800fm outlet - flýja í ofvæni - hús samanstendur af hæðum - atvinnuskip

Orðlof

Kind

Orðið kind merkir upphaflega ’ætt’ eða ’afkvæmi’, en er á síðari tímum venjulega notað um sauðkindur. Þetta er tegundarheiti og nær þannig yfir bæði kynin, ær og hrúta, og einnig afkvæmin, lömb. 

Nú er það þó oft notað eingöngu um kvendýrið, og talað um kindur og lömb. 

Tvær hugsanlegar ástæður má nefna fyrir þessari merkingarbreytingu. Orðið kind er kvenkynsorð og því eðlilegt að menn tengi það sérstaklega við kvendýrið. Ær eru líka miklu fleiri og meira áberandi en hrútar.

Orðaborgarar. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Höfum opnað 800fm outlet í Holtagörðum.

Heilsíðuauglýsing á blaðsíðu 7 í Morgunblaðinu 11.12.23. 

Athugasemd: Veit einhver hvað enska orðið „outlet“ þýðir á íslensku? Varla. Fjölmargir verslunareigendur troða því inn í auglýsingar sínar af því að þeim finnst það flottara en að nota orð eins og markaður eða útsölumarkaður. Þeir kæra sig kollótta um íslenskt mál.

Svo er það hitt. Heldur auglýsandinn að neytendur velti meira fyrir sér hversu stór verslunin er í fermetrum en því sem hún býður upp á?  

Reglan er sú að bil er haft milli tölustafa og eininga, hér 800 fm.

Tillaga: Höfum opnað 800 fm útsölumarkað í Holtagörðum..

2.

„Þá var einnig til­kynnt um hnupl í mat­vöru­versl­un á lög­reglu­stöð 4.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Er matvöruverslun á lögreglustöð? Maður gæti haldið það. Þetta er lýsandi dæmi um ranga orðaröð. Tillagan hér fyrir neðan er mun skárri.

Hvað er „lögreglustöð 4“? Hvers vegna í ósköpunum leyfir löggan sér að kalla lögreglustöðvar með dulnefni? Hefur borið á því til dæmis að einhver viti ekki hvar Kópavogsstöð lögreglunnar sé. Eða Hafnarfjarðarstöðin? Hvaða rök eru fyrir númerum á lögreglustöðum?

Veit blaðamaðurinn það, sá sem afritar texta úr „dagbók lögreglunnar“ og birtir á vefsíðu Moggans og kallar frétt.

Raun er að því hversu illa þessi dagbók löggunnar er skrifuð. Dæmi um heimskulega skráningu er eftirfarandi:

Sam­kvæmt öku­mann­in­um hafði gang­andi veg­far­and­inn orð á því slysið væri ástæða þess að kon­ur ættu ekki að vera í um­ferðinni, gekk í burtu og var far­inn af vett­vangi þegar lög­regla kom á staðinn.

Til hvers er þetta skrifað? Og hvers vegna birtir blaðamaðurinn bullið. Einhver bjáni segir eitthvað og það er birt í dagbók löggunnar og síðan í Mogganum. Eru engin takmörk fyrir dómgreindarleysi lögga og blaðamanna?

Það er svo eftir öðru að löggan gat ekki skrifað þetta rétt: Hvort kom löggan á staðinn eða vettvanginn?

Tillaga: Tilkynnt var til lögreglustöðvar fjögur um hnupl í mat­vöru­versl­un.

3.

„… þegar þau reyndu að flýja í ofvæni undan vopnuðum mönnum sem réðust að gestum hátíðarinnar.

Frétt á dv.is. 

Athugasemd: Orðið ofvæni merkir spenningur eða eftirvænting. Börn bíða í ofvæni eftir jólunum. Enginn bíður í ofvæni eftir að detta í hálku eða verða misþyrmt.

Líklega væri réttara að nota hér nafnorðið örvænting.

Tillaga: … þegar þau reyndu að flýja í örvæntingu undan vopnuðum mönnum sem réðust að gestum hátíðarinnar..

4.

„Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að félagið muni skoða það hvort það geti sótt bætur til Isavia vegna verkfalls flugumferðarstjóra.

Frétt á Vísi. 

Athugasemd: Hér er greinilega átt við að krefja Isavia um bætur. Ekki „sækja“ bætur. Stórkoslegur munur er á sögnunum að sækja og krefjast.

Útilokað er að sækja peninga til stjórnenda fyrirtækisins. Hins vegar geta þeir afhent þá, sýnist þeim svo og þá má kalla það bætur.

Í fréttinni segir: 

Við munum að sjálfsögðu skoða grundvöll þess hvort við getum sótt til okkar þjónustuaðila, því eins og ég segi þá erum við enginn aðili að þessu máli.

Þetta er nú meira bullið, gjörsamlega óskiljanlegt.

Viðmælendur blaðamanna verða að vanda mál sitt því það er nokkuð öruggt að verði þeim á að missa út úr sér einhverja vitleysu eða bjánalegt orðalag, verður það birt orðrétt sem frétt. Það er engum til sóma, viðmælanda, blaðamanni eða fjölmiðli. 

Tillaga: Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að félagið muni skoða það hvort það geti krafið Isavia um bætur vegna verkfalls flugumferðarstjóra.

5.

Húsið samanstendur af þremur hæðum …“

Fasteignaauglýsing á blaðsíðu 25 í Morgunblaðinu 15.12.23.

Athugasemd: Ekki er þetta nú vel skrifað, raunar hörmulega. Venjulega er sagt að hús þriggja hæða. Aldrei er sagt að hús „samanstandi“ af hæðum.

Hins vegar sést þetta orð ansi víða í fjölmiðlum og yfirleitt í tómu tilgangsleysi.

Fjölbreytni í orðavali er af hinu góða svo framarlega sem skrifarinn hefur skilning á málfari.

Tillaga: Húsið er þriggja hæða

6.

„Á föstu­dag hæfðu Hút­ar tvö at­vinnu­skip …

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Heimild blaðamannsins er vefmiðillinn Politico og þar er talað um „commercial ships“. 

Nóg er að tala um flutningaskip. Allir vita að slík eru rekin í atvinnuskyni.

Tillaga: Á föstu­dag hæfðu Hút­ar tvö flutningaskip


Bloggfærslur 17. desember 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband