Mikill vindur - maður gisti á spítala - Bergið Headspace
14.4.2024 | 15:31
Orðlof
Sófi, gáfa og húfa
Ýmis orð í íslensku eru langt að komin, þar á meðal orðið sófi. Það er reyndar fengið að láni úr dönsku en á samt uppruna sinn í arabísku.
Í fljótu bragði virðist þetta orð hafa lagað sig fullkomlega að íslensku en eitt lítið atriði kemur þó upp um erlendan uppruna þess.
Það er nefnilega alltaf borið fram með f-hljóði öfugt við önnur orð þar sem f stendur á milli sérhljóða því það er yfirleitt borið fram sem v, t.d. í gáfa og háfur, en það á líka til að hverfa eða því sem næst, t.d. í lófi og húfa.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Karlmaður var handtekinn í hverfi 108 í Reykjavík fyrir innbrot og þjófnað.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Löggan er svo ferlega illa að sér að hún heldur að póstnúmer séu heiti á hverfum.
Á Vísi stendur:
Af öðrum verkefnum lögreglunnar í Hafnarfirði má nefna tilkynningu um óvelkominn einstakling í hjólageymslu í hverfi 221, hund sem var tekinn af eiganda vegna hirðuleysis í miðbæ Hafnarfjarðar og þjófnað úr verslun í hverfi 221.
Blaðamaðurinn er fastur í nástöðu; tvisvar nefnir hann hverfi 221 í sömu málsgrein. Orðalagið kemur greinilega beint frá löggunni. Málsgreinin er illa samin og of löng. Löggan kann ekki að skrifa en blaðamaður ætti að gera skár en þetta.
Verstir eru blaðamenn sem birta það sem löggan matreiðir og gera ekki neina tilraun til að laga slæm skrif og staðreyndavillur.
Tillaga: Karlmaður var handtekinn í Reykjavík fyrir innbrot og þjófnað.
2.
Við hjá BL erum þakklát fyrir að hafa fengið að vera samferða ykkur í vinnuna, á ferðalögum, í bíltúrum og á stærstu stundum lífsins.
Auglýsing á blaðsíðu 15 í Morgunblaðinu 11.4.24.
Athugasemd: Þetta er heilsíðuauglýsing bifreiðaumboðs. Textinn er froða. Óskiljanlegt er að virðulegt fyrirtæki skuli láta svona bull fara frá sér.
Tillaga: Engin tillaga.
3.
29 voru drepnir í sprengjuárás á ísraelska sendiráðið í Buenos Aires árið 1992
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Blaðamaður Ríkisútvarpsins byrjar málsgrein á tölustöfum. Heimild hans er franska blaðið Le Monde. Í vefútgáfu þess á ensku stendur:
In 1992, a bomb attack on the Israeli embassy left 29 dead.
Þeim frönsku dettur ekki í hug að byrja málsgrein á tölustöfum.
Tillaga: Tuttugu og níu voru drepnir í sprengjuárás á ísraelska sendiráðið í Buenos Aires..
4.
Mikill vindur var þegar eldurinn kviknaði
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Skyldi hafa verið hvasst þegar húsið brann? Veðurfræðingar tönglast á því að vindur sé mikill eða lítill. Gömul og góð orð um vind eru við það að týnast.
Íslenskan er ríkt tungumál. Til eru á annað hundrað orð sem lýsa vindi:
- aftakaveður
- andblær
- andi
- andvari
- áhlaup
- bál
- bál
- bálviðri
- belgingur
- blástur
- blær
- blæs
- brimleysa
- derringur
- drif
- dúnalogn
- dús
- fellibylur
- fjúk
- fok
- foráttuveður
- galdraveður
- gambur
- garri
- gerringur
- gjóla
- gjóna
- gjóstur
- gol
- gola
- gráð
- gustur
- hrakviðri
- hregg
- hríð
- hroði
- hrök
- hundaveður
- hvassviðri
- hviða
- hvirfilbylur
- hægviðri
- illviðri
- kaldi
- kali
- kári
- kul
- kuldastormur
- kuldastrekkingur
- kylja
- kyrrviðri
- kæla
- lágdeyða
- ljón
- logn
- lægi
- manndrápsveður
- mannskaðaveður
- músarbylur
- nepja
- næðingur
- næpingur
- ofsarok
- ofsaveður
- ofsi
- ofviðri
- ókjör
- óveður
- remba
- rembingur
- rok
- rokstormur
- rumba
- runta
- ræna
- skakviðri
- slagveður
- snarvindur
- snerra
- snerta
- sperra
- sperringur
- stilla
- stormur
- stólparok
- stólpi
- stórastormur
- stórveður
- stórviðri
- strekkingur
- strengur
- streyta
- streytingur
- stroka
- strykur
- súgur
- svak
- svali
- svalur
- sveljandi
- svipur
- tíkargjóla
- túða
- veðrahamur
- veðurofsi
- vindblær
- vindkul
- vindsvali
- vindur
- vonskuveður
- ördeyða
- öskurok
Mikill vindur var Mikið óskaplega er flatt og ómerkilegt að taka svona til orða þegar hægt er að grípa til einhvers af ofangreindum 112 orðum.
Hefur lesandinn tekið eftir því að nær algjörlega er hætt að rigna á Íslandi? Það er líklega af hinu góða. Aftur á móti er úrkoma ekki minni en regnið var fyrir orðamótin (orðamót: glannalegt nýyrði, samanber áramót; eitt ár tekur við af öðru).
Ekki er lengur talað um hita dagsins heldur hitatölur, jafnvel rauðar og bláar hitatölur.
Svipað er með þá sem stjórna tungumálinu hjá Vegagerðinni. Aldrei er snjór á vegum en þegar það gerist heitir það snjóþekja (óþarft orð).
Tillaga: Hvasst var þegar eldurinn kviknaði .
5.
Viggó gisti þrjár nætur á spítala í síðustu viku er hann fékk lungnabólgu.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Líklega var ekki pláss fyrir hann í gistihúsi eða hóteli. Nei, maðurinn veiktist og þurfti þess vegna að vera í sjúkrahúsi í þrjá daga.
Aldrei nokkurn tímann hefur verið sagt að hjartveikur maður hafi gist í sjúkrahúsi jafnvel þó það sé staðreynd að hann hafi sofið þar. Maður er á sjúkrahúsi og í því felst að það hafi verið vegna veikinda eða slyss.
Svona er stundum skrifað út í bláinn.
Tillaga: Viggó var þrjár nætur á spítala í síðustu viku er hann fékk lungnabólgu.
6.
Bergið Headspace opnar á Akureyri.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Athyglisvert að ráðgjafarstöð fyrir börn og unglinga skuli bera enskt nafn. Geta menn ekki gert betur?
Tillaga: Engin tillaga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)