Netsamband skorið niður - fundur fer fram - berskjalda sig inn að beini

Orðlof

Áskoranir

Ég hef tekið eftir því að nú til dags eru ekki lengur til viðfangsefni, vandamál eða erfiðleikar sem þarf að takast á við. Nei, þetta heitir allt áskoranir sem þarf að mæta. 

Það er talað um alþjóðlegar áskoranir, pólitískar áskoranir, áskoranir innan knattspyrnu, áskoranir í kynþáttabili, áskoranir smáríkja og áskoranir Íslands svo nokkur dæmi séu tekin af handahófi úr almennri umræðu í fjölmiðlum.

Guðmundur Sv. Hermannsson. Ljósvakinn, Morgunblaðið 25.10.22. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„… og síðan hafa mannfjöldatölur í Rússlandi aðeins farið í eina átt, niður á við.

Frétt á dv.is. 

Athugasemd: Vinur minn einn, nokkuð glúrinn alþýðumaður, heldur því fram að annað hvort fjölgi fólki eða því fækki. Sem sagt „talan“ getur farið upp eða niður, það er hækkað eða lækkað.

Vera má að eitthvað flóknara kerfi liggi að baki orðum blaðamannsins en það kemur ekki fram í fréttinni.

Tillaga: … og síðan hefur fólki fækkað í landinu.

2.

„ISNA-frétta­stof­an í Íran sagði að netsambandið hefði verið skorið niður í Saqez af „ör­ygg­is­ástæðum“ og að nærri 10.000 manns hefðu safn­ast sam­an í borg­inni.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Blaðamaðurinn var látinn þýða enska frétt sem birtist á Reuters og er svona:

The semi-official ISNA news agency said about 10,000 people had gathered at the cemetery, adding that the internet was cut off after clashes between security forces and people there.

Blaðamaðurinn hefur engar vöfflur á sér heldur þýðir beint og þykist góður. „The internet was cut off“ stendur í heimildinni sem hann útleggur; „netsambandið hefur verið skorið niður“.

Hvað á að segja um svona vinnubrögð?

Tillaga: ISNA fréttastofan í Íran sagði að um 10.000 manns hefðu safnast saman í kirkjugarðinum og bætti því við að netsambandinu þarna hefði verið lokað eftir átök öryggissveita og almennings.

3.

Ónýtur skriðdrekaturn liggur á jörðinni nálægt …“

Myndatexti á blaðsíðu 29 í Morgunblaðinu 27.10.22.

Athugasemd: Athugulir lesendur Morgunblaðsins sáu hugsanlega að skriðdrekaturninn var ekki uppi í nærliggjandi trjám. Blaðamaðurinn treysti því ekki, þó alkunna sé að ein mynd segi meira en þúsund orð. Honum þótti vissara að lýsa myndinni.

Tillaga: Ónýtur skriðdrekaturn nálægt …

4.

„… eða hvað sem er und­ir önn­ur mál á fundi félgs­ins sem fram fer í kvöld.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Nú „fer allt fram“, ekkert verður. Margir blaðamenn virðast ekki hafa góða máltilfinningu og því apa þeir upp eftir öðrum orðalag sem gæti gengið. 

Tillaga: … eða hvað sem er und­ir önn­ur mál á fundi félags­ins sem verður í kvöld.

5.

Arsenal-menn mest sannfærandi.“

Frétt á blaðsíðu 27 í íþróttablaði Morgunblaðsins 31.10.22.

Athugasemd: Sá sem er sannfærandi getur til dæmis verið öruggur með sig, afgerandi, vel heppnaður, hrífandi, áhrifaríkur og svo framvegis. Má vera að blaðamanni finnist lið Arsenal vera trúverðugt í leik sínum en fleiri lið hafi verið það líka. 

Lýsingarorðið sannfærandi á ekki við í frétt Moggans. Mörg lið sem eru sannfærandi í leik sínum hafa í raun staðið sig vel en eitt verið betra en önnur. Þar af leiðir að einfaldast hefði verið að nota lýsingarorðið góður í efsta stigi.

„Mest hugsandi“ blaðamenn eru án efa „best skrifandi“ og „lítt skeytandi“ um „sífellt fækkandi“ lesendur. Við bíðum bara á „öndinni standandi“ hvað verði „nýtt fréttandi“ í fjölmiðlum morgundagsins. 

Tillaga: Arsenal-menn bestir.

6.

„Þol­endur eiga ekki að þurfa að ber­skjalda sig inn að beini til þess að við trúum þeim.

Frétt á fréttablaðinu.is.  

Athugasemd: Berskjaldaður maður er varnarlaus. Orðalagið að „berskjalda sig inn að bein“ er ekki til. Sá sem er stendur berskjaldaður hefur enga vörn, hefur engan skjöld sér til varnar. 

Í áhugaverðum pistli segir Eiríkur Rögnvaldsson um þetta orðalag:

Merkingin virðist oftast vera ’opna sig, bera tilfinningar sínar á torg’ frekar en beinlínis ’gera sig varnarlausan’ þótt þarna sé vissulega stutt á milli og segja megi að opnunin leiði til varnarleysis. 

Örfá dæmi eru um sögnina frá tveimur síðustu áratugum 20. aldar og fyrsta áratug þessarar, en allmörg dæmi eru frá síðasta áratug. Það er þó einkum á síðustu tveimur árum sem dæmum fjölgar verulega – sögnin er greinilega búin að ná fótfestu meðal málnotenda. Það er engin ástæða til annars en fagna því – mér finnst þetta ágæt sögn og gagnast vel.

Eiríkur er nokkuð sannfærandi enda yfirburðamaður íslenskum fræðum. Ég þarf þó að velta þessari skoðun hans aðeins fyrir mér en er þó viss um að hann samþykki ekki orðalagið „berskjalda sig inn að beini“. 

Tillaga: Þol­endur eiga ekki að þurfa að vera algjörlega varnarlausir til að við trúum þeim.

 


Bloggfærslur 31. október 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband