Liggjandi, sitjandi og standandi forsetar og standandi lófaklöpp
12.1.2025 | 14:25
Í þjóðsögum segir að kýr og önnur húsdýr tali mannamál á nýársnótt. Líklega er það orðum aukið en þó er margt skrýtið í kýrhausnum.
Um daginn sagði frá því í íslenskum fjölmiðlum að fyrrum forseti Bandaríkjanna hafi verið borinn til grafar. Sá hafði lifað lengi og ýmislegt reynt. Gera má ráð fyrir að hann hafi legið láréttur í kistu sinni. Enginn var svo ósæmilegur að kalla hann láréttan forseta.
Myndir voru birtar úr jarðarförinni og á þeim sást núverandi forseti sem í texta nefndur sitjandi forseti. Það virtist alveg rétt því hann sat á hörðum kirkjubekknum og virtist ekki kveinka sér. Svo stóð hann upp, líklega til að syngja sálm, og samt var hann sagður sitjandi forseti sem gengur eiginlega ekki upp.
Á myndum úr kirkjunni sáust margir fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna sitjandi. Enginn þeirra var nefndur sitjandi forseti en líklega má draga þá ályktun að þeir hafi verið ósitjandi forsetar þó sátu þeir allir þar til upp var staðið. Vera kann að þeir verði ósitjandi forsetar út lífið uns komið verði að þeirri stundu að þeir verði láréttur eða ligggjandi forseti eins og sá sem grafinn var. Varla er viðeigandi að tala um að sá ágæti laxmaður sem jarðaður var sé nú grafinn forseti, það minnir óþægilega á matargerð.
Svo gerist það að ég las frétt um fagnaðarlæti í þýskum stjórnmálaflokkum sem kusu sér kanslaraefni og var talað um standandi lófaklapp. Væntanlega er í því fólginn meiri fögnuður en með sitjandi lófaklappi. Svona til útskýringar skal þess getið að lófaklöpp standa hvorki né sitja heldur klappa þeir sem hendur hafa, standandi eða sitjandi.
Aldrei iðkaði ég standandi lófaklöpp er ég um árið studdist við hækjur, voru þó tilefni til. Kunningi minn hefur aldrei iðkað standandi lófaklöpp enda í hólastól. Við leyfum okkur að vera eins og forseti Bandaríkjanna, sitjandi. Þó þessi sitjandi forseti sé kominn nokkuð við aldur er hann enn uppistandandi forseti og það er ekkert grín. Hins vegar er aldrei tala um núverandi sitjandi forseta. Hvort tveggja er að það orðalag er ekki nógu enskt og íslenska orðið núverandi er komið á haugana.
Grínarar eru oft með uppistand og er þá átt við að þeir skemmti fólki með skopi sínu og skemmtilegheitum. Meðan þetta er yfirstandandi eiga áhorfendur það til að hlægja og margir ráða ekki við sig og iðka standandi lófaklöpp þegar vel tekst til annars sitjandi lófaklöpp. Vilji svo til að enginn hlægi eða standi upp til að berja saman höndum er grínfólkið líklega í standandi vandræðum. Þó hefur aldrei gerst að nokkur grínari sé í sitjandi vandræðum, jafnvel ekki ég með hækjuna forðum daga, er þó sagt í þröngum hópi að ég sé nokkuð hlægilegur.
Já, það er rétt að orðið núverandi er búið að tapa stöðu sinni í íslensku máli, gjörtapa. Íþróttablaðamenn eru meðal þeirra sem hafa hent orðinu á haugana. Þess í stað eru núverandi meistarar sagðir vera ríkjandi meistarar. Enn hafa þeir ekki verið kallaðir sitjandi meistarar. Sumum þykir það þakkarvert.
Nú er ég eiginlega orðinn uppiskroppa með gullkornin hjá íslenskum fjölmiðlungum. Næst ætla ég að spjalla aðeins um veðurfræðinga. Einn slíkur sagði í sjónvarpinu á dögunum að gefnar hafi verið út viðvaranir vegna vinds. Hann hefði allt eins geta gefið út viðvörun vegna andrúmslofts. Hvort tveggja er og verður ætíð á hreyfingu. Hitt gerist oft hér á landi að það hvessi sem veðurfræðingar kalla það í orðanauð sinni mikinn vind. Og eru þeir ekki með kýrhaus síðast er fréttist.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning