Hlutverk svefns - listamanneskja ársins - samkvæmt alþjóða lögum

Orðlof

Bóklestur

Kann ég þó foreldrum mínum miklar þakkir fyrir bóklestur æskunnar sem kom í staðinn fyrir sjónvarpsgláp og hefur svo sannarlega sett mark sitt á líf mitt. 

Ragnheiður Birgisdóttir, Ljósvakinn, blaðsíða 74 í Morgunblaðinu 16.3.23 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Það er mjög stór hlut­ur sem ég er ekki að gera og það er að ala upp börn.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Orðalagið er af þeirri gerð sem sjá má æ oftar hjá yngra fólki og of oft hjá blaðamönnum. Merkilegt er að skoða heimildina sem er Us Magazine. Þar stendur:

There’s a whole huge thing I’m not doing, which is raising children.

Þýðingin er léleg. Þar sem ég er svo lélegur í ensku ákvað ég að prófa Google Translate sem þýðir ensku setninguna svona:

Það er stór hluti sem ég er ekki að gera, sem er að ala upp börn.

Næstum því eins, en gjörsamlega merkingarlaus rétt eins og í fréttinni á vefsíðu Moggans.

Að öllum líkindum er réttara að orða ensku setninguna eins og gert er í tillögunni. Annars eru öll sund lokuð.

Tillaga: Margt geri ég ekki og eitt af því stóra er að ala upp börn. 

2.

45 manns munu hafa sótt um starfið …

Frétt á blaðsíðu 46 í Morgunblaðinu 16.3.23.

Athugasemd: Ekki telst það lengur til frétta að blaðamaður á Morgunblaðinu byrji setningu á tölustaf, svo oft gerist það. Enginn sómakær fjölmiðill lætur slíkt sjást, að minnsta kosti ekki í hinum vestræna heimi sem svo er kallaður. 

Hins vegar er það frétt að einn reyndasti (ekki „reynslumesti“) blaðamaður Moggans gerist sekur um þetta. Enginn Matthías er lengur á Mogganum sem tekur blaðamenn á teppið verði þeim á að bulla.

Tillaga: Fjörtíu og fimm manns mun hafa sóttu um starfið …

3.

Hvert er hlutverk svefns?“

Auglýsing á blaðsíðu 11 í Morgunblaðinu 17.23.23. 

Athugasemd: Orðið hlutverk á ekki við þarna. Mun betur fer á að nota orð eins og tilgangur, þýðing eða jafnvel mikilvægi.

Hlutverk er yfirleitt haft um fólk, það gengnir hlutverki. Stein hefur ekki hlutverk, ekki frekar en sandur, skór, bíll eða aðrir dauðir hlutir

TillagaTil hvers er svefn?

4.

Ræða áhrif vindmyllna á fuglalíf.“

Frétt á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 17.3.23.

Athugasemd: Orðið vindmilla virðist vera dálítið skrýtið í setningunni. Engu að síður er það rétt, beygist um vindmillu, frá vindmillum til vindmilla eða vindmillna. 

Tillaga: Engin tillaga.

5.

„Sindri valinn listamanneskja ársins.

Frétt á blaðsíðu 21 í Morgunblaðinu 18.3.23.

Athugasemd: Maðurinn er að ósekju kallaður listamanneskja ársins. Auðvitað er hann listamaður rétt eins og fjöldi karla og kvenna.

Óvandað fólk ætlar sér að breyta tungumálinu og gera það „kynhlutlaust“. Engu að síður er íslenskan kynhlutlaus enda getur maður verið hvort tveggja karl og kona (þó ekki í senn) en enginn karl er kona.

Tillaga: Sindri valinn listamaður ársins.

6.

Öll erum við manneskjur sem njótum jafnréttis samkvæmt lögum samkvæmt alþjóða lögum.“

Frétt á heilsuveru.is.

Athugasemd: Það er beinlínis kostur að umsjónarmaður vefsíðu kunni eitthvað í réttritun. Eins og tilvitnunin ber með sér eru þarna beinar og óbeinar villur. 

Af hverju er ekki þetta orðað eins og í tillögunni þannig reynt að komast hjá nástöðunni.

Kaflinn sem nefnist „Réttur þinn sem manneskja“ er illa skrifaður. Hann er beinlínis ætlaður konum eins og þessi atriði sanna:

    1. Vera meðvituð um og stolt af andlegu atgervi sínu.
    2. Gera mistök og standa ábyrg gagnvart þeim.
    3. Vera stolt af líkama sínum eins og hann er.
    4. Lifa því trúarlífi sem þú sjálf kýs.

Ofangreint á að vera í eintölu. Þar af leiðandi er ómögulegt fyrir karlmann að vera „meðvituð“ eða „stolt“. Þarna virðist höfundurinn gleyma sér í andstöðu sinni gegn orðinu maður og kvenkennir lesandann.

Annar liðurinn er illa orðaður. Þar ætti einfaldlega að standa: Gera mistök en bera ábyrgð á þeim.

Afskaplega kjánalegt er að orða það þannig að „lifa trúarlífi“. Reyndir skrifarar myndu tala um að leggja stund á þá trú sem hver og einn kýs. Í kvenkyni eintölu á að segja: ... sem þú sjálf kýst.

Þar fyrir utan er hreint og beint skrýtið að ávarpa lesandann í annarri persónu, „þú“. Það er ekki gert í íslensku. Á ensku getur orðið „you“ oft merkt annað en fornafnið. 

Að þessu sögðu ætti Embætti landlæknis, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Landspítali að finna prófarkalesara og fela honum að fara grannt yfir texta Heilsuveru og leggja umsjónarmanni vefsins nokkrar ritstjórnarlegar reglur. 

Af efnistökum umsjónarmanns vefsins að ráða er hann greinilega kona. Sem sagt, maðurinn er kona. Í þessu er engin þversögn fólgin enda er maður tegundarheiti sem stundum getur merkt karl. Enginn karl er þó kona. 

Tillaga: Öll erum við menn sem njótum jafnréttis samkvæmt lögum landsins og alþjóðalögum.

 


Bloggfærslur 18. mars 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband