Óvarleg sprenging - ökutæki sem taka á sig vind - mikilvægi þess

Orðlof

Ískyggileg þróun

„Íslenskan á vissulega undir högg að sækja,“ svarar Kristinn alvarlegur í bragði, „við erum með nemendur sem nálgast að vera tvítyngdir, það er orðið mun erfiðara að ná til nemenda með íslenskum fornsögum, Völuspá og slíku svo við þurfum virkilega að halda vöku okkar og ekki síður að bæta útgáfu kennslubóka á íslensku. 

Ef við gætum okkar ekki verður íslenskan bara tungumál sem við notum á tyllidögum,“ segir hann og kveður þróunina ískyggilega. 

Viðtal við Kristinn Þorsteinsson skólameistara FG. Morgunblaðið, 28.10.21 blaðsíða 32.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Ó­var­leg sprenging lokaði vegi um Skorradal.

Fyrirsögn á fréttablaðinu.is.                                      

Athugasemd: Sprenging getur ekki verið „óvarleg“. Sprenging er bara sprenging. Hins vegar getur verið að óvarlega sé sprengt. Það er allt annað og rökrétt. 

Tillaga: Illa staðið að sprengingu sem lokaði vegi um Skorradal.

2.

Útsalah á Old Trafford.

Fyrirsögn á blaðsíðu 27 í Morgunblaðinu 25.10.21.                                     

Athugasemd: Manchester United lék á heimavelli sínum við  Liverpool. Einn leikmenna síðarnefnda liðsins er Egypti og heitir Salah. Hann er óumdeilanlega einn mesti markaskorari á Englandi, Egyptalandi og víðar um byggð ból.

Þeim leyfist ýmislegt, gárungunum á íþróttadeild Moggans. Víst er að þeir eru stundum fyndnir.

Ekki fer þó alltaf vel á því að stunda bögumælaíþrótt í fréttaskrifum. Þó gat ég ekki annað en glott er ég las fyrirsögnina. Ég skildi hana nokkuð fljótt enda þótt ég fylgist ekki svo ýkja mikið með enska fótboltanum. Svo brosti ég með sjálfum mér.

Blaðamenn taka áhættu með orðaleikjabrandara. Hann getur misheppnast og lesandinn skilur ekkert. Er þá ekki betra að sleppa brandaranum?

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„Hættulegt ökutækjum sem taka á sig mikinn vind.

Fyrirsögn á mbl.is.                                      

Athugasemd: Staðlað orðalag er óskaplega þreytandi í fréttum. Ekki veit ég hvaðan ofangreind tilvitnun kemur upprunalega. Hún lyktar af stofnanamállýsku. Við, alþýða manna, tölum um bíla, rútur, flutningabíla en aldrei ökutæki.

Staðreyndin er sú að allir bílar „taka á sig mikinn vind“. Vindur sneiðir ekki framhjá sumum bílum en feykir öðrum um koll. Hvað er þá átt við með ofangreindum orðum? Ekki þarf að vera mjög hvasst til að hjólreiðamaður eigi í erfiðleikum. Sko, hjól eru ökutæki, einnig rafhjól, hlaupahjól, þríhjól og ef til vill hjólaskautar.

Segl á skipum eru hönnuð til að taka í sig mikinn vind. Hliðarvindur getur feykt litlum og stórum bílum um koll og jafnvel ýtt hús af grunni sínum. Fátt er betra en þegar seglskip sigla á lensi, það er með vindinn í bakið. „Ökutæki sem taka á sig mikinn vind“ er lítil hætta búin er þau aka undan vindi.

TillagaHvassviðri sem getur verið hættulegt bílum.

4.

„Má hér nefna mikilvægi þess að malbikun Dynjandisheiðar verði lokið sem fyrst …

Grein á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu 26.10.21.                                     

Athugasemd: Algengt er að lesa þessi orð: „mikilvægi þess“ í aðsendum greinum og fréttum fjölmiðla. Orðalagið er orðið svo gelt og að ekki tekur nokkru tali. Prófið að gúggla. Upp kemur ótrúlega mikill fjöldi tilvitnana og eru eins og „kassar á lækjarbakka og allir eins“ eins og segir í vinsælu lagi.

Mikilvægi þess að …

  • … hugsa tuttugu ár fram í tímann
  • … lesa fyrir börn
  • … hafa rétt til tjáningar um lífsreynslu 
  • … fara varlega í afléttingar
  • … hugsa um stafrænu markaðssetninguna alla leið
  • … setja heilbrigð mörk í samskiptum

Í öllum tilvikum er auðvelt að umorða til að höfundurinn lendi nú ekki í sama feninu og allir aðrir virðast vera svamlandi í.

Þegar ég hef leiðbeint fólki í smíði greina, ritgerða og jafnvel bóka hef ég lagt áherslu á að sleppa til dæmis hortittum eins og aukafrumlaginu „það“, „þess“ og álíka. Yfirleitt þarf fólk þá að hugsa nánar um frásögnina og uppbyggingu málsgreinarinnar sem er afar holl pæling. Betra er að nota sagnir fullum fetum en ekki flækja sig í stofnanalegum skrifum sem hendir ólíklegasta fólk, og er ég engin undantekning.

Svo má nefna hér að flestar aðsendar greinar í fjölmiðlum eru alltof langar. Auðvelt er að stytta þær um þriðjung án þess að efni eða hugsun bíði skaða af. Betra er fyrir vana og óvana skrifara að biðja aðra um að lesa yfir.

Málefnalega góð grein og full af fróðleik getur verið hundleiðinleg. Fólk gefst upp við lesturinn. Munum að ekki eru allar aðsendar greinar í fjölmiðlum mikið lesnar. Stuttar greinar með millifyrirsögnum eru bestar. Stærri greinar týnast.

Tillaga: Mikilvægast er að ljúka við að malbika Dynjandisheiði sem fyrst …

5.

„Birgir Ármannsson, formaður undirbúningsnefndar um rannsókn kjörbréfa, segir hefð fyrir því að telja atkvæði sem eru eingöngu merkt með strikun yfir frambjóðanda án þess að merkt sé við listabókstaf sem atkvæði greitt flokki þeim sem frambjóðandinn sem strikað er yfir sé í.

Frétt á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu 1.11.21.                                 

Athugasemd: Er ekki hægt að orða þetta betur en með langri og flókinni málsgrein? Tillagan hér fyrir neðan er mun skárri.

Tillaga: Birgir Ármannsson, formaður undirbúningsnefndar um rannsókn kjörbréfa, segir hefð fyrir því að atkvæði með yfirstrikuðu nafni frambjóðanda sé gilt þó ekki sé krossað við flokksheitið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband