Orðlof
Búin að vera að ganga?
Allnokkrir fréttamenn kunna ekki einfaldar sagnbeygingar. Þeir virðast alls ekki kunna skil á núliðinni tíð, heldur þrástagast á búið að, búið að og sama gildir um framtíð þar sem hún er látin víkja fyrir kemur til með að. Þetta er ekki einungis ljótt mál og klúðurslegt, heldur smitar það út frá sér til almennings eins og ótal dæmi sanna.
Þeir hinir sömu eiga líka í miklu basli að greina á milli framsöguháttar og viðtengingarháttar, ekki einungis á eftir hvort og ef, heldur hættir þeim til að ofnota viðtengingarhátt þar sem betur fer á einföldum framsöguhætti. [ ]
Það eru ekki aðeins sagnir sem vefjast fyrir þessum mönnum. Málfar þeirra einkennist einnig af orðafátækt, enda staglast þeir sí og æ á sömu orðum og orðasamböndum og svo hættir þeim til að hrúga inn nafnorðum í stað sagna sem gera málið spengilegra og beinskeyttara.
Í þeirra munni ræða menn ekki mál, heldur taka orðræðu, fundir standa ekki enn, heldur eru enn í gangi og mót, hátíðir eða samkomur eru ekki haldnar, heldur fara fram.
Raunar má segja að næstum hreint allt sé í gangi eða fari fram. En málfari fer því miður ekki fram.
Njörður P. Njarðvík. Grein í fréttablaðinu.is.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Við erum að reyna að horfa á hluti sem eru undir yfirborði jarðar.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Hér vitnað í viðtal við eldfjallafræðing. Hann talar eins og margir aðrir fræðingar, blátt áfram. Engu að síður er vonlaust að horfa á það sem ekki sést, hversu mikið sem reynt er.
Nú kann einhver að segja að þetta sé sagt í óeiginlegri merkingu. Það er rétt, en þá er betra að nota annað orðalag, að minnsta kosti í frétt sem skrifuð er á netinu. Til dæmis:
Við reynum að fylgjast með ýmsu sem gerist undir yfirborði jarðar.
Líklega er það þetta sem eldfjallafræðingurinn á við. Sé svo er svo auðvelt fyrir blaðamanninn að lagfæra talmálið og færa til ritmáls.
Tillaga: Við reynum að fylgjast með ýmsu sem gerist undir yfirborði jarðar.
2.
Þá voru fjallgöngur sérlega vinsælar á meðal þeirra sem ekki skelltu sér í sólina í útlöndum. Norður- og Austurland voru sérlega vinsælir áfangastaðir sumarið 2021, enda var besta veðrið þar í júlí og ágúst.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Sérlegur blaðamaðurinn er ekkert sérlega gagnrýninn á eigin texta. Atviksorðið sérlega er þarna í nástöðu og raunar alveg óþarft.
Best er að skrifa almennt mál, varast að ofnota orð og orðasambönd. Í þessu sambandi er ekkert að því að nota orð eins og mjög, afar, afskaplega og svo framvegis.
Ofangreindar málsgreinar er klúðurslegar. Þar að auki er þetta mat blaðamannsins sem er alltaf afar slæm heimild og telst slæm blaðamennska. Hann á að nota aðrar heimildir.
Skrýtið hvernig orð öðlast vinsældir á hjá blaðamönnum. Nefna má orð eins og sérlega, tímapunktur (sem er orðleysa, algjörlega gagnslaust), staðsettur, viðbúið, landsvísa, heimsvísa og fleiri.
Tillaga: Þá voru fjallgöngur mjög vinsælar á meðal þeirra sem ekki skelltu sér í sólina í útlöndum. Á Norður- og Austurland er margir vinsælir áfangastaðir sumarið 2021, enda var besta veðrið þar í júlí og ágúst.
3.
35 starfsmenn eru hjá farsóttarhúsum og
Frétt á blaðsíðu 35 í Morgunblaðinu 31.12.21.
Athugasemd: Þetta birtist í frétt um farsóttarhús. Margir blaðamenn Morgunblaðsins kunna ekki einfalda reglu í skrifum: Aldrei byrja málsgrein á tölustaf. Jafnvel reyndustu blaðamenn Moggans falla á þessu prófi.
Tillaga: Þrjátíu og fimm starfsmenn eru hjá farsóttarhúsum og
4.
548 greindust með kórónuveiruna innanlands í gær
Athugasemd: Bæði Vísir og Mogginn féllu á prófinu. Í báðum fjölmiðlum byrja fréttin á tölustöfum og er það hvergi gert í vestrænum fjölmiðlum. Nemendur í skólum landsins fengju bágt fyrir ef þeir skrifuðu tölustaf í upphafi málsgreinar.
Þannig er aldrei skrifað á fréttablaðinu.is og ekki í dag á ruv.is og ekki heldur á DV.is.
Tillaga: Alls greindust 586 einstaklingar með kórónuveiruna innanlands í gær
5.
Líklegt er talið að bilunin tengist því að útleysing varð í aflvél í Búrfellsvirkjun
Frétt á mbl.is og fleiri fjölmiðlum.
Athugasemd: Í fréttinni er fjallað um bilun og skort á heitu vatni í Rangárþingi ytra, Rangárþingi eystra og Ásahreppi. Fréttin er illskiljanleg.
Hvað er útleysing? Finn ekki þetta orð í orðbókunum mínum. Í orðasafni Rarik segir:
Sjálfvirk útleysing, handvirkt rof sem ekki var gert ráð fyrir eða misheppnuð innsetning við bilun í raforkukerfinu.
Ég er litlu nær. Og hver er munurinn á vél og aflvél?
Varla er það til of mikils mælst að fyrirtæki sem útvega rafmagn skýri fagorðin svo fólk skilji hvað átt er við. Mesta undrun vekur að blaðamenn skuli birta fréttatilkynningu frá Veitum án skýringa. Sumir eru svo kokhraustir að þeir eigna sér hluta af efni fréttatilkynningarinnar, sleppa gæsalöppum, svo fréttin líti út eins og þeir hafi skrifað hana en ekki Veitur.
Þori að veðja að blaðmaður Moggans og annarra fjölmiðla hafi ekki hugmynd um hvað þetta þýðir:
Líklegt er talið að bilunin tengist því að útleysing varð í aflvél í Búrfellsvirkjun sem olli útleysingu hjá álveri Rio Tinto í Straumsvík. Við það kom tíðnihögg á rafkerfið og dælan stöðvaðist og ekki var hægt að koma henni í gang aftur.
Svona er ekki blaðamennska.
Tillaga: Engin tillaga.
6.
Ég gæti mögulega hugsað mér að snúa aftur í stjórnmál síðar á lífsleiðinni
Frétt á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu 3.1.22.
Athugasemd: Sumt fólk hefur tekið ástfóstri við atviksorðið mögulega og nota það í tíma og ótíma. Viðmælandinn segist mögulega geta hugsað sér.
Orðið mögulega merkir einfaldlega það sem er hugsanlegt. Varla er það svo að viðmælandinn gæti hugsanlega hugsað sér að fara aftur í stjórnmál?
Tillaga: Ég gæti hugsanlega snúið aftur í stjórnmál síðar á lífsleiðinni
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)