Manneskja í Texas - sitjandi standandi borgarstjóri - aukning í gosi

Orðlof

Kulna eða kólna

Talsverður merkingarmunur er á sögnunum kulna ‘dvína; deyja út’ og kólna ‘verða kaldari’ og þeim má ekki rugla saman. 

Það mun ekki vera í samræmi við málvenju að tala um að eldur eða glæður kólni og því er eftirfarandi dæmi óvenjulegt:

Bygging nýs álvers gæti haft mikil áhrif og blásið lífi í þær glæður sem nú virðast vera að kólna [þ.e. kulna] hratt í íslensku atvinnulífi.

Íslenskt mál – þættir Jóns G. Friðjónssonar.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Hrun í öllum tölum varðandi skráningu nýrra bíla.

Frétt á ruv.is. 

Athugasemd: Þeim fækkar sem kunna að búa til almennilegar fyrirsagnir. Tillagan er mun skárri en tilvitnunin.

Fréttin er uppfull af langlokum. Hún byrjar svona:

Samdráttur er í öllum tölum milli ára varðandi skráningu nýrra fólksbíla, bæði í marsmánuði og á fyrsta fjórðungi ársins.

Einhver hefði átt að hjálpa blaðamanninum og benda honum á styttri og einfaldari málsgrein:

Nýskráðir bílar á fyrsta fjórðungi ársins eru færri en í fyrra.

Í fréttinni stendur:

532 nýir fólksbílar voru skráðir …

Enginn byrjar málsgrein á tölustaf en blaðamaðurinn þekkir ekki regluna.

Fréttin er klúðursleg. Fréttamaðurinn hraunar tölum og súluritum yfir lesendur og heldur að hann standi sig bærilega.

Fréttastjórinn hefði átt að henda fréttinni aftur í manninn og segja honum að stytta hana um meira en helming - og vanda sig, gera hana skiljanlega. En svo virðist vera að engin stjórni vefsíðu Ríkisútvarpsins, enginn agi og engum er leiðbeint.

Allt bitnar á lesendum.

Tillaga: Nýskráðum bílum fækkar.

2.

Manneskja í Texas hefur greinst með sjaldgæft afbrigði fuglaflensu en smitið má að öllum líkindum rekja til mjólkurkúa.

Frétt á ruv.is. 

Athugasemd: Fréttin er stórskrýtin. Til að komast hjá því að nota karlkynsorðið ’maður’ er notað kvenkynsorðið ’manneskja’.

Á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 2.4.24 er sama frétt en orðuð á hefðbundinn hátt:

… að Texasbúi hefði greinst með fuglaflensu, H5N1, en maðurinn er sagður hafa smitast af mjólkurkúm. 

Blaðamaður Ríkisútvarpsins talar um „manneskju“ en hún heitir maður í Mogganum. „Manneskjan er í Texas,“ segir blaðamaður útvarpsins en í Mogganum er hún réttilega nefnd Texasbúi.

Orðalagið á vef Ríkisútvarpsins er afar tilgerðarlegt enda er þar gengið gegn öllum hefðum í íslensku máli. 

Mörgum þykir orðið ’manneskja’ ekki fallegt. Líklega veldur áhrif uppeldis því á árum áður var amast við orðinu í skólum, talið vera of dönskulegt. Nú hefur það náð mikilli útbreiðslu og á að koma í staðinn fyrir ’maður’ sem þykir of karllegt þó svo að líkur bendi til að konur séu menn rétt eins og karlar.

Breytingin hjá Ríkisútvarpinu var ekki gerð vegna þess að orðið ’maður’ gæti valdið misskilningi heldur er hún af allt öðrum toga. Afleiðingin hefur verið glundroði vegna þess að fæstir hafa getu og úthald til að afkynja orðalag svo vel sé. Takist það verður textinn einfaldlega illskiljanlegur og ljótur rétt eins og tilvitnunin ber með sér.

Tillaga: Maður í Texas hefur greinst með sjaldgæft afbrigði fuglaflensu en smitið má að öllum líkindum rekja til mjólkurkúa..

3.

Mansur Yavas, sitjandi borgarstjóri Ankara, fagnaði kosningasigri með stuðningsmönnum sínum á laugardagskvöld.“

Frétt á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 2.4.24. 

Athugasemd: Eitthvað er hér málum blandið. Með ofangreindum texta fylgir ljósmynd og er borgarstjórinn greinilega standandi.

Tillaga: Mansur Yavas, núverandi borgarstjóri Ankara, fagnaði …

4.

„… sem ekki hefði getað átt sér stað án söfn­un­ar­fés

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Hvað er söfnunarfés? mikilvægt er að blaðamaður kunni að beygja orð eins og fé. Annars gæti illa farið þegar hann þyrfti að ræða við „fésmálaráðherrann“ um „fésdrátt“ og „fésaustur“.

Um fjörtíu mínútum eftir að fréttin birtist var búið að breyta „söfnunarfés“ í söfnunarfjár. 

Tillaga: … sem ekki hefði getað átt sér stað án söfn­un­ar­fjár

5.

2024 er árið þar sem forsetakosningarnar eru spegilmyndin af hagkerfinu.

Aðsend grein á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu 5.4.24. 

Athugasemd: Jafnvel sjóaðir stjórnmálamenn þekkja ekki regluna: Aldrei byrja málsgrein á tölustöfum. 

Þeim virðist fara fjölgandi sem hamra á lyklaborð tölvunnar margvíslegan fróðleik en þekkja ekki þessa einföldu reglu.

Haft er eftir Markúsi Árelíusi Antóníusi Ágústus sem var rómverskur keisari frá árinu 161 til 180:

Álit 10.000 manna hefur ekkert að segja ef enginn þeirra þekkir til umræðuefnisins.

Umsjónarmanni þykir þetta einstaklega gáfulegt í nútímanum er allir hafa vit á öllu og sannleikur á samfélagsmiðlum breytist hraðar en óbreyttur alþýðumaður nær að skipt um skoðun. 

Tölustafur í upphafi málsgreinar er lýti á texta jafnvel þó allir hérlendir blaðamenn og skrifarar haldi öðru fram. Þar að auki er tilvitnunin óskiljanleg.

Tillaga: Engin tillaga.

6.

„Gæti orðið aukning í gosinu.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Tilvitnunin kallast ensk íslenska því hún gæti komið beint úr ensku:

Gæti orðið aukning í gosinu.

There could be an increase in the eruption

Einkenni á ensku eru nafnorðin ráðandi: 

aukning - increase 

Íslenskan byggir meir á sagnorðum:

Gosið gæti aukist.

Sögnin að auka merkir hér að stækka, eflast og svo framvegis.

Blaðamenn fara oft ógætilega, þýða beint úr ensku og afleiðingin er stórslys. Hér er heimskulegar þýðingar sem allir halda að séu gott og gilt íslenskt mál.

Sitting president - „sitjandi“ forseti. Betra: Núverandi forseti

Call for peace - „kalla eftir“ friði. Betra: Krefjast friðar

Hvers vegna er sagt að núverandi forseti sé „sitjandi“? Dugar ekki ’núverandi’ eða eru enska flóðgáttin svo þung að hefðbundið íslenskt orðalag víkur? Ábyrgð blaðamanna er mikil.

Tillaga: Gosið gæti aukist.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband