Hún varð hvelft við og gefa sig fram til lögreglu
14.1.2021 | 13:00
Orðlof
Kredda
Kreddufesta þykir ekki skemmtilegur eiginleiki hjá fólki þó að uppruni orðsins kredda sé ekki endilega neikvæður.
Credo á latínu merkir ég trúi og trúarjátning kristinna manna kallast credo enda hefst hún á orðunum Credo in unum deum ... á latínu. Kredda merkir því upphaflega trúarjátning, trúarsetning eða eitthvað í þá veruna en hefur síðar fengið neikvæða aukamerkingu.
Nú er orðið haft um skoðun sem einhver hefur bitið í sig og trúir í blindni og þeir sem eru kreddufastir halda því fastar í skoðanir sínar en ef til vill væri rétt.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
að fólkið hefði dottið nálægt toppnum Svínafellsmegin.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Tveir menn duttu í hlíðum Móskarðshnúka, líklega austasta tindinum sem nefnist Móskarðshnúkur. Hvergi er í nánd fjall sem ber nafnið Svínafell. Aftur á móti er Svínaskarðið á milli Móskarðshnúks og Skálfells.
Blaðamaðurinn kann að hafa tekið rangt eftir. Alltaf er best að skoða landakort áður en álíka fréttir eru birtar. Fjöldi örnefna er á korti Landmælinga og sáraeinfalt að kalla það fram á tölvuskjá. Loftmyndir bjóða upp á afskaplega vandaðar loftmyndir, svo skýrar og nálægt jörðu að undrum sætir. Þessi kort eru öllum handhæg sem nenna að nota tölvu sína í heimildavinnu.
Svo er það hitt að afar ótrúlegt er að fólk hafi verið á ferð Svínaskarðsmegin. Þar er ekki gönguleið, afar bratt og stórhættulegt að vera í ís og skara.
Grundvallarartriði í fjallaferðum að vetrarlagi er að vera með ísöxi og jöklabrodda og kunna að nota græurnar. Svokallaðir mannbroddar eru stórhættulegir í fjallaferðum, nokkuð auðvelt að komast upp á þeim en erfitt að beita þeim á niðurleið.
Tillaga: Engin tillaga.
2.
Hálfs metra snjókoma í Madrid.
Fyirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Er þetta ekki vitlaust í Mogganum? var ég spurður. Það held ég ekki, hrökk upp úr mér. En ég var ekki vissari en svo að ég þurfti að fletta orðinu metri upp. Þá fékk ég fullvissu mína og orðið er hárrétt skrifað í fyrirsögninni. Það beygist svona:
Metri, um metra frá metra til metra.
Eins í öllum föllum nema nefnifalli. Aftur á móti þekkist orðið meter sem er mörgum tamt að nota. Flestir gáfumenn mælast til þess að nota frekar metra og hef ég reynt að hlýða því.
Tillaga: Engin tillaga.
3.
Óhætt er að segja að borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, Sabine Leskopf, hafi orðið hvelft við
Fyirsögn á hringbraut/frettabladid.is.
Athugasemd: Sögnin að hvelfa merkir að setja á hvolf. Hvelfdur er lýsingarorð og merkir kúptur.
Líklega hefur blaðamaðurinn ætlað að nota orðið atviksorðið hverft sem merkir að bregða. Nafnorðið borgarfulltrúi ætti þarna að vera þarna í þágufalli; borgarfulltrúanum hafi orðið
Tillaga: Óhætt er að segja að borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Sabine Leskopf, hafi orðið hverft við
4.
Gaf sig fram til lögreglu eftir árásina í Borgarholtsskóla.
Fyirsögn á visir.is.
Athugasemd: Fyrirsögnin vekur undrun. Frekar er þetta órökrétt að gefa sig fram til lögreglu. Í fréttinni segir:
Eins þeirra var leitað í allan gærdag en hann gaf sig sjálfur fram við lögreglu seint í gærkvöld
Hér er orðalagið með hefðbundnum hætti, maðurinn gaf sig fram við lögreglu. Þetta getur bent til að blaðamaðurinn hafi ekki skrifað fyrirsögnina. Þess ber að geta að síðar var fyrirsögninni breytt og og er hún núna eins og segir í tillögunni hér fyrir neðan.
Í fréttinni er sagt að ungmennin hafi verið vistuð í fangaklefa eða á viðeigandi stofnun. Orðalagið er örugglega komið frá löggunni. Enginn tala svona. Alþýða manna segir að fólk sé sett í fangelsi eða komið fyrir á viðeigandi stofnun. Líklega er það ekki nógu fínt mál.
Í Málfarsbankanum segir: Bæði er hægt að segja í gærkvöld og í gærkvöldi. Fyrrnefnda orðmyndin er nær eingöngu notuð af fréttamönnum Ríkisútvarpsins og hefur smitast til annarra fjölmiðlamanna. Alþýða manna nota hina.
Tillaga: Gaf sig fram við lögreglu eftir árásina í Borgarholtsskóla.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)