Fjall sem er staðsett - vistaðir fyrir rannsókn máls - gengið í gegnum hurð
20.10.2021 | 21:10
Orðlof
Grafinn hnífur
Magnús Halldórsson skrifar: Í fréttaskýringarþætti sem kallaður er hádegið, þ.e. ef ég man rétt, kom í viðtal kona. Sú mun vera sérfræðingur í japönskum keisarafjölskylduvandamálum. Þessi ágæta og greinargóða kona sagði til skýringar á vanda:
Þarna sem sagt liggur hnífurinn grafinn.
Nú, auðvitað hef ég heyrt um grafinn hund og hníf sem stendur í kú. Ekki man ég eftir þessu ágæta orðatiltæki, er nokkuð víðlesinn þó:
Um örlög verður enginn krafinn,
eitthvað hefur þarna skeð.
Eftir stendur aðeins vafinn,
er þá beljan hundinn með.
Vísnahornið. Halldór Blöndal. Morgunblaðið 19.10.21, blaðsíðu 25.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Engar fregnir hafa borist af meiðslum fólks en fjallið er staðsett í suðvesturhluta Japans.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Fréttin er aðeins níu línur en illa skrifuð. Í stað þess að nota sögnina að vera segir blaðamaðurinn að fjallið sé staðsett í suðvesturhluta Japans. Hvernig dettur fullorðnu fólki í hug að segja svona?
Verst er hversu fréttin er ruglingslega skrifuð. Ofangreind málsgrein er annars vegar um fólk og hins vegar um fjallið. Þetta tvennt á ekki að vera þarna í einni málsgrein. Tvær eru betri, nota punkt eins og gert er í tillögunni hér fyrir neðan.
Í fréttinni segir:
Eldgos er hafið í japanska eldfjallinu Aso með tilheyrandi öskuskýi sem nær þúsundir metra upp í loftið.
Mikill munur er á öskumekki og öskuskýi. Líklega er átt við hið fyrrnefnda. Samkvæmt frétt Reuters steig gosmökkurinn upp í 3,5 km hæð. Afar barnalegt er að segja gosmökkurinn hafi náð þúsundir metra upp í loftið.
Of mikið er að segja tilheyrandi öskuskýi vegna þess að misjafnt er hversu mikil aska kemur frá eldgosi. Askan úr gígnum í Geldingadal var frekar lítil, svo dæmi sé tekið.
Tillaga: Engar fregnir hafa borist af meiðslum fólks. Fjallið er í suðvesturhluta Japans.
2.
og vistaðir fyrir rannsókn málsins í fangageymslu lögreglu
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Löggufréttir fjölmiðla byggjast á svokallaðri dagbók lögreglu. Hún er oftast illa skrifuð. Þar að auki er oft er þar sagt frá málum sem ekki geta kallast fréttir. Blaðamenn slökkva hins vegar bæði á dómgreind sinni og skynsemi og halda að allt sé frétt sem kemur frá löggunni.
Hvað merkir tilvitnunin hér fyrir ofan? Orðalagið að vista fyrir rannsókn máls er merkingarleysa. Menn eru settir í fangelsi meðan verið er að rannsaka meint lögbrot þeirra. Slíkt dvöl er ekki vistun, þeir eru í fangelsi.
Réttara væri að segja þarna:
og settir í fangelsi vegna rannsóknar málsins
Betra er þó:
og settir í fangelsi meðan verið er að rannsaka málið
Þar sem orðalagið er orðið ansi staðlað og að baki óljós hugsun er eiginlega skást að orða þetta svona:
og settir í fangelsi
Varla er neinn settur í fangelsi löggunni eða meintum lögbrjóti til skemmtunar. Nei, það er alltaf verið að rannsaka mál þess sem inn er settur. Algjör óþarfi er að tilgreina það sérstaklega að verið sé að rannsaka málið.
Svo má spyrja hvort fangageymslur séu víðar en hjá löggunni. Eða hvers vegna þarf er sagt fangageymslu lögreglu í ofangreindri tilvitnun? Auðvitað eru þetta bara pennaglöp hjá löggunni sem skrifar enda hugsar hún ekki og enginn les yfir.
Hvers vegna er fangelsi núorðið kallað fangageymsla? Síðarnefnda orðið er tómt bull enda hvorki tilhlýðilegt að geyma fólk né vista í örskamman tíma.
Í fréttinni segir:
Afskipti voru höfð af ungum ökumanni bifreiðar í hverfi 105
Hvað er átt við með afskipti? Svona yfirlýsingar frá löggunni eru staðlaðar og ætlast til að allir vita hvað við er átt. Hló löggan að ökumanninum, skensaði hann, skammaði eða hótaði honum? Allt telst þetta afskipti.
Seint ætlar löggunni að lærast sú einfalda staðreynd að póstnúmer eru ekki nöfn á hverfum. Fari löggan svona rangt með einfaldar staðreyndir hversu treystandi er henni fyrir mikilvægari málum? Og blaðamenn éta þetta hugsunarlaust upp.
Tillaga: og settir í fangelsi vegna fyrir rannsókn málsins í fangageymslu lögreglu
3.
Þannig vilja heimildamenn mbl.is meina að hver sem er hafi getað gengið inn og út um eina hurð á salnum.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Álíka sárt kann að vera að ganga á hurð og á vegg. Hvorugt lætur undan. Hurðir eru gagnslausar nema í dyrum. Svo má hér upplýsa að nokkur munur er á dyrum og hurð.
Atviksorðið þannig er gott og gilt. Ekki fer þó alltaf vel á því að nota það upphafi setningar. Sé því sleppt í ofangreindri tilvitnun breytist ekkert, en setningin skánar mikið.
Dálítið dönskuskotið er að segja að menn meini eitthvað. Í tilvitnuninni virðast heimildarmennirnir fullyrða það sem þarna kemur fram. Ef svo er ekki er útilokað að skilja málsgreinina og er það mein.
Tillaga: Heimildarmenn mbl.is fullyrða að hver sem er hafi getað gengið inn og út um einar dyr á salnum.
4.
49 óbirt ljóðahandrit voru send inn undir dulnefni en
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Grundvallareglan er sú að byrja aldrei málsgrein á tölustöfum. Sá sem spyr hvers vegna hefur ekki tekið vel eftir í skóla. Eða þá að samstarfsmenn hans á fjölmiðlinum halda þessu leyndu til að gera lítið úr honum.
Tillaga: Handrit með 49 óbirtum ljóðum voru send inn undir dulnefni en
5.
Óhreinsað sorp rennur út í Faxaflóa næstu vikurnar.
Fyrirsögn á fréttablaðinu.is.
Athugasemd: Auðvitað er þessi fyrirsögn röng en einhver ber ábyrgðina á henni, blaðamaðurinn eða annar starfsmaður. Þarna á að standa skólp. Skyldi þetta verða leiðrétt?
Já, innan sólarhrings var búið að leiðrétta fyrirsögnina. Það er nú gott. Á mbl.is fá vitleysur að standa svo lengi sem jörðin snýst. Hvað síðar gerist veit ég ekki alveg.
Tillaga: Óhreinsað skolp rennur út í Faxaflóa næstu vikurnar.
Bloggar | Breytt 21.10.2021 kl. 20:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)