Sigruð hertól - skúrar á Suðvesturlandi - Ísrael neyddist tilviðbragða
14.5.2024 | 18:37
Orðlof
Skúrinn og skúrin
Fjölmörg orð í íslensku eru til í fleiri kynjum en einu, t.d. er skúr karlkyns (skúrinn, hann) í merkingunni kofi, skúrbygging en kvenkyns (skúrin, hún) í merkingunni regndemba.
Hér ræður merking kyni en í öðrum tilvikum skiptir hún ekki máli, t.d. segja sumir jógúrt-in (hún) en aðrir jógúrt-ið (það).
Málfarsbankinn, þættir Jóns Friðjónssonar.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
ákærð fyrir tilraun til manndráps gegn eldri syni sínum.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Enginn hefur enn verið manndrepinn eins og þarna segir beinlínis í fyrirsögn.
Í fréttinni segir:
Héraðssaksóknari gaf í gær út ákæru á hendur konu frá Írak fyrir manndráp og tilraun til manndráps.
Skárra væri að orða þetta á þessa leið:
Héraðssaksóknari ákærði í gær konu frá Írak fyrir morð og tilraun til manndráps.
Nokkur munur er á morði og manndrápi. Sjá nánar á Vísindavefnum.
Svo stendur í fréttinni:
og fyrir tilraun til manndráps gagnvart eldri syni sínum
Forsetningin gagnvart virðist oft vera furðulega notuð. Þarna er skárra að tala um tilraun til að drepa.
Núorðið er sagt að sendiráð Íslands séu gagnvart ýmsum ríkjum og alþjóðastofnunum. Hér áður fyrr var sagt að sendiráð væru hjá Dönum, Bretum og svo framvegis. Af því var nokkuð gagn.
Tillaga: ákærð fyrir tilraun til myrða eldri son sinn..
2.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók einstakling eftir að hann kastaði glerflösku í höfuð annars einstaklings.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Þetta er kjánalega skrifuð málsgrein. Öll fréttin er illa skrifuð, án nokkurs metnaðar, og hefði engu skipt þótt hún hefði aldrei birst.
Tillaga: Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók mann eftir að hann kastaði glerflösku í höfuð annars.
3.
Um er að ræða þá Rob Mcelhenney og Ryan Reynolds en þeir hafa báðir gert flotta hluti sem leikarar í Bandaríkjunum og eru heimsfrægir.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Fréttin er illa skrifuð eins og ofangreind málsgrein ber vitni um. Um er að ræða er ofnotað orðalag sem í raun og veru er óþarft. Því hefði mátt sleppa.
Hvað merkir hér að gera góða hluti? Engir hlutir voru gerðir en þeir kunna að hafa staðið sig vel sem leikarar.
Í fréttinni segir:
Wrexham lék í utandeildinni fyrir ekki svo löngu síðan og ætla Reynolds og McElhenney að fara alla leið með verkefnið og stefna hátt fyrir framtíðina.
Hvað merkir að fara alla leið með verkefnið? Ætla þeir að klára það, ljúka við það? Það væri frétt ef þeir gerðu það ekki.
Tillaga: Engin tillaga.
4.
Sigruð vestræn hertól sýnd í Moskvu.
Frétt á blaðsíðu 42 í Morgunblaðinu 2.5.24..
Athugasemd: Að sjálfsögðu er útilokað að sigra hertól. Enginn sigrar skotvopn, handsprengju, skriðdreka eða annað álíka. Tillagan er mun betri.
Tillaga: Hertekin vestræn hertól sýnd í Moskvu.
5.
Skúrar á Suðvesturlandi.
Veðurfréttir í sjónvarpi Ríkisútvarpsins.
Athugasemd: Vissulega er fjöldi skúra á landinu og eru þeir flestir notaðir sem geymslur. Sem sagt. Skúrinn er karlkynsorð rétt eins og bílskúr.
Rigning í skamman tíma er kölluð skúr og er kvenkynsorð. Enginn ætti að ruglast á skúrnum og skúrinni.
Veðurfræðingur í sjónvarpi virðist ekki hafa haldið við grunnþekkingu úr skóla. Hann segir til dæmis að skúrar séu á landinu en á við skúrir. Enginn leiðréttir hann, hvorki samstarfsmenn né aðrir.
Þetta er ekki svo ýkja bagalegt, enginn býst við því að bílskúrar falli af himnum ofan. En vitlaust er þetta rétt eins og að ruglast á örnefnum, til dæmis að fullyrða að keilulaga fjall á Reykjanesi heiti Esja.
Verst er þó að enginn virðist rétta veðurfræðinginum hjálparhönd. Enginn bregst við þegar hann talar um norðausturströndina og austurströndina. Engar hefð er fyrir því þessari orðnotkun enda fjölmargar strendur á Norðausturlandi og Austurlandi. Hins vegar er ein samfelld strönd á Suðurlandi og hún því er réttilega kölluð Suðurströndin.
Ísland ögrum skorið, orti Eggert Ólafsson. Hvað skyldi hann hafa átt við?
Tillaga: Skúrir á Suðvesturlandi.
6.
Á viðkvæmasta tíma í styrjöldunum í Úkraínu og eftir að Ísrael neyddist óvænt til viðbragða eftir
Forystugrein Morgunblaðsins 14.5.24.
Athugasemd: Svo bregðast krosstré Ensk-soðin íslenska er hér ráðandi.
Auðvitað brást ég við eftir að hafa lesið þetta.
Í sömu málsgrein er talað um styrkingu vopna. Hvað er átt við? Margir styrkja styrkja stigann áður en farið er upp á þak. Aðrir fá sér hjartastyrkjandi.
Varla á höfundurinn við að fjölga þurfi vopnum.
Betur fer á því að ritstjórinn skrifi forystugreinar Moggans en sendillinn, með fullri virðingu fyrir honum, fái að áfram með sendast.
Tillaga: Á viðkvæmasta tíma í styrjöldunum í Úkraínu og eftir að Ísrael neyddist óvænt til að bregðast við eftir
Athugasemdir
Orðið morð er ekki að finna í almennum hegningarlögum.
Aðeins manndráp.
Enda er merkingarmunur á vígi og morði, þó hvorttveggja sé manndráp.
Þórhallur Pálsson, 14.5.2024 kl. 21:06
Þetta er rétt hjá þér, Þórhallur. Takk fyrir leiðréttinguna.
Manndráp er stundum furðulega notað; „manndráp gegn manni“ í stað þess að segja; maður var drepin. L
íklega er manndráp í ákæru samkvæmt lögum en ekki dráp.
Sigurður Sigurðarson, 15.5.2024 kl. 10:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.