Æsingur í póstnúmeri - ökuskírteini ánafnað öðrum - ráku bílnúmer til eigandans

Orðlof

Rúlla af klósettpappír

Ein háöldruð nágrannakona hafði orð á því við mig að árin virtust líða miklu hraðar eftir að hún komst á gamals aldur. Ég stóðst eðlilega ekki mátið og dró fram minn gamla, slitna brandara: 

Ævin er eins og rúlla af klósettpappír. Eftir því sem færri blöð eru eftir á henni snýst hún hraðar. […]

Maður nokkur hafði komið til heyrnarlæknis og tjáð honum að hann hefði ekki nema hálfa heyrn. Læknirinn skoðaði eyrun og sagðist ætla að hvísla að honum og hann ætti að endurtaka það sem hann heyrði. Svo hvíslaði hann 88 og sjúklingurinn svaraði 44! 

Þórir S. Gröndal. Aðsendri grein á blaðsíðu 15 í Morgunblaðinu 14.2.24. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Til­kynnt var um æst­an ein­stak­ling í versl­un í hverfi 109 í Breiðholti.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Aðeins eitt er lakara en illa skrifandi löggur og það eru illa skrifandi blaðamenn. 

Blaðamaður Moggans heldur að póstnúmer sé heiti á hverfum á höfuðborgarsvæðinu. Hann skilur skynsemina eftir heima og fer að skrifa fréttir í Moggann.

Verst af öllu eru þó stjórnendur Moggans sem lesa ekki fréttir í blaðinu og leiðbeina ekki byrjendum í blaðamennsku.

Tillaga: Til­kynnt var um æst­an ein­stak­ling í versl­un í Breiðholti.

2.

„Fram­vísaði Lia­vonau þá fölsuðu öku­skírteini ánöfnuðu öðrum manni …

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Sögnin að ánafna merkir að að gefa. Merkingin í tilvitnuninni er ekki til. Blaðamaðurinn á líklega við að öskuskírteinið sé á nafni annars manns. 

Tillaga: Fram­vísaði Lia­vonau þá fölsuðu öku­skírteini á nafni annars manns

3.

„Mín fyrsta alvöru frammistaða með landsliðinu.

Frétt á ruv.is. 

Athugasemd: Frammistaða er ekki lýsingarorð og því segir það ekkert eitt og sér, einungis að maðurinn hafi verið í leiknum en ekkert gert. Hins vegar getur frammistaða verið góð eða slæm eða eitthvað þar á milli.

Sé lesandinn ekki sannfærður getur hann sett eitthvað annað orð í staðinn, til dæmis metnaður, framtak, geta eða einhver önnur nafnorð. Enginn segir: Mitt fyrsta alvöru framtak með landsliðinu. Enn vantar lýsingarorðið.

Tillaga: Fyrsta góða frammistaða mín með landsliðinu..

4.

„Miklar skemmd­ir á íbúð­ar­húsi eftir eld á Norð­firði.

Frétt á ruv.is. 

Athugasemd: Yfireitt verða skemmdir í eldi, ekki eftir hann. Þegar eldur hefur verið slökktur er skaðinn skeður, á eftir skemmist yfirleitt ekkert. 

Skárra er að orða málsgreinina eins og segir í tillögunni.

Tillaga: Íbúðarhús á Norðfirði skemmdist mikið í eldi.

5.

„Skaða­bóta­kröfu konu vísað frá eftir að hún sigrar jóla­tréskast­keppni.

Frétt á Vísi. 

Athugasemd: útilokað er að sigra keppi og skiptir engu hvaða nafni hún nefnist. Ástæðan er einföld: Keppni er ekki andstæðingur.

Hins vegar er hægt að sigra í keppni. Með nokkrum sanni ná segja að blaðamaðurinn tapað fyrir forsetningunni.

Tillaga: Skaða­bóta­kröfu konu vísað frá eftir að hún sigraði í jóla­tréskast­keppni.

6.

„Rútufyritækið Artic Ora hefur verið tengt við málið eftir að netverjar ráku bílnúmer rútunnar til fyrirtækisins.

Frétt á Vísi. 

Athugasemd: Mikill munur er á orðunum að rekja og reka. Útilokað er að „reka bílnúmer“. Hins vegar má rekja það sem á númerinu stendur til þess sem er skráður eigandi.

Orðið rútufyrirtæki er rangt stafsett í tilvitnuninni, í það vantar er lítið ’r’. Þetta bendir til þess að blaðamaðurinn hafi ekki látið villuleitarforritið í gang.

Tillaga: Rútufyrirtækið Artic Ora hefur verið tengt við málið eftir að netverjar röktu bílnúmer rútunnar til fyrirtækisins.


Bloggfærslur 28. febrúar 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband