Brú á staðsetningu - einhver örmögnun - taka fyrir sölu
18.8.2022 | 13:13
Orðlof
Hurð lyft upp, dregin upp, opnuð upp
Að opna var þá kallað að reka upp hurð, hrinda upp hurð og ljúka upp hurð (sbr. yppa hurðum), og var þá sagt að hurð lyptist eða gengi upp. [ ]
Síðar varð það tízka, að hurðinni, eða hleranum (hleðanum), var rennt til hliðar og kynni þá mega kalla hana rennihurð, til greiningar frá fellihurð , og rann hún þá í greyping í dyratré og þröskuldi eða, ef gætti voru á felld, í bilinu á milli dyratrés og þröskuldar að utan, en efra og neðra gættitrés að innan. Var þá enn umbúningrinn, er hurðin rann í, þá er lokað var, kallaðr klofi, en umbúningrinn hins vegar, er hurðin rann í, er opnað var (eða rann úr, er lokað var) hét gátt eða gættr.
Sömu orðtæki héldust þó að mestu um að opna og loka, svo sem að hurð gengi upp, er opnað var, þó að eigi væri henni þokað upp, heldr til hliðar. [ ]
Vér segjum enn, að hurð sé lokið upp, er hún gengr inn (eða út), og að hurð standi á gátt eða hálfa gátt, þegar hún er opin eða hálfopin, þó að nú hafi gátt (eða gættr) aðra merking en áðr.
Tímarit hins Íslenska bókmenntafélags, 11. árgangur 1889, Bókafrétt, blaðsíður 96 og 99. Eggert Ó. Brím um rannsóknir Valtýs Guðmundssonar á dyraumbúnaði á söguöld.
Þess skal hér getið að Valtýr byggði rannsóknir sínar eingöngu á lýsingum fornrita sem nú eru almennt ekki talda öruggar heimildir um atburði eða húsagerð skömmu eftir landnám.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Yfirvöld í Úkraínu segja hersveitum sínum hafa tekist að sprengja brú á mikilvægri staðsetningu í Kerson.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Athyglisvert að eyðileggja mannvirki á staðsetningum. Þetta hlýtur að enda enda með óskapningum eins og uppskafningum er lagið.
Tillaga: Yfirvöld í Úkraínu segja hersveitum sínum hafa tekist að sprengja brú á mikilvægri stað í Kerson.
2.
þegar fólk var að koma niður eftir ljósaskiptin að það var einhver örmögnun og þreyta í fólki.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Blaðamenn eiga ekki að birta allt sem hrekkur upp úr viðmælendum. Hægt er að lagfæra orðalag þeirra eða segja frá í óbeinni ræðu.
Hvaða einhver örmögnun gekk að fólki? Nei, það er bara til ein tegund af örmögnun og hún verður þegar fólk örmagnast, yfirleitt af þreytu. Einhver örmögnun er ekki til. Þetta er talmál sem á ekki að hafa eftir í skrifuðu máli heldur umorða.
Tillaga: þegar fólk var að koma niður eftir ljósaskiptin voru sumir örmagna og þreyttir.
3.
Það var slatti af umferð á Suðurstrandarveginum í dag, en ég held að enginn hafi þó labbað upp eftir, ég held að þetta hafi aðallega verið ferðamenn sem ætluðu að labba.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hvorki eru þetta háleit hugsun né djúp. Veit ekki hvor er meiri labbakúturinn, blaðamaðurinn eða viðmælandi hans.
Viðmælandinn er ekki vel máli farinn og það hefði blaðamaðurinn átt að skilja og lagfæra orðalagið.
Enginn labbar fimmtán km. Fólk gengur. Þeir sem fara að gosstöðvunum eru allir ferðamenn en vera má að sumir göngumannanna séu útlendingar.
Svo má spyrja. Hver er göngumaður; sá sem gengur eða labbar?
Tillaga: Dálítið umferð var á Suðurstrandarvegi í dag, en ég held að enginn hafi þó gengið upp eftir, ég held að það hafi aðallega verið útlendir ferðamenn.
4.
og þannig sé verið að verðrýra eign.
Aðsend grein á blaðsíðu 34 í Morgunblaðinu 18.8.22.
Athugasemd: Sögnin að verðrýra er til en er ferlega undarleg, eiginleg ankannaleg (skringileg). Betri kostur (ekki valkostur) væri að orða þetta eins og segir í tillögunni.
Greinin er engu að síður afar athyglisverð.
Tillaga: og þannig sé verið að rýra verð eignar.
5.
Elti drauminn eftir lífshættulegt slys.
Frétt á blaðsíðu 40 í Morgunblaðinu 18.2.22.
Athugasemd: Draumar flýja í unnvörpum og þeir eru eltir út um allt land jafnvel til útlanda. Hvernig stendur á þessu? Hvers vegna leggja draumar eiginlega á flótta?
Enskumælandi þjóðir eiga til orðalagið to follow the dream. Sigldir Íslendingar geta ekki verið minni og þýða í fljótfærni sinni að elta drauminn. Hrárri verður varla þýðingin. Eitt er að kunna útlensku og annað að geta þýtt á skikkanlega íslensku.
Allir eiga sér draum og margir leggja á sig mikla vinnu svo hann rætist - ekki þarf eltingarleik eða einelti til.
Tillaga: Lét drauminn rætast eftir lífshættulegt slys.
6.
Auk venjulegra aðalfundarstarfa skal taka fyrir sölu á öllum hlutum í félaginu undir liðnum önnur mál.
Frétt á blaðsíðu 12 í auglýsingablaði Morgunblaðsins 18.8.22.
Athugasemd: Orðalagið að taka fyrir getur merkt að koma í veg fyrir, stoppa, hætta.
Ég skildi auglýsinguna þannig að hætta ætti sölu á öllum hlutum í félaginu. Jafnvel að koma í veg fyrir sölu.
Eflaust er þó átt við að á aðalfundinum eigi að ræða um sölu á öllum hlutum í félaginu.
Tillaga: Auk venjulegra aðalfundarstarfa verður rætt um sölu á öllum hlutum í félaginu undir liðnum önnur mál.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.