Fjallstoppur sem hreyfist - bók hefur ollið fjaðrafoki - slagsmál í póstnúmerum

Orðlof

Þórðargleði

Þórður hét maður og bjó á bæ nokkrum í prestakalli mínu. Einn dag á slætti kom hann út á engjar til fólks síns og fékk þá engu orði upp komið fyrir hlátri: 

„He-he-he-he; he-he-he-he-he! Nú er það skemmtilegt hjá þeim Norðlingunum. Ég var að lesa Ísafold. Ekki þornað af strái í allt sumar þar fyrir norðan. Öll hey grotnuð niður. Enginn baggi kominn í hlöðu og nú kominn höfuðdagur“. 

Svo hnippir hann í mann sem hann stóð hjá og segir ískrandi:

„Skratti væri nú gaman að sjá, hvernig þeir taka sig út núna, greyin. He-he-he-he!“ 

Þetta hugarfar, sem gleðst yfir óförum manna, kalla Danir Skadefrohed og Skadefryd. Við eigum ekkert orð í íslenzku, sem nær gleðinni í þessari illgirni. En síðan ég heyrði söguna af Þórði bónda í prestakalli mínu, hef ég nefnt þennan hugsunarhátt þórðargleði og þann mann þórðarglaðan, sem kætist yfir því, er öðrum gengur illa. En mikil fádæma hugarfarsspilling er nú þetta.

Úr ævisögu séra Árna Þórarinssonar eftir Þórberg Þórðarson.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Hvorki höfuðljós hans né fram og afturljós hjólsins gerðu bílstjóranum viðvart.

Frétt á Vísi. 

Athugasemd: Blaðamaðurinn þekkir ekki merkingu lýsingarorðsins viðvart. Aðeins fólk gerir öðrum viðvart. Í þessu tilviki áttu höfuðljós og viðvörunarljós að vekja athygli bílstjóra og annarra vegfarenda.

Fréttin er viðvaningslega skrifuð. Blaðamaðurinn lagfærir ekki óskýrt orðalag viðmælandans. 

Tillaga: Ökumaðurinn tók hvorki eftir höfuðljósi hans né fram- og afturljósum hjólsins.

2.

„Toppurinn á Keili hefur hreyfst til.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Þetta er án efa merkilegasta frétt Íslandssögunnar; fjallstoppur hefur hreyfst til án þess að neinn tæki eftir nema löggan, hún tekur eftir smáatriðunum.

Sko, þetta er út Mogganum. Blaðamaðurinn sá skrif löggunnar á Suðurnesjum á Fésbókinni og afritaði þau og birti. Athugasemdalaust. Sjaldan lýgur löggan.

Ekki hvarflar að blaðamanninum að draga orð löggunnar í efa. Verra er að hann sá ekki fréttina: Í hvaða átt færðist toppurinn? Hækkaði fjallið eða lækkaði? Eru kviku- eða flekahreyfingar ástæðan? Hefur verið leitað álits jarðfræðinga á þessu undri?

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„… að malbikunarframkvæmdir hafi verið á holum í veginum, þá sérstaklega hjá Kömbunum.“

Frétt á blaðsíðu 4 í Morgunblaðinu 30.11.23. 

Athugasemd: Yfirleitt er sagt að vegurinn sé í Kömbum en þeir eru hlíðin frá Hellisheiði og niður á láglendi. Sé sagt að viðgerð sé á vegi hjá Kömbum bendir það til að hann sé ekki þar heldur skammt frá.

Afar sjaldgæft er að ákveðinn greinir sé hafður í örnefnum ekki frekar en í mannanöfnum og nöfnum fyrirtækja. Fer vel á því.

Að þessu slepptu eru „malbikunarframkvæmdir á holum“ nýung og eflaust auka þær þjóðarframleiðslu og draga úr verðbólgu því nóg er af holunum.

Tillaga: … að malbikað hafi verið yfir holur í veginum, þá sérstaklega í Kömbum.

4.

