Samkvæmt ákalli - Teslan tjónaðist - mannfall eykst

Orðlof

Myrða, drepa, vega og fella

Nýlega var framið bankarán í Stafangri. Í fréttum af því var sagt að ræningjarnir hefðu myrt lögregluþjón. Umsjónarmaður kann ekki við þessa notkun sagnarinnar myrða. Upprunaleg merking hennar er ’vega á laun’ enda er hún leidd af orðinu morð ’launvíg’. Síðar hefur sögnin fengið aukamerkinguna ’leyna’.

Í fornu máli eru þess mörg dæmi að menn hafi verið drepnir og myrtir síðan, t.d.: hann drap sveininn og vildi myrða og myrða dauðan mann. Í nútímamáli er enn talað um að
fara með eitthvað eins og/sem mannsmorð ef það sem um ræðir á að fara leynt.

Ógæfumennirnir í Stafangri drápu lögreglumanninn vísvitandi, skutu hann eða felldu en þeir
myrtu hann ekki í bókstaflegri merkingu. 

Umsjónarmaður las nýlega í blaði að Bandaríkjamenn hygðust myrða klerk nokkurn eins og skrifað var en síðar í sömu grein var talað um að taka klerkinn af lífi.

Kannski er það einnig svo að notkun sagnanna
myrða, drepa, vega og fella sýnir að nokkru leyti afstöðu þess sem talar/skrifar til verksins. 

Í Fréttablaðinu var ritað: Morð á leiðtoga Hamassamtakanna hefur vakið hörð viðbrögð en um sama efni gat að lesa í Morgunblaðinu: Víg Ísraela á leiðtoga Hamassamtakanna á Gaza vekur hörð viðbrögð. 

Umsjónarmanni finnst fréttin í Morgunblaðinu sögð með hlutlausum hætti en ætla má að þeim sem skrifaði um sama efni í Fréttablaðið blöskri framferði Ísraelsmanna.

Íslenskt mál - þættir Jóns G. Friðjónssonar. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„… og eins megi ekki spila þjóðsöngva þessara ríkja, samkvæmt ákalli Alþjóðaólympíunefndarinnar.

Frétt á blaðsíðu 10 í Morgunblaðinu 3.3.22.                                     

Athugasemd: Hvað þýðir orðið „ákall“ þarna? Það getur þýtt ýmislegt; krafa, ósk, beiðni, vilji, ráðlegging, áminning, ávarp, hvatning, aðvörun, áskorun, eggjan, brýning, varnaðarorð, bæn, lofgjörð, þakkargjörð, lofsöngur, fyrirbæn og margt fleira.

Ég held að þetta blaðamaðurinn hafi þýtt hluta af fréttinni úr útlensku máli og sett inn ákall í staðinn fyrir, tja kannski flugvél, hestur, ær, bíll eða eitthvað álíka óskiljanlegt. 

Tillagan hér fyrir neðan er örugglega jafn góð og tilvitnunin, en hún skilst ekki heldur.

Tillaga: … og eins megi ekki spila þjóðsöngva þessara ríkja, samkvæmt flugvél Alþjóðaólympíunefndarinnar.

2.

Alþjóðakörfuknattleikssamfélagið styður við bakið á Úkraínu í stríðinu.“

Frétt á blaðsíðu 67 í Morgunblaðinu 3.2.22.                                     

Athugasemd: Mjög hjálplegt er að styðja við bakið á þeim sem þarf aðstoð. Orðalagið er ágætlega skiljanlegt. 

Ríki og þjóðir hafa ekkert bak og því eðlilegra að orða það þannig að styðja ríkið til góðra verka, sleppa þessu með bakið.

Tillaga: Alþjóðakörfuknattleikssamfélagið styður Úkraínu í stríðinu.

3.

„… sem varð fyrir því að glæný Tesla tjónaðist þegar hann ók í poll á dögunum.

Frétt á vísi.is.                                      

Athugasemd: Auðvitað er ekki hægt að segja að bíll hafi skemmst. Miklu gáfulegra að segja að hann hafi „tjónast“. Eftir að ég las þetta „verkjaðist“ ég illilega og mér „hugsaðist“ ýmislegt. 

Tillaga: … sem varð fyrir því að glæný Tesla skemmdist þegar hann ók í poll á dögunum.

4.

„Enn eykst mannfall í Karkív.

Frétt á mbl.is.                                      

Athugasemd: Betur fer á því að segja að föllnum eða látnum fjölgi. Í verslun kann vöruúrvalið að aukast, vöxtur er í ám og eykst þá vatn.

Tillaga: Enn fjölgar föllnum í Karkív.

5.

„Þá héldu þeir áfram umsátri sínu um Maríupol, og sagði Vadím Bojtsjenkó borgarstjóri að Rússar hefðu skorið á bæði vatn og rafmagn, þrátt fyrir að nú væri miður vetur.

Frétt á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 4-3-22.                                     

Athugasemd: Betra er að segja að lokað hafi verið fyrir vatns- og rafmagnsleiðslur. Fréttin er engu að síður vel skrifuð og fróðleg.

Tillaga: … að Rússar hefðu lokað fyrir vatn og rafmagn, þrátt fyrir að nú væri miður vetur.


Bloggfærslur 4. mars 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband