Spúa gasi og deyja friðsamlega ...
18.4.2021 | 22:24
Orðlof
Nú til dags
Orðasambandið nú til dags er fengið að láni úr dönsku nu til dags og er ekki alveg nýtt af nálinni. Dags í dönsku er gamalt eignarfall sem stýrðist af forsetningunni til.
Í íslensku þykir vandaðra mál að segja til dæmis nú á dögum.
Vísindavefurinn. Guðrún Kvaran, prófessor.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Spúa gasi yfir borgina.
Fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins 14.4.21.
Athugasemd: Samkvæmt orðabókinni minni merkir sögnin spúa að spýta út úr sér með krafti. Nokkrum sinnum hef ég komið að gosstöðvunum austan við Fagradalsfjall. Ofmælt er að segja að þar spýtist gasið upp með krafti. Frekar liðast það upp og feykist með vindi, stundum er hvasst á þessum slóðum.
Gasið berst ekki aðeins yfir Reykjavík, fer varla eftir mörkum sveitarfélaga.
Vera má að önnur orð eigi betur við í þessu tilfelli en að spúa. Eimyrja eða eimur er varla við hæfi en orðið getur meðal annars merkt óþefur sem berst frá eldgosi.
Árin frá 1783 til 1785 eru nefnd móðuharðindin. Þá ollu Skaftáreldar, gosið úr Lakagígum, miklum raunum um allt land. Á vef Wikipedia segir:
Móða eða eiturgufa lagðist á jörðina, gras sviðnaði og búfénaður féll.
Samskonar móða berst stundum til norðausturs frá gosstöðvunum í Geldingadal og yfir höfuðborgarsvæðið, jafnvel Akranes og Borgarnes.
Ekki myndu allir skilja ef fyrirsögnin á Mogganum væri eins og tillagan fyrir neðan segir. Margt fólk veit ekkert hvað móða er nema sem raki innan á bílgluggum eða á spegli í baðherbergi. Þannig hrakar þekkingu á íslensku máli.
Prófið að spyrja stálpuð börn eða barnabörn hvað móða merkir. Viti þau það ekki er kominn tími til að þau lesi Jón Trausta (1873-1918); Sögur frá Skaftáreldi. Eða Eldrit Jóns Steingrímssonar (1728-1791) eldklerks.
Svo er það hitt að móða getur merkt fljót. Um síðir förum við yfir móðuna miklu, deyjum.
Og nú kemur upp í hugann ljóð Sadovnikovs um Stenka Rasin foringja kósakka í Rússlandi á sautjándu öld. Í því segir segir í þýðingu Jóns Pálssonar, sjá allt ljóði hér:
Volga, Volga, mikla móða,
móðir Rússlands ertu trú.
Aldrei djarfir Don-Kósakkar
dýrri gjöf þér færðu en nú.
Ivan Rebroff söng oft Stenka Rasin og hér er linkur á söng hans.
Tillaga: Móða frá eldstöðvunum berst til höfuðborgarsvæðisins.
2.
Kappinn, klæddur rykfrakka og hatti að hætti rökkurhetja fimmta áratugarins
Kvikmyndagagnrýni á blaðsíðu 63 í Morgunblaðinu 15.4.21.
Rökkurhetja er aldeilis skemmtilegt orð. Vísar hugsanlega til leynilögreglumynda sem á tímabili gerðust svo margar eftir sólarlag, dimmar og drungalegar myndir.
Hetjan valsar um eftir ljósaskiptin, og í næturhúminu hittir hún fagrar konur, drekkur óblandað, reykir, á í persónulegum vandræðum en af mikill list kemur hann upp um morðingja og annað vont fólk.
Minnir á rökkursögur. Margt gerist í húminu. Sumir eru rökkurhljóðir, stundum heyrist rökkursöngur og svo framvegis. Mörg orð byrja á rökkur, sjá hér á orðaneti Árnastofnunar. Heillandi upptalning.
Tillaga: Engin tillaga.
3.
Ráðherrar mætast fyrst í Reykjavík.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Nokkur munur er á sögnunum að mætast og hittast. Sú fyrrnefnda er notuð þegar fólk hittist á förnum vegi. Vissulega getur sögnin að mætast merkt að koma til móts við, jafnvel funda. Þó er oftast sagt að menn hittist til að eiga fund.
Í fréttinni segir:
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, mun ferðast til Íslands í næsta mánuði.
Ekki er þetta rangt en betur fer á því að segja að hann fari til Íslands eða komi hingað. Á ensku hefði verið sagt: He will travel to Iceland next month.
Í fréttinni segir:
Norðurskautsráðið er skipað af Bandaríkjunum, Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Kanada, Noregi, Rússlandi og Svíþjóð.
Forsetningunni af er eiginlega ofaukið. Nærtækara hefði verið að segja:
Í Norðurskautsráðinu sitja Bandaríkjamenn, Danir, Finnar, Íslendinga, Kanadamenn, Norðmenn, Rússar og Svíar.
Og enn segir í fréttinni:
Samband ríkjanna tveggja hefur beðið verulega hnekki á undanförnum árum og eiga þau í deilum um fjölmörg málefni.
Betra hefði verið að segja að samband ríkjanna hafi verið brösugt, erfitt, gengið illa.
Tillaga: Ráðherrar hittast í fyrsta sinn í Reykjavík.
4.
Hún lést friðsamlega á heimili sínu.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Hollywood leikkona deyr og er syrgð. Blaðamaður DV segir ekki einu sinni í fréttinni heldur tvisvar að hún hafi látist friðsamlega. Fyrra skiptið er eins og segir hér að ofan en svo skrifar blaðamaðurinn:
Hún lést friðsamlega á heimili sínu, umvafin ást vina og fjölskyldu.
Vel má vera að blaðamaðurinn sé frábær í ensku en ekki er hann góður í íslensku. Held að best sé að orða það þannig að konan hafi andast í faðmi fjölskyldunnar. Það er fallegt og einlægt orðalag.
Á vef BBC er haft eftir eiginmanni hennar:
The beautiful and mighty woman that is Helen McCrory has died peacefully at home, surrounded by a wave of love from family and friends
Fljótfærni er löstur og bitnar aðeins á lesendum.
Þegar minn tími kemur má vera að ég deyi ófriðsamlega og því ættu nærstaddir að forða sér.
Flestir skilja enska orðalagið; to die peacefully og tengja það á íslensku hvorki friði eða ófriði. En vafist getur fyrir mörgum að þýða það á íslensku.
Blaðamenn á mbl.is og frettabladid.is sleppa að þýða peacefully og það er vel. En DV fellur lóðbeint í Google-translate gildru.
Fyrir tveimur árum stóð á vef dv.is:
Í tilkynningu frá fjölskyldu hans segir að hann hafi dáið friðsamlega með eiginkonu sína, Amy Wright, og tvær dætur við sína hlið.
Mikið afskaplega var þetta nú illa skrifað.
Tillaga: Hún andaðist í faðmi fjölskyldunnar.
5.
76 ár eru nú liðin frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar
Viðtal á blaðsíðu 12 í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 17.4.21.
Athugasemd: Vér stórkostlegir spekingar grípum stundum í tilvitnanir á latínu til að sýna þekkingu vora og hefja oss yfir pöpulinn: Et tu, Brute? segi ég og skrifa af gefnu tilefni.
Goðið féll goðið féll af stalli, ef svo má segja. Mikið sem ég hef dáðst að ritfimum blaðamanni Moggans, stíl hans og leikni. En hér byrjar hann setningu á tölustöfum. Enginn á að gera slíkt og það er hvergi gert. Aðeins þeir sem tóku ekki eftir í skóla hrasa um þetta.
Samkvæmt óvísindalegri athugun á skrifum í íslenskum fjölmiðlum er algengast að blaðamenn byrji setningar á tölustöfum. Líkur benda til að í ritstjórnarstefnu Moggans segi:
Blaðamenn skulu allir byrja setningu á tölustöfum sé það hægt ella skal umorða setninguna til svo svo megi verða.
Ég verð þó að viðurkenna að þó að blaðamanninum hafi hérna brugðist bogalistin hefur stíll hans, fimi og leikni ekki minnkað.
Tillaga: Sjötíu og fimm ár eru nú liðin frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)