Bók­in End­game eft­ir Omid Scobie sem fjall­ar um bresku kon­ungs­fjöl­skyld­una hef­ur ollið fjaðrafoki í Bretlandi.“

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: „Ollendur“ í stétt blaðamanna klúðra einatt sögninni að valda og „olla“ þannig undrun meðal lesenda sem flestir vita betur. 

Hið eina jákvæða við fréttina er að blaðamaðurinn gefur ekki upp nafn sitt eða kennitölu. Það það gæti hins vegar „ollað“ vandamálum fyrir alla hina blaðamennina sem nú eru liggja undir grun um að vella í stað þess að valda.

Tillaga: Bók­in End­game eft­ir Omid Scobie sem fjall­ar um bresku kon­ungs­fjöl­skyld­una hef­ur valdið fjaðrafoki í Bretlandi.

5.

„Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust þrjár tilkynningar í gærkvöldi og/eða nótt þar sem tilkynnt var um slagsmál; í póstnúmerunum 101, 104 og 105.

Frétt á Vísi. 

Athugasemd: Er hægt að taka þann blaðamann alvarlega sem heldur að póstnúmer séu heiti á hverfum í Reykjavík eða höfuðborgarsvæðinu? Hann á að vita betur. Þar að auki á hann ekki að éta athugasemdalaust upp allt sem kemur frá löggunni. Þau mega ekki að taka dómgreind blaðamanns úr sambandi.

Sjaldnast er greint frá fréttnæmum atburðum í svokallaðri dagbók löggunnar. 

Tillaga: Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust þrjár tilkynningar um slagsmál í Reykjavík frá því í gærkvöldi og fram á nótt.

6.

„Hún lifði einnig nógu lengi til þess að verða vitni að því þegar hæstirétt­ur Banda­ríkj­anna af­numdi rétt­inn í júní í fyrra.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Sögnin að afnema er afnam í þátíð.

í fréttinni segir:

John Roberts hæsta­rétt­ar­dóm­ari lýsti O’Conn­or sem „föður­lands­vin“ og „harðlega sjálf­stæðum verj­anda rétt­ar­rík­is­ins“.

Þetta er illa þýtt? Hvað merkir að vera „harðlega sjálfstæður verjandi“ einhvers? Á vef CNN segir:

Chief Justice John Roberts described O’Connor as a “patriot” and a “fiercely independent defender of the rule of law, and an eloquent advocate for civics education.”

Skárra er að segja að konan hafi verið einbeittur talsmaður laga (eða réttarríkisins).

Á vef CNN segir:

“truly a person for all seasons, possessing those unique qualities of temperament, fairness, intellectual capacity, and devotion to the public good which have characterized the 101 brethren who have preceded her.”

Þetta þýðir blaðamaðurinn á þessa leið:

„ein­staka eig­in­leika skap­lynd­is, sann­girni, vits­muna­getu, auk holl­ustu við al­manna­heill sem hef­ur ein­kennt þá 101 starfs­bróðir sem á und­an henni hafa komið“.

Þetta er slæm þýðing.

Hvað eru „eiginleikar skaplyndis“? Er ekki átt við að konan hafi verið yfirveguð?

Hvað er „hollusta við almannaheill“? Er ekki átt við að konan hafi alltaf haft almannahag fyrir augum

Eftirfarandi er bara málfræðilega rangt: „... sem hef­ur ein­kennt þá 101 starfs­bróðir sem á und­an henni hafa komið.“ Réttara er þann 101 starfsbróðir sem ... Þetta er hins vegar della.

Eftirfarandi er ekki nógu gott en þó mun skárra:

einstaka yfirvegun, sanngirni, vitsmuni og einlægni fyrir almannahag sem hefur verið aðall 101 forvera hennar.

Eflaust er blaðamaðurinn vel að sér í ensku en þýðingin á íslensku er léleg. 

Tillaga: Hún lifði einnig nógu lengi til þess að verða vitni að því þegar hæstirétt­ur Banda­ríkj­anna afnam réttindin í júní í fyrra.


Bloggfærslur 1. desember 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband