Vera frelsissviptur og eldfjall sendir frá sér heitt rautt hraun
19.2.2021 | 12:34
Orðlof
Freistnin
4 Samkvæmt þessu þarf það ekki að koma á óvart þótt eignarfallsflótti sé tíður í svonefndri stofnanaíslensku eða sérfræðsku þar sem nafnorðastíll ræður ríkjum og höfundar sýna þekkingu sína á torskildum fræðum með því að tala í torráðnum setningum; þeir falla þá stundum í þá freistni að tjá sig á margslungnari hátt en samræmist málleikni þeirra.
Helgi Skúli Kjartansson. Eignarfallsflótti (neðanmálsgrein á blaðsíðu. 91). Íslensk og almenn málfræði, 1. tölublað (01.01.1979). Sjá á timarit.is.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Biden kallar eftir strangari byssulöggjöf.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Fyrirsögnin og efni fréttarinnar er að nokkru leyti röng. Forseti Bandaríkjanna hvetur Bandaríkjaþing til að herða byssulöggjöf í landinu. Hann hækkaði ekki róminn.
Orðalagið að kalla eftir er ekki til í íslensku og algjörlega merkingalaust sé enskan þýdd beint.
Á vef CNN segir:
President Joe Biden on Sunday called on Congress to institute "commonsense gun law reforms," including
Séu þetta þýtt á íslensku segir að Joe Biden hvetji þingið til að lagfæra byssulögin
Hreinn óskapnaður getur hlotist af því er enskan er þýdd samkvæmt orðanna hljóðan. Nauðsynlegt er að vita hver merking ensku orðanna er og ekki síður samhengið.
Tillaga: Biden hvetur þingið til að breyta byssulögunum.
2.
Ekkert spennandi við að vera frelsissviptur.
Fyrirsögn á frettabladid.is.
Athugasemd: Í stað orðsins frelsissviptur fer betur á því að segja sviptur frelsi. Hitt orðið finn ég ekki í orðabókinni minni. Þó væri betur á því að segja að Frelsissvipting sé ekkert spennandi, sé eindreginn vilji á því að nota orðið.
Hins vegar er aðalatriðið að vera sviptur frelsi. Skrýtið að það sé ekki sagt eins og það er heldur notaður úrdráttur. Um hann segir svo í málfarsbankanum:
Orðið úrdráttur er notað yfir ákveðið stílbragð sem felst í því að nota veikara orðalag en efni standa til. Það er ekki mjög kalt hérna, í merkingunni: það er heitt hérna. Þetta var ekki sem verst, í merkingunni: þetta var mjög gott.
Betur fer á því að tala hreint út, orða það svona illt er að vera sviptur frelsi, eða álíka.
Ég giska á að orðalagið komi frá lögfræðingum og löggunni og hafi breiðst út með aðstoð blaðamanna sem margir hverjir halda að löggan tali gullaldarmál. Svo er hins vegar ekki og er talsmátinn frekar í ætt við stofnanamál - og þetta er ekki hrós. Einn mesti skaði sem er að verða á íslensku máli er nafnorðavæðingin.
Í fyrirsögninni er forsetningunni við ofaukið. Sé henni sleppt breytist merkingin ekkert.
Tillaga: Ekkert spennandi að vera sviptur frelsi.
3.
Fyrsta tímabil Bjarka Péturssonar í atvinnumennsku var skammlíft
Frétt á blaðsíðu 10 í Fréttablaðinu 16.2.21.
Athugasemd: Tímabil mannsins í atvinnumennsku var stutt, það er skammvinnt. Hvolpurinn sem kunningi minn eignaðist varð hins vegar skammlífur. Á þessum tveimur orðum er mikill munur:
Skammlífur er það sem lifir stutt, deyr ungur, eins og segir í orðabókinni.
Skammvinnur er aftur á mót það sem varir stutt.
Þó er ekkert að því að segja að enn lifi vonin um að komast aftur í atvinnumennsku sé vilji fyrir því.
Tillaga: Fyrsta tímabil Bjarka Péturssonar í atvinnumennsku var skammvinnt
4.
Eitt virkasta eldfjall heims, hið indónesíska Merapi, gaus í morgun, og sendi frá sér heitt rautt hraun.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Athyglisvert að það skuli vera fréttnæmt að hraunið væri rautt. Skyldi fjallið hafa sent frá sér blátt hraun, gult eða svart? Og þessu til viðbótar var hraunið heitt. Hefur eldfjall nokkurn tímann gosið köldu hrauni?
Fréttin ber með sér að viðvaningur skrifaði og það gjörsamlega gagnrýnislaust. Í henni segir:
Í morgun urðum við vör við hraunflóð sjö sinnum
Þetta er ekki skýrt nánar. Líklega hefur einhver á vakt litið sjö sinnum út um gluggann.
Opinber viðvörun um stöðu eldfjallsins er þrátt fyrir allt óbreytt
Gott er að vita að eldfjallið hafi ekki hreyfst úr stað þrátt fyrir lætin.
Íbúum á svæðinu var sagt að forðast að vera staðsettir í fimm kílómetra radíus frá gígnum.
Í síðasta mánuði spúði eldfjallið risastórum reyk- og öskuskýjum.
Betur fer á því að fullorðið fólk með reynslu sjái framvegis um að skrifa fréttir á vefsíðu Moggans. Tilraunin um að börn skrifi mistókst.
Og hér eru stutt skilaboð til stjórnenda mbl.is: Fréttir eru upplýsingar fyrir lesendur ekki sundurlaus texti á skjá.
Tillaga: Hraungos hófst í morgun í Merapi í Indónesíu. Það er eitt virkasta eldfjall á jörðu.
5.
Á einhverjum tímapunkti hlýtur það hins vegar að verða víst
Fyrri leiðari Morgunblaðsins 19.2.21.
Athugasemd: Getur einhver útskýrt gagnið af orðinu tímapunktur? Á einhverjum tímapunkti, segir leiðarahöfundurinn. Er það eitthvað skýrara en það sem segir í tillögunni hér fyrir neðan?'
Það má teljast ótrúlegt hversu lífsseigur þessi punktur er og gerir ekkert gagn frekar en veiran sem kallast covid-19.
Í heild er tilvitnunin svona:
Á einhverjum tímapunkti hlýtur það hins vegar að verða víst; hlýtur áhættan af því að aflétta að verða minni en skaðinn, sem hlýst af því að halda aðgerðum áfram.
Þessi málsgrein er verulega slæm. Af hverju les leiðarahöfundurinn ekki skrifin sín yfir fyrir birtingu eða fær einhvern annan til þess. Tek fram að Davíð Oddsson skrifaði ekki leiðarann, stíll hans er allt annar.
Tillaga: Einhvern tímann hlýtur það hins vegar að verða víst
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.