Athugasemd: Málsgreinin skilst hún ekki. Hún er viðvaningsleg og ruglingsleg. Þarna segir:

Hvað er verra heldur en að koma …

Sé atviksorðið „heldur“ ekki tekið með verður afar vond málsgrein örlítið skárri. Einfalt er að álykta sem svo að sé orði sleppt og ekkert breytist til hins verra er því ofaukið.

Að öðru leyti er nástaðan drepleiðinleg eins og alltaf, „heimili … heimili“. Hins vegar er útlokað að reyna að lagfæra málsgrein sem ekki skilst.

Ekki er framhaldið gæfulegra. Strax á eftir ofangreindri tilvitnun segir:

Svo tekur hann það upp um nokkur stig með því að láta fólkið vera jafn vonlaust í lífinu og það gjarnan er hjá honum …

Skilur einhver þetta? Það sem á eftir kemur skýrir ekki neitt. Hugsanlega skilst þetta af vörum viðmælandans en ekki í rituðu máli.

Sjaldgæft er að finna svona samhengislaust rugl á vef Ríkisútvarpsins.

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„Hvað gefur maður manni sem á allt í afmælisgjöf?

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Ekki geta allir gert eins og Nóbelsskáldið sem lét söguhetju sína í Íslandsklukkunni segja:

Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?

Eflaust myndi einhver kalla þetta nástöðu en snilldin liggur hins vegar í augum uppi. 

Betur hefði farið á því að blaðamaðurinn hefði hugsað sig um í örlitla stund áður en hann reyndi að vera Laxnes. Svo óskaplega auðvelt er að laga þetta.

Tillaga: Hvað gefur maður þeim sem á allt í afmælisgjöf?

5.

„Arnar tjáir sig um athæfin á RÚV sem allir eru að ræða …

Frétt á dv.is. 

Athugasemd: Nafnorðið athæfi er eintöluorð. Orðið er ekki til í fleirtölu eins og blaðamaður DV virðist halda. Hægt er að nota fjölmörg önnur orð sem hafa svipaða merkingu. Dæmi: Hegðun, breytni, háttalag og hátterni.

Ofangreind málsgrein er fyrirsögn og samin þannig að hún veki forvitni hjá lesendum. Fréttin er hins vegar svo óskaplega ómerkileg, stendur alls ekki undir nafni, að furðu sætir að DV skuli birta hana.

Þannig er nú margt birt í fjölmiðlinum og raunar öðrum sem enginn með snefil af sjálfsvirðingu ætti að snerta á.

Tillaga: Arnar tjáir sig um athæfið á RÚV sem allir eru að ræða …

6.

„Brjótandi tíðindi …

Frétt á dv.is. 

Athugasemd: Ensk orð og orðasambönd er ekki alltaf hægt að þýða beint. Börn halda það og margir fullorðnir sem hafa ekki eru vel að sér í íslensku.

„Breaking news“ er haft um þau tilvik þegar ný og mikilvæg frétt er tekin fram fyrir aðrar. Oft er hefur atburðurinn nýlega gerst eða er enn að gerast. 

Margir íslenskir fjölmiðlar tala um nýja frétt þegar enskir segja „breaking news“. Fer vel á því.

Margir blaðamenn þurfa að hafa það hugfast að vandi þeir sig ekki við fréttaskrif geta þeir ofboðið lesendum og jafnvel fælt þá frá fjölmiðli sínum.

Tillaga: Ný frétt …


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Theódór Norðkvist

Mér sýnist vera a.m.k. ein villa í viðbót í textanum í skopmyndinni. Á maður ekki að segja er kominn á steypinn (ekki steypirinn?)

Theódór Norðkvist, 1.12.2022 kl. 21:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband