Farinn að fara með fararstjórn - biðfreiðar aka saman - ekki stætt á ráðherrastóli
7.11.2022 | 18:10
Orðlof
Íslensk orð úr gelísku
Sterkar vísbendingar eru um að gelíska hafi verið útbreitt mál á Íslandi við landnám og að málskipti hafi orðið á landinu skömmu síðar. Þetta er mat eins helsta sérfræðings landsins í sögu Kelta sem bendir á gríðarlegan mun á íslensku og hinum norðurlandamálunum.
Belja, ær, ýsa, hurð, spýta og strákur. Allt dæmi um orð sem fræðimaðurinn Þorvaldur Friðriksson hefur tekið sem dæmi yfir orð í íslensku sem finnast ekki í öðrum norðurlandamálum.
Þetta eru allt mjög mikilvæg örnefni. Og ef þetta er rétt, sem ég tel að sé, að þau séu gelísk, þá hlýtur að hafa verið töluð hér gelíska, segir Þorvaldur.
Vísir, viðtal við Þorvald Friðriksson fornleifafræðing um bók hans Keltar sem er nýkomin út.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Lygasaga að Helgi sé farinn að fara með fararstjórn
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Er þetta nú ekki of mikið? Samviskusamir blaðamenn lesa frétt yfir fyrir birtingu og laga orðalag. Góðir blaðamenn forðast nástöðu. Bestu blaðamennirnir hugsa.
Tillaga: Lygasaga að Helgi sé orðinn fararstjóri.
2.
Þau fluttu í íbúðina fyrir tæplega 26 árum ásamt dætrum sínum sem eru fjórar talsins.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Dæturnar eru fjórar og ekkert meira um það að segja. Ekki talsins. Atviksorðið er algjörlega óþarft, skýrir ekkert eða hjálpar lesandanum enda er það hér vita gagnslaust.
Í fréttinni segir:
Vinna Einars fer fram á heimilinu á leyndardómsfullum stað sem hann vill alls ekki sýna í þættinum.
Maðurinn er rithöfundur og vinnur heima. Orðalagið fer fram er ofnotað og oftast þarflaust.
Tillaga: Þau fluttu í íbúðina fyrir tæplega 26 árum ásamt fjórum dætrunum sínum.
3.
Í hverfi 105 í Reykjavík barst lögreglu tilkynning um ógnandi aðila í fyrirtæki.
Frétt á fréttablaðinu.is.
Athugasemd: Sjaldan bregðast blaðamenn sem fá það verkefni að vinna fréttir úr dagbók lögreglunnar. Þeir taka gleyma út á hvað starf þeirra gengur og tíunda allt. Jafnvel þó löggan haldi að póstnúmer séu heiti á hverfum. Blaðamenn afrita vitleysuna.
Löggan talar ýmist um aðila, menn eða fólk, getur ekki gert upp hug sinn eða er svo skyni skroppin að allt þetta hrekkur upp úr henni. Blaðamenn afrita vitleysuna og gera enga tilraun til að fylgja eftir þeim fáu fréttapunktum sem löggan birtir.
Í fréttinni segir um slys:
ekið á gangandi vegfaranda sem kenndi sér þó einskis meins og var ekið heim til sín.
Er þetta frétt?
Í fréttinni segir:
Í Kópavogi höfðu tvær biðfreiðar ekið saman og skemmst lítilega við árekstur, ekkert líkamstjón varð á fólki.
Biðfreiðar óku saman svo skemmdust þær lítilega við árekstur. Spyrja má hvort áreksturinn hafi orðið fyrir eða eftir samaksturinn sem var lítilegur. Ekkert líkamstjón varð á fólki en kannski á bílunum.
Tillaga: Engin tillaga.
4.
kallar eftir því að kjósendur í Bandaríkjunum styðji frambjóðendur repúblikana í þingkosningunum sem haldnar verða á morgun.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Þetta er nú meiri orðaþvælan: kallar eftir því að kjósendur styðji. Af hverju gat blaðamaðurinn ekki notast við fyrirsögnina:
Musk hvetur fólk til að kjósa repúblikana.
Hrákasmíðin kalla eftir er komin úr ensku og tröllríður nú öllum fréttum og þykir óskaplega flott, þó veit enginn hvað hún merkir á íslensku annað en að hrópa eða kalla. Hvorugt á við hér.
Tillaga: hvetur kjósendur í Bandaríkjunum til að styðja frambjóðendur repúblikana í þingkosningunum sem haldnar verða á morgun.
5.
Þar hélt hann því fram að Guðlaugi væri ekki stætt á ráðherrastóli ef hann tapaði kosningunni.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Hér er orðtökum klúðrað. Sé skáldað áfram gæti einhver gáfumaðurinn hafa sagt: sitjandi ráðherra er ekki stætt á ráðherrastóli og þarf að stíga til hliðar. Og þá myndi hann líklega detta.
Best er að sleppa málsháttum og orðtökum því það er aldrei að vita nema maður fari rangt með eða klúðri þeim eins og hér er gert.
Tillaga: Þar hélt hann því fram að Guðlaugi geti ekki haldið áfram sem ráðherra tapi hann kosningunni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.