Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2024
Lengri lifun - flugvöllur sem þjónar - pínu óvanaleg staða
22.4.2024 | 17:06
Orðlof
Systkin
Orðið systkin skiptist þannig milli lína: systk-in.
Stafurinn -k- í þessu orði hefur sama uppruna og -g- í orðunum mæðg-ur, mæðg-in, feðg-ar, feðg-in.
Athuga að -kin(-) í systkin er ekki skylt orðinu kyn.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
120 MW af íslenskri raforku eru notuð í rafmyntargröft í gagnaverum, mesta magn á höfðatölu í veröldinni.
Aðsend grein á blaðsíðu 20 í Morgunblaðinu 19.4.24.
Athugasemd: Tveir gáfumenn rita lærða grein í Mogganum. Þeir byrja frásögn sína á tölustaf. Fyrir vikið nennir maður varla að lesa greinina og lætur nægja að kalla hana lærða en svo er ekki að öllu leyti.
Tillaga: Í rafmyndagröft eru notuð 120 MW af íslenskri raforku í gagnaverum, mesta magn á höfðatölu í veröldinni.
2.
Vonandi leiða rannsóknir ÍE til betri og lengri lifunar
Aðsend grein á blaðsíðu 17 í Morgunblaðinu 19.4.24.
Athugasemd: Nokkur munur er á lifun og lífi. Plata hljómsveitarinnar Trúbrots hét Lifun og kom út árið 1971.
Margir þekkja samsett orð eins og upplifun og innlifun sem eru auðskiljanleg. Sem dæmi var stórkostleg upplifun var að hlusta á Lifun í fyrsta sinn enda leika tónlistarmennirnir af mikilli innlifun.
Nú er orðið lifun frekar sjaldgæft en á við líf eða lífsreynslu.
Tillaga: Vonandi leiða rannsóknir ÍE til betri og lengra lífs .
3.
Upplýsingarnar sem maðurinn hugðist koma til Rússa varða Rzeszów-Jasionka flugvöllinn í suðausturhluta Póllands, nærri landamærunum að Úkraínu, sem þjónar sem miðpunktur flutninga hergagna og annarra aðfanga inn í Úkraínu.
Frétt á Vísir.
Athugasemd: Flugvöllur þjónar ekki. Svona kallast hrá þýðing úr ensku og er engum til álitsauka.
Á enska netmiðlinum Guardian stendur:
Rzeszów-Jasionka airport often serves international leaders travelling in and out of Ukraine.
Enska fréttin er öll mun betri og ítarlegri en frétt Vísis og þjónar blaðamaðurinn lesendum sínum vel.
Tillaga: nærri landamærunum að Úkraínu, sem er miðpunktur flutninga hergagna og annarra aðfanga inn í Úkraínu.
4.
842 manns hafa verið myrtir í Noregi frá árinu 2000.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Ekki er gott að blaðamaður skrifi svona og verra er að enginn leiðbeini honum.
Tillaga: Frá árinu 2000 hafa 842 menn verið myrtir í Noregi.
5.
Ég sé ekki hvernig Erik ten Hag verður áfram. Þetta er frammistaða eftir frammistöðu.
Frétt á Vísi.
Athugasemd: Skilur einhver þetta: frammistaða eftir frammistöðu. Nei, auðvitað ekki. Til að skilja það sem blaðamaðurinn skrifar í fljótfærni sinni þarf að leita annað. Á enska vefnum Metro segir um sama mál sem á við þjálfara fótboltaliðs í Englandi:
Its just poor performance after poor performance.
Frammistaða merkir hér hæfni, árangur, geta eða álíka. Enskan orðið performance getur merkt það sama.
Tillagan er góð enda ekki gerð tilraun til að þýða frá orði til orðs heldur hugsunina sem felst í orðunum.
Tillaga: Ég sé ekki hvernig Erik ten Hag [geti haldið] áfram. Aftur og aftur er frammistaðan slæm.
6.
Þetta er pínu óvanaleg staða
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Í athyglisverðu viðtali við jarðfræðing um eldgos norðan Grindavíkur vekur margt athygli. Fátt flækist fyrir lesandanum enda maðurinn vel að sér og segir skilmerkilega frá og blaðamaðurinn gerir vel.
Ekki er samt víst að allir skilji jarðfræðileg fagorð eins og pína og gott hefði verið að fá skýringu á því þar sem merkingin liggur ekki í augum uppi.
Tillaga: Engin tillaga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mikill vindur - maður gisti á spítala - Bergið Headspace
14.4.2024 | 15:31
Orðlof
Sófi, gáfa og húfa
Ýmis orð í íslensku eru langt að komin, þar á meðal orðið sófi. Það er reyndar fengið að láni úr dönsku en á samt uppruna sinn í arabísku.
Í fljótu bragði virðist þetta orð hafa lagað sig fullkomlega að íslensku en eitt lítið atriði kemur þó upp um erlendan uppruna þess.
Það er nefnilega alltaf borið fram með f-hljóði öfugt við önnur orð þar sem f stendur á milli sérhljóða því það er yfirleitt borið fram sem v, t.d. í gáfa og háfur, en það á líka til að hverfa eða því sem næst, t.d. í lófi og húfa.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Karlmaður var handtekinn í hverfi 108 í Reykjavík fyrir innbrot og þjófnað.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Löggan er svo ferlega illa að sér að hún heldur að póstnúmer séu heiti á hverfum.
Á Vísi stendur:
Af öðrum verkefnum lögreglunnar í Hafnarfirði má nefna tilkynningu um óvelkominn einstakling í hjólageymslu í hverfi 221, hund sem var tekinn af eiganda vegna hirðuleysis í miðbæ Hafnarfjarðar og þjófnað úr verslun í hverfi 221.
Blaðamaðurinn er fastur í nástöðu; tvisvar nefnir hann hverfi 221 í sömu málsgrein. Orðalagið kemur greinilega beint frá löggunni. Málsgreinin er illa samin og of löng. Löggan kann ekki að skrifa en blaðamaður ætti að gera skár en þetta.
Verstir eru blaðamenn sem birta það sem löggan matreiðir og gera ekki neina tilraun til að laga slæm skrif og staðreyndavillur.
Tillaga: Karlmaður var handtekinn í Reykjavík fyrir innbrot og þjófnað.
2.
Við hjá BL erum þakklát fyrir að hafa fengið að vera samferða ykkur í vinnuna, á ferðalögum, í bíltúrum og á stærstu stundum lífsins.
Auglýsing á blaðsíðu 15 í Morgunblaðinu 11.4.24.
Athugasemd: Þetta er heilsíðuauglýsing bifreiðaumboðs. Textinn er froða. Óskiljanlegt er að virðulegt fyrirtæki skuli láta svona bull fara frá sér.
Tillaga: Engin tillaga.
3.
29 voru drepnir í sprengjuárás á ísraelska sendiráðið í Buenos Aires árið 1992
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Blaðamaður Ríkisútvarpsins byrjar málsgrein á tölustöfum. Heimild hans er franska blaðið Le Monde. Í vefútgáfu þess á ensku stendur:
In 1992, a bomb attack on the Israeli embassy left 29 dead.
Þeim frönsku dettur ekki í hug að byrja málsgrein á tölustöfum.
Tillaga: Tuttugu og níu voru drepnir í sprengjuárás á ísraelska sendiráðið í Buenos Aires..
4.
Mikill vindur var þegar eldurinn kviknaði
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Skyldi hafa verið hvasst þegar húsið brann? Veðurfræðingar tönglast á því að vindur sé mikill eða lítill. Gömul og góð orð um vind eru við það að týnast.
Íslenskan er ríkt tungumál. Til eru á annað hundrað orð sem lýsa vindi:
- aftakaveður
- andblær
- andi
- andvari
- áhlaup
- bál
- bál
- bálviðri
- belgingur
- blástur
- blær
- blæs
- brimleysa
- derringur
- drif
- dúnalogn
- dús
- fellibylur
- fjúk
- fok
- foráttuveður
- galdraveður
- gambur
- garri
- gerringur
- gjóla
- gjóna
- gjóstur
- gol
- gola
- gráð
- gustur
- hrakviðri
- hregg
- hríð
- hroði
- hrök
- hundaveður
- hvassviðri
- hviða
- hvirfilbylur
- hægviðri
- illviðri
- kaldi
- kali
- kári
- kul
- kuldastormur
- kuldastrekkingur
- kylja
- kyrrviðri
- kæla
- lágdeyða
- ljón
- logn
- lægi
- manndrápsveður
- mannskaðaveður
- músarbylur
- nepja
- næðingur
- næpingur
- ofsarok
- ofsaveður
- ofsi
- ofviðri
- ókjör
- óveður
- remba
- rembingur
- rok
- rokstormur
- rumba
- runta
- ræna
- skakviðri
- slagveður
- snarvindur
- snerra
- snerta
- sperra
- sperringur
- stilla
- stormur
- stólparok
- stólpi
- stórastormur
- stórveður
- stórviðri
- strekkingur
- strengur
- streyta
- streytingur
- stroka
- strykur
- súgur
- svak
- svali
- svalur
- sveljandi
- svipur
- tíkargjóla
- túða
- veðrahamur
- veðurofsi
- vindblær
- vindkul
- vindsvali
- vindur
- vonskuveður
- ördeyða
- öskurok
Mikill vindur var Mikið óskaplega er flatt og ómerkilegt að taka svona til orða þegar hægt er að grípa til einhvers af ofangreindum 112 orðum.
Hefur lesandinn tekið eftir því að nær algjörlega er hætt að rigna á Íslandi? Það er líklega af hinu góða. Aftur á móti er úrkoma ekki minni en regnið var fyrir orðamótin (orðamót: glannalegt nýyrði, samanber áramót; eitt ár tekur við af öðru).
Ekki er lengur talað um hita dagsins heldur hitatölur, jafnvel rauðar og bláar hitatölur.
Svipað er með þá sem stjórna tungumálinu hjá Vegagerðinni. Aldrei er snjór á vegum en þegar það gerist heitir það snjóþekja (óþarft orð).
Tillaga: Hvasst var þegar eldurinn kviknaði .
5.
Viggó gisti þrjár nætur á spítala í síðustu viku er hann fékk lungnabólgu.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Líklega var ekki pláss fyrir hann í gistihúsi eða hóteli. Nei, maðurinn veiktist og þurfti þess vegna að vera í sjúkrahúsi í þrjá daga.
Aldrei nokkurn tímann hefur verið sagt að hjartveikur maður hafi gist í sjúkrahúsi jafnvel þó það sé staðreynd að hann hafi sofið þar. Maður er á sjúkrahúsi og í því felst að það hafi verið vegna veikinda eða slyss.
Svona er stundum skrifað út í bláinn.
Tillaga: Viggó var þrjár nætur á spítala í síðustu viku er hann fékk lungnabólgu.
6.
Bergið Headspace opnar á Akureyri.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Athyglisvert að ráðgjafarstöð fyrir börn og unglinga skuli bera enskt nafn. Geta menn ekki gert betur?
Tillaga: Engin tillaga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Manneskja í Texas - sitjandi standandi borgarstjóri - aukning í gosi
5.4.2024 | 17:34
Orðlof
Kulna eða kólna
Talsverður merkingarmunur er á sögnunum kulna dvína; deyja út og kólna verða kaldari og þeim má ekki rugla saman.
Það mun ekki vera í samræmi við málvenju að tala um að eldur eða glæður kólni og því er eftirfarandi dæmi óvenjulegt:
Bygging nýs álvers gæti haft mikil áhrif og blásið lífi í þær glæður sem nú virðast vera að kólna [þ.e. kulna] hratt í íslensku atvinnulífi.
Íslenskt mál þættir Jóns G. Friðjónssonar.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Hrun í öllum tölum varðandi skráningu nýrra bíla.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Þeim fækkar sem kunna að búa til almennilegar fyrirsagnir. Tillagan er mun skárri en tilvitnunin.
Fréttin er uppfull af langlokum. Hún byrjar svona:
Samdráttur er í öllum tölum milli ára varðandi skráningu nýrra fólksbíla, bæði í marsmánuði og á fyrsta fjórðungi ársins.
Einhver hefði átt að hjálpa blaðamanninum og benda honum á styttri og einfaldari málsgrein:
Nýskráðir bílar á fyrsta fjórðungi ársins eru færri en í fyrra.
Í fréttinni stendur:
532 nýir fólksbílar voru skráðir
Enginn byrjar málsgrein á tölustaf en blaðamaðurinn þekkir ekki regluna.
Fréttin er klúðursleg. Fréttamaðurinn hraunar tölum og súluritum yfir lesendur og heldur að hann standi sig bærilega.
Fréttastjórinn hefði átt að henda fréttinni aftur í manninn og segja honum að stytta hana um meira en helming - og vanda sig, gera hana skiljanlega. En svo virðist vera að engin stjórni vefsíðu Ríkisútvarpsins, enginn agi og engum er leiðbeint.
Allt bitnar á lesendum.
Tillaga: Nýskráðum bílum fækkar.
2.
Manneskja í Texas hefur greinst með sjaldgæft afbrigði fuglaflensu en smitið má að öllum líkindum rekja til mjólkurkúa.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Fréttin er stórskrýtin. Til að komast hjá því að nota karlkynsorðið maður er notað kvenkynsorðið manneskja.
Á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 2.4.24 er sama frétt en orðuð á hefðbundinn hátt:
að Texasbúi hefði greinst með fuglaflensu, H5N1, en maðurinn er sagður hafa smitast af mjólkurkúm.
Blaðamaður Ríkisútvarpsins talar um manneskju en hún heitir maður í Mogganum. Manneskjan er í Texas, segir blaðamaður útvarpsins en í Mogganum er hún réttilega nefnd Texasbúi.
Orðalagið á vef Ríkisútvarpsins er afar tilgerðarlegt enda er þar gengið gegn öllum hefðum í íslensku máli.
Mörgum þykir orðið manneskja ekki fallegt. Líklega veldur áhrif uppeldis því á árum áður var amast við orðinu í skólum, talið vera of dönskulegt. Nú hefur það náð mikilli útbreiðslu og á að koma í staðinn fyrir maður sem þykir of karllegt þó svo að líkur bendi til að konur séu menn rétt eins og karlar.
Breytingin hjá Ríkisútvarpinu var ekki gerð vegna þess að orðið maður gæti valdið misskilningi heldur er hún af allt öðrum toga. Afleiðingin hefur verið glundroði vegna þess að fæstir hafa getu og úthald til að afkynja orðalag svo vel sé. Takist það verður textinn einfaldlega illskiljanlegur og ljótur rétt eins og tilvitnunin ber með sér.
Tillaga: Maður í Texas hefur greinst með sjaldgæft afbrigði fuglaflensu en smitið má að öllum líkindum rekja til mjólkurkúa..
3.
Mansur Yavas, sitjandi borgarstjóri Ankara, fagnaði kosningasigri með stuðningsmönnum sínum á laugardagskvöld.
Frétt á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 2.4.24.
Athugasemd: Eitthvað er hér málum blandið. Með ofangreindum texta fylgir ljósmynd og er borgarstjórinn greinilega standandi.
Tillaga: Mansur Yavas, núverandi borgarstjóri Ankara, fagnaði
4.
sem ekki hefði getað átt sér stað án söfnunarfés
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hvað er söfnunarfés? mikilvægt er að blaðamaður kunni að beygja orð eins og fé. Annars gæti illa farið þegar hann þyrfti að ræða við fésmálaráðherrann um fésdrátt og fésaustur.
Um fjörtíu mínútum eftir að fréttin birtist var búið að breyta söfnunarfés í söfnunarfjár.
Tillaga: sem ekki hefði getað átt sér stað án söfnunarfjár
5.
2024 er árið þar sem forsetakosningarnar eru spegilmyndin af hagkerfinu.
Aðsend grein á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu 5.4.24.
Athugasemd: Jafnvel sjóaðir stjórnmálamenn þekkja ekki regluna: Aldrei byrja málsgrein á tölustöfum.
Þeim virðist fara fjölgandi sem hamra á lyklaborð tölvunnar margvíslegan fróðleik en þekkja ekki þessa einföldu reglu.
Haft er eftir Markúsi Árelíusi Antóníusi Ágústus sem var rómverskur keisari frá árinu 161 til 180:
Álit 10.000 manna hefur ekkert að segja ef enginn þeirra þekkir til umræðuefnisins.
Umsjónarmanni þykir þetta einstaklega gáfulegt í nútímanum er allir hafa vit á öllu og sannleikur á samfélagsmiðlum breytist hraðar en óbreyttur alþýðumaður nær að skipt um skoðun.
Tölustafur í upphafi málsgreinar er lýti á texta jafnvel þó allir hérlendir blaðamenn og skrifarar haldi öðru fram. Þar að auki er tilvitnunin óskiljanleg.
Tillaga: Engin tillaga.
6.
Gæti orðið aukning í gosinu.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Tilvitnunin kallast ensk íslenska því hún gæti komið beint úr ensku:
Gæti orðið aukning í gosinu.
There could be an increase in the eruption
Einkenni á ensku eru nafnorðin ráðandi:
aukning - increase
Íslenskan byggir meir á sagnorðum:
Gosið gæti aukist.
Sögnin að auka merkir hér að stækka, eflast og svo framvegis.
Blaðamenn fara oft ógætilega, þýða beint úr ensku og afleiðingin er stórslys. Hér er heimskulegar þýðingar sem allir halda að séu gott og gilt íslenskt mál.
Sitting president - sitjandi forseti. Betra: Núverandi forseti
Call for peace - kalla eftir friði. Betra: Krefjast friðar
Hvers vegna er sagt að núverandi forseti sé sitjandi? Dugar ekki núverandi eða eru enska flóðgáttin svo þung að hefðbundið íslenskt orðalag víkur? Ábyrgð blaðamanna er mikil.
Tillaga: Gosið gæti aukist.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)