Verslun tekur skref - fara erlendis - sprengingar sprungu - gera ákall
7.12.2023 | 11:59
Orðlof
Ógeðsleg fegurð
Frumstæður fegurðarblær málsins kemur víða fram, t.d. í örnefnum fornra rita, Helgrindur.
Eðlilega hefur málið þróast. Ræfill þýðir í fornu máli sækonungur og þorp var berangur. Hluthvörf.
En nú tekur steininn úr. Fegurð Þingvalla er ógeðsleg, lýsing á góðum fundi er geðveik.
Notkun þolmyndar er nú slík að við þurfum að hugsa okkur um hvað átt er við, lýsing frá heimsstyrjöldinni segir:
Frakkland var tekið af Þjóðverjum.
Slettur eru miklar, fréttamaður segir að ekki dugi pedagógískar aðferðir til úrbóta, fótboltamaður segir að breyta þurfi attitjúdi leikmanna.
Guðmundur G. Þórarinsson verkfræðingur. Aðsend grein í Morgunblaðinu 4.12.23.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Það þarf að rjúfa samstöðuna sem ríkir hér á landi um tekjufórnir kvenna og kynlegt heimilishald.
Aðsend grein á blaðsíðu 28 í Morgunblaðinu 2.12.23.
Athugasemd: Kynlegt er að lesa um kynlegt heimilishald. Varla eru til dæmi um slíkt. Samkvæmt orðabókinni getur kynlegur merkt það sem er broslegt, kátlegt, skrýtið, jafnvel framandi, dulrænt og fleira má tína til.
Höfundur greinarinnar er líklega á þeirri skoðun að kynlegt heimilishald sé bundið við kynin; karlkyn eða kvenkyn.
Hins vegar er málsgreinin illskiljanleg, jafnvel kynleg.
Í búð er bók sem nefnist Kynleg stríð. Merkilegt að gamalt og gott orð hefur fengið kynlega merkingu. Er eitthvað að því?
Tillaga: Engin tillaga.
2.
Úra- og skartgripaverslunin Klukkan tók stórt skref á dögunum þegar hún opnaði sjötíu og fimm fermetra verslun í Kringlunni.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Verslun tekur ekki skref, hún eru fótalaus. Hún opnar ekki neitt því hún er líka handalaus. Hins vegar getur eigandinn flutt hana og opnað á nýjum stað.
Í fréttinni er rætt við verslunarstjórann. Vekur það furðu því af fréttinni má ráða að verslunin sem fer allra sinna ferða og opni sig hljóti líka að geta talað. Svo er að sjálfsögðu ekki.
Í raun kemur í ljós að það eru eigendurnir sem gera allt það sem verslunin er sögð aðhafast.
Tillaga: Úra- og skartgripaverslunarinnar Klukkan var flutt í sjötíu og fimm fermetra húsnæði í Kringlunni.
3.
Nú brosir maður bara hringinn.
Frétt á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu 4.12.23.
Athugasemd: Vinsælast er að bros hringinn. Allt í lagi með það enda flottara orðalag en engin ástæða er til að gleyma öllum hinum:
brosa út að eyrum
brosa breitt
brosa sínu breiðasta
brosa með öllu andlitinu.
Fjölbreytni í orðavali fer því miður minnkandi. Allir gera eins.
Tillaga: Nú brosir maður út að eyrum.
4.
Þetta þarftu að vita ef þú ætlar erlendis um jólin.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Orðið erlendis merkir að vera í útlöndum, ekki ferð til útlanda. Fólk fer til útlanda, dvelur erlendis og kemur síðan til baka.
Hins vegar er alltaf kjánalegt að þegar talað er til lesenda og sagt þú. Að vísu er þetta gert á ensku en you hefur víðtækari merkingu á því tungumáli en á íslensku.
Í fréttinni segir:
Fjöldi landsmanna ætlar að verja jólunum og áramótunum erlendis í ár.
Ekkert að þessu.
Tillaga: Þetta er gott að vita ef ætlunin er að fara til útlanda um jólin.
5.
Einn sjónarvotta segir að tvær sprengingar hafi sprungið.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Æ, æ. Fljótfær blaðamaðurinn hefur ef til vill ætlað að segja að tvær sprengjur hafi sprungið. Villan er meinleg.
Í fréttinni segir að fyrri sprengingin hafi orðið algjörlega upp úr þurru. Þetta er illa að orði komist. Skárra er að segja að hún hafi orðið af tilefnislausu.
Í fréttinni segir:
Haft er eftir sjónarvottum í breska ríkisútvarpinu að
Röð orða í setningu skiptir máli. Eftirfarandi er skárra:
Í breska ríkisútvarpinu er haft eftir sjónarvottum að
Heimild fréttarinnar er BBC. Íslenska fréttin er ekki eins ítarleg og sú enska, því miður.
Tillaga: Einn sjónarvotta segir að tvær sprengjur hafi sprungið.
6.
Guterres, sem hefur gert ákall um tafarlaust vopnahlé síðan
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Þetta er óskiljanlegt. Hvað merki að gera ákall um eitthvað. Orðalag sem er svipað þessu finnst ekki í fljótu bragði á erlendum fjölmiðlum sem eru á ensku.
Tillaga: Engin tillaga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)