Ósannfærður, hverfi póstnúmers 105 og hraun sem lekur

Orðlof

Títuprjónamál

Kennarinn: Jæja, krakkar mínir, nú eiga allir – nei, öll – að tala nýlensku eins og fréttamönnunum – nei, fréttafólkinu – á RÚV er skipað að gera. Þið eigið til dæmis að segja: Fjögur voru handtekin í Þýskalandi, grunuð um að skipuleggja hryðjuverkaárás. Og svo megið þið alls ekki segja maður. Þið eigið að segja aðili eða manneskja. Þið eigið líka að segja manneskjubein eins og þeir gera á RÚV. 

Nemandi 1 (stúlka): En mamma segir að ég eigi að tala það mál sem ég var alin upp við – að ég eigi t.d. að segja: Fjórir voru handteknir. – Þetta er karlkyn í hlutlausri merkingu. 

Kennarinn: Nei, nei nei. Það voru reyndar bara karlar sem voru handteknir þarna úti í Þýskalandi. Ég sá það í þýsku fréttinni: Vier Männer wurden festgenommen. En það breytir engu hjá RÚV. 

Nemandi 2: Amma kallar þetta títuprjónamál af því að það er eins og verið sé að stinga saklausa hlustendur með títuprjóni í eyrun. Hún er farin að kvíða fyrir að hlusta á fréttirnar á RÚV. 

Kennarinn: Amma þín getur bara farið á hlusta á Bylgjuna og Stöð 2. Þar eru fréttamenn – nei, fréttafólk – ekki búið að læra nýlenskuna. 

Nemandi 3. En hvernig stendur á því að allir viðmælendur frétta- manna á RÚV tala enn þá íslensku? 

Kennarinn: Það er af því að þeir eru ekki búnir að læra nýlenskuna. 

Nemandi 4: En það er ekkert samræmi í þessu hjá þeim á RÚV. Í kvöldfréttum þann 25. júlí heyrði ég til dæmis þessa mixtúru: „Fleiri eru nú smituð og einkennalaus “ En strax á eftir: „ að fleiri séu ógreindir og einkennalausir.“ 

Kennarinn: Og næst verður svo sagt: „Ekkert greindist smitað í gær“. 

– Nei, krakkar mínir, ég var að grínast! Auðvitað er ég sammála ykkur. Nýlenskan er mál sértrúarhóps á villigötum eins og allir okkar virtustu málfræðingar (konur og karlar) hafa nú sýnt fram á. 

Útvarpsstjóri hefur sem betur fer fundið fyrir mótmælaholskeflu þúsunda útvarpshlustenda og virðist nú loksins vera búinn að ná til flestra fréttamanna sinna. Enn eru þó títuprjónamenn í hópnum, tilbúnir að stinga okkur í eyrun. 

Morgunblaðið blaðsíða 20 þann 7.8.21. Tungutak. Baldur Hafstað. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Tæp 47% brottfara útlendinga frá landinu í júlí voru Bandaríkjamenn.“

Undirfyrirsögn á blaðsíðu 10 í Morgunblaðinu 6.8.21.                                     

Athugasemd: Ábyggilega þykir fleirum en mér þetta skrítin málsgrein. Þarna er reynt að komast hjá því að nota sögnina að fara en í staðinn notað nafnorðið „brottfarir“.

Brottfarir er hugtak sem notað er í ferðaþjónustunni og er út af fyrir sig ágætt. Merkir yfirleitt þá sem fara úr landi. Vandinn er að skrifarar festast stundum í nafnorðaþjónkuninni, gleyma sagnorðunum, og úr verður einhvers konar stofnanamál. Í þessu tilviki hjá Ferðamálastofu.

Svo myndast ný og skemmtileg orð eins og „brottfararfarþegar“, „komuferðafarþegar“, „útálandferðaferðamenn“, „ökuferðaferðamenn“, „hjólaferðamenn“ … Nei, aðeins það fyrsta er í fréttinni. Hin eru orðleysur.

Tillaga: Tæp 47% útlendinga sem fóru frá landinu í júlí voru Bandaríkjamenn 

2.

„Hann kveðst ósann­færður um að skjálft­ar yfir þrem­ur að stærð muni mæl­ast á svæðinu í eða eft­ir þessa hrinu.

Frétt á mbl.is.                                       

Athugasemd: Þetta er orðleysa; „ósannfærður“. Sá sem er ekki viss eða hefur ekki trúað rökum er ekki sannfærður.

Fjölmiðlamenn („skrattakollarnir“) orða það þannig að jarðskjálfti hafi mælst einn, tveir eða þrír „að stærð“. Furðulegt hversu þeir geta stundum verið samhljóða. Hins vegar má fullyrða að óhætt er að orða það þannig að jarðskjálfti hafi verið eitt, tvö eða þrjú stig. Ekkert að því að nota stig.

Í fréttinni er sagt frá jarðskjálftum sem hafa verið á milli Grímseyjar og lands og það kallað „svæði“. Eðlilegra hefði verið að tala um hafsvæði. 

Tillaga: Hann kveðst ekki sannfærður um að skjálft­ar yfir þrjú stig muni mæl­ast þarna í hrinunni eða eftir hana.

3.

„Lög­regla veitti bíl eft­ir­för í hverfi póst­núm­ers 105 á fjórða tím­an­um í nótt.

Frétt á mbl.is.                                      

Athugasemd: Þetta eru hálfbjánalegt því póstnúmer eru ekki hverfi. Þau eru aðeins númer ætluð til að auðvelda dreifingu pósts.

Innan póstnúmera eru ekki hverfi eins og skilja má af orðalaginu í tilvitnuninni.

Í fréttinni segir:

Eft­ir eft­ir­för stansaði bif­reiðin í hverfi 108 þar sem ökumaður­inn var hand­tek­inn.  

Stoppaði bíllinn sjálfkrafa eða var ökumaðurinn að verki?

Einhver þeirra sem skrifa dagbók lögreglunnar heldur að póstnúmer borgarinnar séu hverfi. Sumir blaðamenn trúa þessu eða vita ekki betur, og það sem verst er, enginn leiðbeinir þeim.

Orðalag löggufrétta er niðurnjörvað í einhverja stofnanamállýsu, „veita eftirför“. Til tilbreytingar mætti auðveldlega segja að löggan hafi elt bílinn, reynt að stoppa hann og svo framvegis.

Við, alþýða manna, tölum um bíla. Löggan og blaðamenn sem skrifa um löggumál kalla farartækin bifreið. Þar sem glæpur hefur verið framinn heitir alltaf vettvangur. Ekkert er vitlaust við þetta. Í öðrum fréttum er talað um bíla og aldrei hittast menn á vettvangi nema löggan sé viðstödd.

Á enskan máta vill löggan „tryggja vettvanginn“. Í glæpamyndum frá Ameríku muldrar alvarlega rannsóknarlöggan með sígarettu í munnvikinu og viskípela í frakkavasanum við götulögguna: 

Secure the perimeter and keep the press away form me.

Hér á Íslandi tryggjum við hjá tryggingafélögunum margvíslegan vettvang; heimilið, sumarbústaðinn og margt fleira. Í fjallamennsku er vaður tryggilega festur og ekkert að því að segja að maðurinn sé tryggður.

Og nú ætla ég að fara út og fremja golf á vettvangi golfklúbbs í hverfi 245, ek þangað á bifreið sem hægt er að „stansa“.

Tillaga: Lög­reglan elti bíl í Reykjavík á fjórða tím­an­um í nótt.

4.

„Í fyrsta skiptið síðan á mánu­dag lek­ur hraun.

Frétt á mbl.is.                                      

Athugasemd: Varla getur verið rétt að segja að hraun leki, yfirleitt er það sagt renna.

Eldgjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands er fróðlegur vettvangur á Facebook en mætti vera betur skrifaður. Þann 6. júlí segir þar:

Einstök mynd - hraunið lekur aftur niður!

Varla þarf að fjölyrða um þá staðreynd að það sem lekur eða rennur fer niður í móti. Það væri mikil frétt ef eitthvað rynni upp á við.

Tillaga: Hraun rennur í fyrsta skipti síðan á mánudag.

5.

23 hinna smitaðra voru í sóttkví við greiningu en 34 utan sóttkvíar.

Frétt á visir.is.                                      

Athugasemd: Fallabeygingin er röng af því að blaðamaðurinn skýtur lausa greininum inn í setninguna. Hefði hann ekki gert það væri setningin að því leyti rétt. Ekki er alltaf til bóta að nota lausa greininn. 

Þar að auki á aldrei að byrja setningu á tölustöfum, það tíðast hvergi.

Með lausa greininum hefði ofangreind málsgrein átt að vera svona:

Tuttugu og þrír hinna smituðu voru í sóttkví við greiningu en 34 utan sóttkvíar.

Mikilvægt er að hafa samræmi innan fréttar. Sumir hafa það fyrir reglu að skrifa alltaf tölustafi, aðrir skrifa tölur í bókstöfum ef þær eru lægri en til dæmis eitt hundrað.

Tillaga: Tuttugu og þrír smitaðra voru í sóttkví við greiningu en þrjátíu og fjórir utan hennar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband