Elta drauminn - allt múlígt maður - óleyfisíbúð

Orðlof

Brottfall

En nú virðist sem sagt hilla undir breytingar. Afleiðingarnar eru að málið breytist hratt. 

Áherslur eru að breytast, bæði í orðum og setningum, brottfall í áherslulausum atkvæðum er áberandi [fosstráðherrann, hljósstinn] - og hljóðrof og tafs er orðið algengt - og þykir fínt.

Tryggvi Gíslason.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Ekkert sé komið fram sem bendi til þess að slíkir ágallar hafi verið á kosningunni í Norðvesturkjördæmi sem leitt geti til ógildar þeirra.

Frétt á ruv.is.                                      

Athugasemd: Hér er verið að tala um kosninguna, í eintölu. Þar af leiðandi á persónufornafnið líka að vera í eintölu, ekki „þeirra“ heldur hennar. 

Blaðamaðurinn virðist hafa gleymt að lesa yfir. Þarna stendur „leitt til ógildar þeirra“ sem er óskiljanlegt orðalag.

Tillaga: Ekkert sé komið fram sem bendi til þess að slíkir ágallar hafi verið á kosningunni í Norðvesturkjördæmi sem leitt geti til ógildingar hennar.

2.

„Dönsk útfærsla á rétti almennings til beinnar aðkomu að ákvörðunum með þjóðaratkvæðagreiðslum gæti átt fullt erindi í íslenska umræðu um meðferð fullveldisréttar og alþjóðlegra samninga ekki síður en til að mæta vilja þeirra sem kjósa lifandi málskotsrétt minni hluta þingmanna gagnvart nýjum lögum – eða til að mæta vilja annars áhugafólks um þjóðaratkvæðagreiðslur.“

Frétt á blaðsíðu 16 í Morgunblaðinu 22.1.021                                     

Athugasemd: Þessa löngu málsgrein skil ég ekki að fullu. Gæti trúað að svo sé um fleiri. Fréttin er um atriði sem gleymdist að birta í grein sem send var til blaðsins. Ekki veit ég hvort leiðréttingin er blaðamanns eða greinarhöfundar.

Fyrri hluti málsgreinarinnar er nokkuð skýr, svo er talað um „lifandi málskotsrétt“ sem er erfitt að skilja. Einnig er illskiljanlegt þetta um „vilja annars áhugafólks um þjóðaratkvæðagreiðslur“. Ég telst til hóps áhugafólks um fjallaferðir og því gengur hann á fjöll. Velti fyrir mér hvort „áhugafólk um þjóðaratkvæðagreiðslur“ hafi ekkert annað fyrir stafni en að vilja þjóðaratkvæðagreiðslur. Af þessu má sjá að hið minnsta einn lesandi er í skilningsþoku staddur ofan við dalinn.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„Ásamt kórónuveirufaraldrinum setti fornleifauppgröftur strik í reikninginn hvað framkvæmdahraða varðar.

Frétt á blaðsíðu 6 í Morgunblaðinu 23.10.21.                                     

Athugasemd: Setningin er skelfilega ljót.

Tillaga: Kórónuveirufaraldurinn og fornleifauppgröftur töfðu framkvæmdirnar. 

4.

„Hætti í bankanum til að elta drauminn.

Fyrirsögn á mbl.is.                                      

Athugasemd: Aðalatriðið er hvers vegna draumurinn flúði  og hvers vegna þurfti að elta hann.

Á íslensku tölum við um að láta drauminn rætast. Við „eltum hann“ ekki eins og það er orðað á ensku. „Follow my dream“ þýðir ekki að „elta draum sinn“. Enska sögnin „follow“ hefur margar merkingar. Meðal annars að elta, fylgja, fara eftir og skilja svo dæmi séu tekin. 

Ekki má þýða beint af ensku yfir á íslensku, jafnvel þó orðin séu kunnugleg. 

Sagt er til dæmis á ensku: 

He follows Manchester United.

Varla mun nokkur maður þýða þetta á þessa leið:

Hann eltir Manchester United.

Svona þýðing væri ekki til fyrirmyndar, ekki frekar en að „elta drauminn“. Maðurinn hlýtur að halda með Manchester United, styðja félagið.   

Tillaga: Hætti í bankanum til að láta drauminn rætast.

5.

„Hæstaréttarlögmaðurinn Vilhjálmur H. Vilhjálmsson segist vera allt múlígt maður á lögfræðiskrifstofunni sinni en …

Frétt á vísi.is.                                     

Athugasemd: Hvað merkir orðasambandið „allt múligt maður“? Er frekar illa að mér í færeysku. Vera má að stafsetningin sé röng, fann ekki þetta í orðabók.

Tillaga: Hæstaréttarlögmaðurinn Vilhjálmur H. Vilhjálmsson segist vera í mörgum og mismunandi verkefnum á lögfræðiskrifstofunni sinni en …

6.

„Kærðir fyrir að stofna lífi fólks í hættu í óleyfisíbúð.

Fyrirsögn á ruv.is.                                      

Athugasemd: Ég hlýt að búa í „leyfisíbúð“? Hingað til hélt ég að ég ætti bara heima í íbúð. Hún er á efstu hæð í lítilli blokk. Í gamla daga var talað blokkaríbúð en það orð sést sjaldan núorðið. Stigi er frá kallara og alla leið upp til mín og niður aftur. Hann er til mikils hagræðis ekki síður en lyftan sem dragnast lóðrétt sömu leið. Án stiga eða lyftu gæti ég ekki tekið á móti öldruðum frænkum sem vilja koma í heimsókn. Ætli íbúðir í húsinu megi ekki kallist „stigaíbúðir“ eða lyftuíbúðir. Varast ber þó að kalla þá stigamenn sem hlaupa upp og niður stigann sér til heilsubótar. Er það þó réttnefni.

Í gamla daga bjó fólk í húsum sem voru bara ein hæð. Slík hús kallast í dag einlyft og er þó engin lyfta í þeim. Húsið mitt má því kallast „marglyft“ því það er fjórar hæðir með lyftu. Þó hefur enginn lyft húsunum, hvorki þeim sem eru ein hæð eða fleiri. Upplyfting var nafn á hljómsveit og lyfti hún þó engu en lék við hvern sinn fingur.

Ég hef búið úti á landi í „rafamagnsíbúð“ sem er auðvitað lakari en „hitaveituíbúð“ því „rafmögn“ eru dýr. Í útlandinu bjó ég eitt sinn í „óhitaveituíbúð“. Aldrei hef ég búið í öðrum en „leyfisíbúðum“. Ég hef gist nokkrum sinnum í tjaldi, það er sko „óíbúð“. Svo hef ég á ferðum mínum stundum sofið úti undir beru lofti. Er það eiginlega „ekkiíbúð“ og í sjálfu sér „óleyfisíbúð“. Vera má að líf mitt hafi verið í hættu.

Þetta datt mér í hug er ég sá fréttina um „óleyfisíbúð“ og ákvað að skrifa niður þanka mína áður en þeir myndu trufla líf mitt frekar á fögrum sunnudegi.

Tillaga: Kærðir fyrir að stofna lífi fólks í hættu í ósamþykktu húsnæði.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband