Bloggfærslur mánaðarins, maí 2024

Léttkleifur hóll - ávarpa vandamál - hraun búið að renna 1,5 km

Orðlof

Slettur

En eigi íslensk máltilfinning að haldast óspillt, verðum við að berjast af alefli gegn erlendum, hingað til mest dönskum, orðum og talsháttum sem ekkert erindi eiga, ekkert skarð fylla, heldur aðeins þvælast fyrir og byggja út jafngóðum eða betri orðatiltækjum af innlendri rót sem við áttum fyrir.

Úr Íslensku máli, þáttum Jóns G. Friðjónssonar, vitnað í Jón Helgason prófessor. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

45 þeirra voru dæmdir til dauða, 30 Norðmenn og 15 þýskir stríðsglæpamenn. 25 af þeim 30 Norðmönnum sem voru dæmdir til dauða voru síðan teknir af lífi, og 12 af Þjóðverjunum 15.

Frétt á blaðsíðu í Morgunblaðinu 23.5.24. 

Athugasemd: Mjög erfitt er að lesa þetta og skilja. Blaðamaðurinn er enginn nýgræðingur en byrjar tvisvar í röð málsgreinar sínar á tölustöfum. Hann á að vita að það truflar lesandann og því aldrei gert. 

Tillagan er einfaldari og skilst betur. 

Engu að síður er fréttin nokkuð vel skrifuð og áhugaverð

Tillaga: Fjörtíu og fimm þeirra voru dæmdir til dauða; 30 Norðmenn og 15 þýskir stríðsglæpamenn. Dómum var fullnægt yfir 25 Norðmönnum og 12 Þjóðverjum.

2.

„… á Wessman one-bikarnum sem fór fram á Cernin Vínbar í fyrradag. Stjórnendur hlaðvarpsins Chess After Dark skipulögðu mótið og nutu þar stuðnings Mason Wessman og Cernin Vínbars.

Frétt á blaðsíðu 11 í Morgunblaðinu 28.5.24.

Athugasemd: Hefði ekki verið einfaldara að birta fréttina á ensku?

Tillaga: … at the Wessman one-cup that took place at Cernin Vínbar yesterday. The hosts of the Chess After Dark podcast organized the tournament and were supported by Mason Wessman and Cernin Vínbars.

3.

„Samkvæmt vísindalegri talningu eru Vatnsdalshólar alls 1.836 stykki. Flestir hólarnir eru lágir og léttkleifir, en stigi sakar þó ekki eins á þessum sem stendur á bökkum Flóðsins.

Myndatexti á blaðsíðu 15 í Morgunblaðinu 28.8.24.

Athugasemd: Svona teljast kæruleysisleg skrif. Gengið er upp á hól. Orðalagið að „klífa“ hól þekkist ekki og er frekar kjánalegt.

Allir vita að nokkur munur er á stiga og tröppum. Myndin sýnir tröppur upp á hól.

Hólarnir í Vatnsdal eru ekki „stykki“ frekar en eyjarnar á Breiðafirði eða vötnin á Arnarvatnsheiði. 

Stykki er almennt talið vera eining, hlutur eða partur af hlut eins og segir á málið.is. Grjót getur brotnað í mörg stykki, súkkulaði líka og í verslunum er hægt að kaupa ýmislegt í stykkjatali.

Engin hefð er fyrir því að nota orðið ’stykki’ yfir það sem til er í náttúrunni, að minnsta kosti ekki á sama hátt og yfir lausa hluti. Fáránlegt væri að segja „ eitt stykki fjall“.

Til er hólmi sem nefnist Stykki og við hann er fallegt sveitarfélag kennt.

Úr hömrum Þverfellshorns í Esju hafa tíðum losnað klettar og grjót og fallið niður hlíðina og brotna stundum í mörg stykki.

Við lauslega athugun á Örnefnavef Landmælinga eru nærri þrjátíu örnefni sem bera heitið Stykki, Stykkið eða Stykkin. Algengust eru hólmar, tún, graslendi eða engi. 

Ótalin eru svo samsett örnefni sem hafa Stykki sem fremsta lið. Nefna má Stykkisborg, Stykkiseyjar, Stykkiskelda, Stykkismúli og Stykkisvelli.

Hins vegar skiptir mestu máli að blaðamaður standi sig í stykkinu og skrifi af þekkingu.

Tillaga: Samkvæmt vísindalegri talningu eru Vatnsdalshólar alls 1.836. Flestir hólarnir eru lágir og auðvelt að ganga á þá, en tröppur eru oft þarflegar eins á þessum sem er á bökkum Flóðsins.

4.

„Laxeldisfyrirtækið Ice Fish Farm hefur tekið upp nafnið Kaldvík.

Frétt á blaðsíðu 2 í Viðskipta-Mogganum. 

Athugasemd: Þetta er stórkostleg frétt. Fyrirtæki fær íslenskt heiti í staðinn fyrir enskt. 

Því ber að fagna að fyrirtækjaeigendur skammist sín ekki fyrir móðurmálið. Ofgnótt er af enskum fyrirtækjanöfnum hér á landi.

Tillaga: Engin tillaga.

5.

„Þögli herinn bíður bara átekta, forðast að ávarpa vandamál

Frétt á vísi.is. 

Athugasemd: Hvernig er vandamál „ávarpað“? Auðvitað er þetta tóm vitleysa enda bein þýðing úr ensku; „adress the problem“. Þetta er svo bjánalegt orðalag að engu tali tekur.

Jón G. Friðjónsson, prófessor emerítus við Háskóla Íslands, hefur í áratugi rannsakað og skrifað um íslenska tungu, segir í pistli í Málfarsbankanum:

Um nýmælið ávarpa vandamál er ég orðlaus.

Fólk sem ekki hefur alist upp við almennan lestur bóka á oft í stökustu erfiðleikum við að tjá sig. Heldur að beinar þýðingar úr til dæmis ensku séu í lagi en enginn leiðbeinir þessu fólki.

Fréttin er ruglingslega skrifuð og alltof löng.

Tillaga: Þögli herinn bíður bara átekta, forðast að taka á vandamálum

6.

„Sprungan orðin 2,5 km að lengd og hraun búið að renna 1,5 km til vesturs milli Stóra Skógfells og Hagafells.

Frétt á Facebook, Jarðvísindastofnun Háskólans. 

Athugasemd: Þessi talsmáti er nú ríkjandi í tali yngra fólks.

Sumir segja; hraunið er búið að renna.
Aðrir segja: hraunið hefur runnið.

Jón G. Friðjónsson, prófessor emerítus við Háskóla Íslands segir um „búið-að“ í pistli í Málfarsbankanum:

Hér er ekki svigrúm til að fjalla nánar um þetta en lesendum til athugunar skal teflt fram nokkrum dæmum sem ekki samræmast málkennd þess sem þetta ritar

Hann nefnir nokkur dæmi sem óþarfi er að telja hér upp. Lesandinn getur hins vegar gúgglað „búið að“ og sést þá hversu algengt orðalagið er.

Þó verður að geta þess að það er ekki alltaf rangt. Ég er til dæmis búinn að skrifa afmæliskveðju. 

Tillaga: Sprungan orðin 2,5 km að lengd og hraun runnið 1,5 km til vesturs milli Stóra Skógfells og Hagafells.


Sigruð hertól - skúrar á Suðvesturlandi - Ísrael neyddist tilviðbragða

Orðlof

Skúrinn og skúrin

Fjölmörg orð í íslensku eru til í fleiri kynjum en einu, t.d. er skúr karlkyns (skúrinn, hann) í merkingunni ‘kofi, skúrbygging’ en kvenkyns (skúrin, hún) í merkingunni ‘regndemba’. 

Hér ræður merking kyni en í öðrum tilvikum skiptir hún ekki máli, t.d. segja sumir jógúrt-in (hún) en aðrir jógúrt-ið (það).

Málfarsbankinn, þættir Jóns Friðjónssonar. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„… ákærð fyrir tilraun til manndráps gegn eldri syni sínum.

Frétt á ruv.is. 

Athugasemd: Enginn hefur enn verið „manndrepinn“ eins og þarna segir beinlínis í fyrirsögn. 

Í fréttinni segir:

Héraðssaksóknari gaf í gær út ákæru á hendur konu frá Írak fyrir manndráp og tilraun til manndráps.

Skárra væri að orða þetta á þessa leið:

Héraðssaksóknari ákærði í gær konu frá Írak fyrir morð og tilraun til manndráps.

Nokkur munur er á morði og manndrápi. Sjá nánar á Vísindavefnum.

Svo stendur í fréttinni:

… og fyrir tilraun til manndráps gagnvart eldri syni sínum …

Forsetningin gagnvart virðist oft vera furðulega notuð. Þarna er skárra að tala um tilraun til að drepa.

Núorðið er sagt að sendiráð Íslands séu gagnvart ýmsum ríkjum og alþjóðastofnunum. Hér áður fyrr var sagt að sendiráð væru hjá Dönum, Bretum og svo framvegis. Af því var nokkuð gagn.

Tillaga: … ákærð fyrir tilraun til myrða eldri son sinn..

2.

„Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu hand­tók ein­stak­ling eft­ir að hann kastaði gler­flösku í höfuð ann­ars ein­stak­lings.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Þetta er kjánalega skrifuð málsgrein. Öll „fréttin“ er illa skrifuð, án nokkurs metnaðar, og hefði engu skipt þótt hún hefði aldrei birst.

Tillaga: Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu hand­tók mann eft­ir að hann kastaði gler­flösku í höfuð ann­ars.

3.

Um er að ræða þá Rob Mcelhenney og Ryan Reynolds en þeir hafa báðir gert flotta hluti sem leikarar í Bandaríkjunum og eru heimsfrægir.

Frétt á dv.is. 

Athugasemd: Fréttin er illa skrifuð eins og ofangreind málsgrein ber vitni um. „Um er að ræða“ er ofnotað orðalag sem í raun og veru er óþarft. Því hefði mátt sleppa.

Hvað merkir hér að „gera góða hluti“? Engir hlutir voru gerðir en þeir kunna að hafa staðið sig vel sem leikarar.

Í fréttinni segir:

Wrexham lék í utandeildinni fyrir ekki svo löngu síðan og ætla Reynolds og McElhenney að fara alla leið með verkefnið og stefna hátt fyrir framtíðina.

Hvað merkir „að fara alla leið með verkefnið“? Ætla þeir að klára það, ljúka við það? Það væri frétt ef þeir gerðu það ekki.

Tillaga: Engin tillaga.

4.

Sigruð vestræn hertól sýnd í Moskvu.

Frétt á blaðsíðu 42 í Morgunblaðinu 2.5.24.. 

Athugasemd: Að sjálfsögðu er útilokað að „sigra hertól“. Enginn „sigrar“ skotvopn, handsprengju, skriðdreka eða annað álíka. Tillagan er mun betri.

Tillaga: Hertekin vestræn hertól sýnd í Moskvu.

5.

Skúrar á Suðvesturlandi.

Veðurfréttir í sjónvarpi Ríkisútvarpsins. 

Athugasemd: Vissulega er fjöldi skúra á landinu og eru þeir flestir notaðir sem geymslur. Sem sagt. Skúrinn er karlkynsorð rétt eins og bílskúr.

Rigning í skamman tíma er kölluð skúr og er kvenkynsorð. Enginn ætti að ruglast á skúrnum og skúrinni.

Veðurfræðingur í sjónvarpi virðist ekki hafa haldið við grunnþekkingu úr skóla. Hann segir til dæmis að skúrar séu á landinu en á við skúrir. Enginn leiðréttir hann, hvorki samstarfsmenn né aðrir.

Þetta er ekki svo ýkja bagalegt, enginn býst við því að bílskúrar falli af himnum ofan. En vitlaust er þetta rétt eins og að ruglast á örnefnum, til dæmis að fullyrða að keilulaga fjall á Reykjanesi heiti Esja.

Verst er þó að enginn virðist rétta veðurfræðinginum hjálparhönd. Enginn bregst við þegar hann talar um „norðausturströndina“ og „austurströndina“. Engar hefð er fyrir því þessari orðnotkun enda fjölmargar strendur á Norðausturlandi og Austurlandi. Hins vegar er ein samfelld strönd á Suðurlandi og hún því er réttilega kölluð Suðurströndin. 

Ísland ögrum skorið, orti Eggert Ólafsson. Hvað skyldi hann hafa átt við?

Tillaga: Skúrir á Suðvesturlandi.

6.

„Á viðkvæmasta tíma í styrjöldunum í Úkraínu og eftir að Ísrael neyddist óvænt til viðbragða eftir …

Forystugrein Morgunblaðsins 14.5.24. 

Athugasemd: Svo bregðast krosstré … Ensk-soðin íslenska er hér ráðandi. 

Auðvitað brást ég við eftir að hafa lesið þetta.

Í sömu málsgrein er talað um „styrkingu vopna“. Hvað er átt við?  Margir styrkja styrkja stigann áður en farið er upp á þak. Aðrir fá sér hjartastyrkjandi.

Varla á höfundurinn við að fjölga þurfi vopnum.

Betur fer á því að ritstjórinn skrifi forystugreinar Moggans en sendillinn, með fullri virðingu fyrir honum, fái að áfram með sendast. 

Tillaga: Á viðkvæmasta tíma í styrjöldunum í Úkraínu og eftir að Ísrael neyddist óvænt til að bregðast við eftir …

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband