Ganga inn í starf - ganga heilt yfir sáttur frá landsleik - jólahlaðborð sem fer fram
12.11.2022 | 13:02
Orðlof
Hælarnir
Skömmu fyrir áramót voru gögn gerð opinber sem sýndu að Eimskip hugðust setja Samskip á hælana eins og það var orðað.
Hér er einkennilega komist að orði og umsjónarmaður kannast ekki við neinar hliðstæður.
Merkingin virðist vera leika grátt, fara illa með eða koma á kné.
Hér er vafalaust um nýmæli að ræða sem orðið er til fyrir áhrif slangurmálsins vera á hælunum standa sig illa og andstæðunnar vera á tánum standa sig vel. Hvort tveggja á rætur sínar í ensku eins og vikið var að í 37. þætti, sbr. e. on oness toes og down at heel.
Málfarsbankinn, Jón G. Friðjónsson.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Logi Einarsson, nýr þingflokksformaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi formaður flokksins, segist ganga auðmjúkur inn í þetta nýja starf.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hvernig er hægt að ganga inn í starf? Er starfið hús eða hellir? Venjan er sú að maður tekur við starfi, gengur að verkefni. Starf eða embætti lykst ekki utan um einstakling. Maðurinn sem er forseti Íslands er ekki inni í starfinu, hann gegnir því.
Alþýða manna vinnur fram á nótt. Gáfumennirnir vinna inn í nóttina (enska: into the night).
Mörgum finnst greindarlegt að tala ekki eins og ótíndur almúginn. Slíkir tala aldrei við neinn heldur eiga samtal við einhvern, telja mikilvægt að upphefja sig með sérviskuorðalagi sem virðist líta svo óskaplega vel út.
Lokar maðurinn sem gengur inn í starfið á eftir sér?
Tillaga: Logi Einarsson, nýr þingflokksformaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi formaður flokksins, segist taka auðmjúkur við starfinu.
2.
Aðalritarinn kallaði sérstaklega til löndin Kína og Bandaríkin
Frétt á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 8.11.22.
Athugasemd: Sögnin að kalla merkir að hrópa. Orðalagið að kalla til er þekkt, til dæmis: hún kallaði til mín, félagið kallað til sérfræðing, lögreglan var kölluð til.
Orðalagið að kalla til Kína og Bandaríkin er skrýtið, líklega fundið með google translate.
Í netfjölmiðlinum Al Jazeera segir:
The UN secretary-general said the target should be to provide renewable and affordable energy for all, calling on top polluters China and the United States in particular to lead the way.
Líklega er orðalagið svipað í öðrum fjölmiðlum. Aðalritarinn er ekkert að kalla eitt eða neitt, hann er að hvetja ríkin tvö, mestu mengunarsóða heimsins, til að standa sig betur, vera í fararbroddi.
Líklega er vonlaust að berjast gegn enska orðalaginu to call for í margvíslegum merkingum þess. Blaðamenn halda að þeim sé heimilt að þýða orðin eftir merkingu þeirra en ekki samhengi. Staðreyndin er hins vegar þessi: Allir geta orðið blaðamenn en færri geta skrifað íslensku skammlaust.
Tillaga: Aðalritarinn hvatti sérstaklega Kína og Bandaríkin
3.
Að fara á tónleika er góð skemmtun.
Frétt á blaðsíðu 30 í Morgunblaðinu 11.11.22.
Athugasemd: Æ algengara í fjölmiðlum er að málsgrein byrji á nafnháttarmerki og sögn. Má vera að það sé ekkert að því en skelfing finnst mér það ómerkilegt.
Í þessum pistlum hefur sáralítið verið farið út í málfræðilegar skilgreiningar heldur höfðað til málkenndar lesenda. Oftar en ekki hefst málsgrein á frumlagi og á eftir fylgir sögnin. Á þessu eru undantekningar en nafnháttarmerkið að og sögn er ekki heppilegt í byrjun og hér er einfaldlega máltilfinningin sem ræður enda truflar óbragðið lesturinn.
Tillaga: Gaman er að fara tónleika.
4.
Arnar Þór Viðarsson, þjálfari A-landsliðs karla í knattspyrnu, gekk heilt yfir sáttur frá vináttulandsleiknum gegn Sádi-Arabíu um síðustu helgi.
Frétt á blaðsíðu 18 í Fréttablaðinu 11.11.22.
Athugasemd: Átt er við að þjálfarinn hafi verið nokkuð sáttur með árangurinn. Sé svo, hvers vegna fer byrjar blaðamaður á því að setja hann í göngutúr heilt yfir eitthvað. Hjálpar orðalagið lesandanum, auðveldar það skilning hans, taka allir svona til orða?
Blaðamenn sem eiga að temja sér alþýðlegt mál, flytja fréttir án rembings og varast að ofnota orðasambönd:
Þriðja dæmið um ofnotað orðasamband er heilt yfir þegar alls er gætt; almennt séð, sbr.:
staðreyndin er sú að heilt yfir hafa ríkisútgjöld vaxið gífurlega (24.9.18, 8); [ ]
Dæmi af þessum toga glymja daglega í eyrum útvarpshlustenda. Mér virðist merkingin fremur óljós og einnig uppruninn. Hvaðan kemur þetta? Giska má á danskt ætterni en þó hef ég ekki fundið beina samsvörun þar.
Þetta segir Jón G. Friðjónsson í Málfarsbankanum. Honum má treysta.
Fréttin er um fótbolta og í millifyrirsögn segir:
Reynsluboltarnir mikilvægir.
Hvers konar fótboltar eru reynsluboltar? Auðvitað er þetta útúrsnúningur en samt er orðalagið frekar broslegt.
Tillaga: Arnar Þór Viðarsson, þjálfari A-landsliðs karla í knattspyrnu, var nokkuð sáttur eftir vináttulandsleiknum gegn Sádi-Arabíu um síðustu helgi.
5.
Eldur kviknaði í Skíðaskálanum í gærkvöldi þegar þar fór fram fyrsta jólahlaðborð vetrarins.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Nei, jólahlaðborð fer ekki fram. Boðið er upp á slíkt. Af hverju eru margir blaðamenn svona áhugalausir um skrif sín. Þeir gleyma því að þúsundir landsmanna eru vel að sér og orðalagið stingur í auga.
Eflaust eru ekki allir sammála því að jólahlaðborð í nóvember sé álíka áhugavert eins og gamlárskvöld í júní.
Tillaga: Eldur kviknaði í Skíðaskálanum í gærkvöldi þegar boðið var upp á fyrsta jólahlaðborð vetrarins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)