Samhæfingamiðstöð virkjuð - þau sendu ákall - hann náði að að lifa af
26.2.2022 | 11:54
Orðlof
Fara samförum
Eitthvað segir mér til dæmis að skólar þessa lands þurfi að skerpa á kennslu sinni þegar kemur að notkun orðatiltækja.
Maður er stöðugt að heyra nýjar útgáfur af þeim og fær oftar en ekki hland fyrir nýrun þegar æska þessa lands byrjar að láta vaða á lúðum.
Sumir eru iðnari við lopann en aðrir og ættu líklega að herða sultarróluna í stað þess að fara samförum enda kjaftar á þeim hver taska.
Allra verst er þó að láta etja sér á folaldið. Enda kemur alltaf að sultardögum. Fyrr eða síðar.
Orri Páll Ormarsson. Pistill. Blaðsíða 2 í Morgunblaðinu 26.2.22.
Orðlof
Fagurlegheitafræðingar
Kona nokkur kvaðst eftir för í vínbúð hafa verið skilríkjuð í ríkinu og pakkaði þar línunni ég var beðin um að framvísa skilríkjum í eitt sagnorð. Mun það orð skjóta rótum?
Hvað með einkunnina hrósaður? Maður tók þátt í söngkeppni í útlandi og eftir dúett með söngsystur skrifaði vefmiðill: Voru þau bæði hrósuð fyrir frammistöðuna og var [hann] valinn til að halda áfram. [ ]
Ég þori að veðja að orð eins og afturkræfni og bestun vöktu eitt sinn ýl í eyrum margra, en þau eru nú notuð af ýmsum, tja, faglegheitafræðingum landsins.
Sigurlaug Þrastardóttir. Tungutak. Blaðsíða 22 í Morgunblaðinu 26.2.22.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Erlingur Agnarsson átti frábæran leik fyrir Íslandsmeistara Víkings
Frétt á blaðsíðu 27 í Morgunblaðinu 25.2.22.
Athugasemd: Á íslensku er líkleg átt við að Erlingur hafi staðið sig vel eða leikið vel. Íþróttablaðamenn vita merkilega mikið um íþróttir.
Tillaga: Erlingur Agnarsson stóð sig vel fyrir Íslandsmeistara Víkings
2.
Samhæfingamiðstöð almannavarna hefur verið virkjuð.
Frásögn í fréttum Ríkisútvarpsins kl. 12:20.
Athugasemd: Hvernig er stjórnstöð virkjuð? Hvað gerist þegar hún hefur verið virkjuð? Einn staf vantar í orðið, á að skrifa samhæfingarmiðstöð, með erri.
Tillaga: Samhæfingarmiðstöð almannavarna hefur tekið til starfa.
3.
Viltu heldur moka sandi en snjó.
Fyrirsögn á tölvupósti icelandair.is
Athugasemd: Hér færi betur á því að segja eins og stendur í tillögunni. Líklega er þetta smekksatriði. Heldur er hér atviksorð rétt eins og frekar. Blæbrigðamunur er á þeim.
Nokkur munur er að segja að maðurinn sé frekar lítill en sjaldnar að hann sé heldur lítill. Hann er frekar lítill. Buxurnar eru heldur litlar.
Tillaga: Viltu frekar moka sandi en snjó.
4.
Fjöldi sjónvarpsstöðva í Evrópu sendi í dag ákall til EBU að íhuga vandlega stöðu Rússlands í keppninni.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hvað þýðir ákall hérna? Kröfðust sjónvarpsstöðvarnar að EBU færi að hugsa eða íhuga. Eða báðu þær um það, óskuðu þær eftir því
Og hvað merkir þetta að íhuga stöðu Rússlands í keppninni. Er þetta beiðni, ósk, krafa, tilmæli eða annars konar pælingar um að EBU reki Rússland úr keppninni? Sé það síðarnefnda raunin af hverju þarf að tala svona í kringum þetta?
Ákall er orð sem skilst sjaldnast þó hægt sé að ráða í merkinguna af samhenginu.
Sama er með orðalagið kalla eftir sem er jafn óskiljanlegt, er líklega þýðing á enska orðalaginu to call for og þá liggur eflaust beint við að þýða orðrétt, með öðrum orðum notast við hráa þýðingu.
Tillaga: Engin tillaga.
5.
Atvikið náðist á myndband, og náði ökumaðurinn að lifa af.
Myndatexti á blaðsíðu 18 í Morgunblaðinu 26.2.22.
Athugasemd: Ekki er öll sagan sögð þó sagt sé að maður hafi náð að lifa af. Skriðdreki ók yfir fólksbíl og flatti hann út. Slasaðist ökumaðurinn, forðaði hann sér eða hvað?
Svona texti er ófullnægjandi, lesandinn er skilinn eftir í óvissu því blaðamaðurinn hættir skrifunum í miðjum klíðum.
Tillaga: Engin tillaga.
6.
70 þúsund milljónir af froðu hafa nú flotið upp í bókhaldi Reykjavíkurborgar.
Aðsend grein á blaðsíðu 20 í Morgunblaðinu 26.2.22.
Athugasemd: Þingmaður heldur að það sé í lagi að byrja málsgrein á tölustaf. Það er hvergi gert.
Hann skrifar enn:
115 til 130 milljónum yfir mati tveggja fasteignasala.
Í þriðja sinn í stuttri grein byrjar hann málsgrein á tölustaf:
10 milljörðum!
Hallgrímur Pétursson orti í Passíusálmunum:
Hvað höfðingjarnir hafast að,
hinir meina sér leyfist það.
Blaðamenn byrja málsgreinar á tölustöfum, fjölmargir greinahöfundar og svo alþingismenn. Svona dreifst þetta út. Hvernig er hægt að kveða þetta niður?
Tillaga: Sjötíu þúsund milljónir af froðu hafa nú flotið upp í bókhaldi Reykjavíkurborgar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)