Raungerast - þjóna sem ríkisstjóri - koma flugvél út um hurð
31.1.2024 | 16:02
Orðlof
Málfræðilegt kyn og líffræðilegt
Karlkyn, kvenkyn og hvorugkyn eru ekki sjálfgefin heiti á þeim málfræðieigindum sem þau eru notuð um. Þau byggja á langri hefð sem á rót sína að rekja til latneskrar málfræði þar sem orðin masculinum, femininum og neutrum eru notuð.
Íslensku hugtökin eru bein þýðing á þeim og svo er einnig um önnur heiti sem notuð hafa verið í íslensku, t.d. orðin verkyn, vífkyn og vankyn sem bregður fyrir á síðari hluta 19. aldar.
Þótt sömu heiti séu að nokkru leyti notuð í málfræði og í líffræði eru ekki alltaf bein tengsl á milli málfræðilegs kyns orða og líffræðilegs kyns þess sem þau vísa til. Hægt er að vísa til kvenna með karlkynsorðum (t.d. kennari) eða hvorugkynsorðum (t.d. skass) þótt oftast séu orð um konur málfræðilega kvenkyns og einnig er hægt að vísa til karla með kvenkynsorðum (t.d. lögga) eða hvorugkynsorðum (t.d. skáld).
Auk þess eru fjölmörg karlkyns- og kvenkynsnafnorð sem ekki eiga við lífverur heldur hluti eða fyrirbæri sem ekki hafa neitt líffræðilegt kyn. Það er t.d. vandséð að merkingin geti haft nokkur áhrif á það að orðið gata er kvenkyns en vegur karlkyns.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
fannst hún hafa misst af lestinni og það hafi verið of seint að elta drauminn.
Frétt á blaðsíðu 42 í Morgunblaðinu 18.1.24.
Athugasemd: Draumar eru aðeins eltir á ensku. Á íslensku er talað um að fylgja draumum, rétt eins og margir fari eftir áætlunum sínum en elti þær ekki.
Hugsanlega eru til flóttadraumar, draumar sem eru eins og regnboginn, óínáanlegur (ljót orðleysa).
Tillaga: fannst hún hafa misst af tækifærinu, verið of sein að reyna láta drauma sína rætast.
2.
Ég fer fram fyrir og gekk á undan, þetta var merkileg tæpa en við komumst allir yfir hana.
Frétt á blaðsíðu 52 í Morgunblaðinu 18.1.24.
Athugasemd: Tæpa er athyglisvert orð. Hér er átt við mjóa klettasyllu. Ekki er víst að allir kannist við það.
Hins vegar þekkja allir orðalagið að tæpa á einhverju sem merkir að snerta lauslega, drepa á.
Viðtalið er við mann sem meðal annars segir frá eggjatöku í Hornbjargi. Þeir voru þar þrír feðgar, hann, pabbinn og bróðir sem var í læknisfræði. Sá reyndasti var pabbinn og þegar kom að tæpunni var viðmælandinn sendur fyrstur. Ástæðan fyrir því að ærið kaldranaleg; pabbinn sagðist ekki vilja láta læknanemann fara á undan því það væri sóun allri þessari menntun, félli hann niður í fjöru.
Merkilegt er að sjá ættartré mannsins, rammur Hornstrendingur í báðar ættir.
Tillaga: Engin tillaga.
3.
Gullkistan er búin að opnast aftur.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Leiðinlegt er orðalagið búið að ... Ekkert er lengur eða hefur.
Tillaga: Gullkistan hefur opnast aftur.
4.
Við höfðum áhyggjur af því í gær að það gætu fylgt þessu eldingar og þær raungerðust.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hvaðan kemur þessi sögn að raungerast? Realisere á skandinavískum málum og álíka á ensku.
Hún þykir fín en er í flestum tilfellum óþörf. Áhyggjur af eldingum reyndust réttar, á rökum reistar.
Tillaga: Við höfðum áhyggjur af því í gær að það gætu fylgt þessu eldingar sem og varð.
5.
Verna fyrir öll
Tölvupóstur frá tryggingafélaginu Verna.
Athugasemd: Svo yfirþyrmandi vitlaus er þessi þvingaða breyting sem margir (ekki mörg) vilja gera á tungumálinu að ekki vart stendur steinn yfir steini. Hér er dæmi:
Tryggingafélagið Verna sendir póst og í yfirskrift hans segir:
Nú geta allir notað appið
Takið eftir; allir ekki öll.
Í myndskreyttum texta sendur Verna fyrir öll. Rétt eins og höfundur hans hafi heyrt að allir eigi aðeins við karlkyn, sem auðvitað er alrangt í tilvikum sem þessum.
Síðar í póstinum segir í samhangandi texta:
Afslættir fyrir öll [ ] Allir geta sótt afsláttinn
Samræmi er aðall textahöfunda. Ekki flækja skilaboðin. Til dæmis er ekki er hægt að boða eitthvað í einni setningu og ganga þvert á það í þeirri næstu.
Í póstinum er lesandinn ýmist ávarpaður í annarri persónu, þú, eða talað um öll eða alla.
Svona er ekki bjóðandi. Höfundurinn er ekki vel að sér þó hann virðist vilja vel. Ég er að íhuga að hætta við að tryggja hjá Verna.
Tillaga: Verna fyrir alla.
6.
var kjörinn ríkisstjóri þar í tvígang. Þjónaði hún frá árunum 2011-2017
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Sá sem þjónar gegnir þjónustustarfi, er yfirleitt þjónn. Enska sögnin to serve hefur nokkrar merkingar meðal annars að gegna embætti eða starfa í her og er mikið notað í Bandaríkjunum.
Sá sem segir að einhver hafi þjónað sem ríkisstjóri er annað hvort illa að sér í íslensku eða skammarlega fljótfær.
Fréttin fjallar um bandarískan forsetaframbjóðanda. Fyrir utan ofangreindar þýðingarvillur er sagt að hann hafi þjónað sem sendiherra.
Í fréttinni segir:
Haley hefur verið með aukinn meðbyr á síðustu vikum
Þetta er dæmigert enskt orðalag, nafnorðasetning. Á íslensku er eðlilegra að segja:
Fylgi við Haley hefur aukist á síðustu vikum
Fá nýliðar á Mogganum enga tilsögn?
Tillaga: var kjörinn ríkisstjóri þar í tvígang og gengdi starfinu á árunum 2011-2017
7.
Töluverðar tafir eru á vettvangi og eru dæmi um bíla sem eru fastir í færð.
Frétt á Vísi.
Athugasemd: Hvað er átt við að bílar séu fastir í færð? Líklegast er að blaðamaðurinn hafi ekki lesið fréttina yfir fyrir birtingu. Annað hvort voru ökumenn bíla fæstir í ófærð eða í værð.
Fréttin er um umferðatafir á veginum til Grindavíkur. Blaðamaðurinn kalla hann vettvang. Hvernig dettur honum það í hug? Sagði löggan honum að orða þetta þannig?
Tillaga: Töluverðar tafir eru á vettvangi og eru dæmi um bíla sem eru fastir í ófærð.
8.
ég sá þrýstinginn sem starfsmennirnir voru undir til að koma flugvélunum í snatri út um hurðina.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Erfitt og jafnvel útilokað á að vera að koma einhverju í gegnum hurð. Flugvél sem troðið er í gegnum hurð er varla nothæf á eftir.
Líklega er blaðamaðurinn bara fljótfær en ekki slakur í skrifum. Vonum það. Hann ætti að vita að dyr er gatið á veggnum og hurð er hlerinn sem hafður er fyrir því.
Heimild blaðamannsins er bandaríski vefsíða LA Times. Þar er haft eftir fyrrum yfirmanni hjá Boeng flugvélaverksmiðjunum:
Ive worked in the factory where they were built, and I saw the pressure employees were under to rush the planes out the door.
Blaðamaðurinn þýðir beint og heldur að enska orðið door þýði hurð. Svo er ekki. Því miður er ensk tunga svo fátæk að hún á ekki orð sem er sambærilegt við hurð. Sé það til er það frekar sjaldgæft. Enskan gæti fengið hurð lánað úr íslensku, rétt eins og þau ógrynni sem hún hefur fengið að láni úr öðrum tungumálum.
Þýðingin er ekki góð. Tillagan er skárri.
Tillaga: ég fann að þrýst var á starfsmenn að ljúka hratt við smíði flugvéla.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)