Samanstendur af og hamingjuóskir til

Orðlof

Múkk

Orðasambandið ekki múkk merkir ’alls ekkert’, t.d.: 

segja ekki múkk og heyra ekki múkk frá einhverjum. 

Það á rætur sínar í dönsku: ikke et muk, dregið af sögninni mukke ’æmta, mögla; vera fúll yfir einhverju’ en hún mun eiga rætur sínar að rekja til þýsku mucken. 

Orðasambandið ekki múkk er frá 18. öld og á sér því nokkra sögu í íslensku. Hætt er þó við að það hljómi framandlega í eyrum unga fólksins, sbr. eftirfarandi dæmi: 

Þrátt fyrir krassandi kafla um t.d. átök Guðna og Halldórs Ásgrímssonar heyrist ekki múkk frá framsóknarflokknum (Frbl. 18.12.09).

Íslenskt mál - þættir Jóns G. Friðjónssonar.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Hann vildi ekkert gefa upp um það hverjir sætu í stjórn fé­lagsins eða …“

Frétt á visir.is.                                         

Athugasemd: Hér á ekki að nota viðtengingarhátt í þátíð heldur framsöguhátt í nútíð. Á því fer miklu betur.

Í fréttinni er haft eftir viðmælanda:

„Við erum ekki að ræða okkar mál opin­ber­lega,“ sagði hann einfaldlega.

Blaðamaðurinn hefði átt að lagfæra orðalagið og skrifa:

„Við ræðum ekki okkar mál opin­ber­lega,“ sagði hann einfaldlega.

Ofnotkun nafnháttar virðist vera mikið vandamál í hjá blaðamönnum. Í Málfarsbankanum segir, og þetta þarf að skoða með óskiptri athygli: 

Margoft hefur komið fram að ætla má að breyting þessi stafi að nokkru leyti af áhrifum frá ensku. Ef hún nær fram að ganga verður íslenska snauðari eftir. 

Í fyrsta lagi hverfur munurinn á einfaldri nútíð (ég les (daglega)) og nafnháttarsambandinu (ég er að lesa (núna)) 

Og í öðru lagi virðist umsjónarmanni fátæklegra að nota (að óþörfu) fremur nafnhátt en persónubeygða sagnmynd.

Umsjónarmanni virðist breytingin svo langt komin að erfitt muni reynast að sporna við henni. Þó er rétt að leggja áherslu á að í fagurbókmenntum okkar er ofnotkun nafnháttar nánast óþekkt.

Í orðalaginu á Vísi er nóg er að nota sögnina að sitja í nútíð. Hugsunin verður ekkert skýrari sé sagt „Við erum að ræða …“. 

Tillaga: Hann vildi ekki gefa hverjir sitja í stjórn fé­lagsins eða …

2.

„Sagður hafa valið hverja hann skaut til bana.

Frétt á visir.is.                                         

Athugasemd: Þetta er skrýtið orðalag en hugsanlega ekki rangt. Flestir myndu þó hafa orðað þetta eins og segir í tillögunni hér fyrir neðan. 

Tillaga: Sagður hafa valið þá sem hann skaut til bana.

3.

„Eins og áður sagði er Suðurkjördæmi flókið. Það samanstendur af ólíkum búsetusvæðum; Höfn, Suðurnesin og Eyjar.

Frétt á visir.is.                                         

Athugasemd: Þaulvanur blaðamaður á það til að skrifa tóma merkingarleysu. „Búsetusvæðin“ á Suðurlandi eru vissulega ólík en þau eru fleiri en þarna er upp talið og jafnvel svipar ekki til hvers annars. Hvað má ekki segja um Öræfi, Kirkjubæjarklaustur, Hvolsvöll og Hellu, uppsveitir Árnessýslu og er þá ógetið um annað dreifbýli. 

Hvað er eiginlega „búsetusvæði“? Orðið er ekki skýrt út á málinu.is. Aðeins sagt að það sé þýðing á enska orðalaginu „population catchment area“. Ég er engu nær. Veit þó að Rauðalækur ábyggilega „búsetusvæði“, sama er með Vetleifsholt, Odda, Seljalandssel og Berjanes. Dreg einfaldlega þá ályktun að þar sem er einhver býr þar er „búsetusvæði“. Þar af leiðandi er orðið óþarft því við eigum orð eins og bær, þorp, hverfi og svo framvegis. Hins vegar virkar „búsetusvæðið“ sem framandi og virðist fræðilegt orð og fyrir því föllum við í stafi.

Þaulvanur blaðamaður þarf ekki að segja að Suðurlandi „samanstandi af“ ólíkum svæðum. Best er að tala einfalt mál og fullyrða í þessu sambandi að á Suðurlandi séu (sögnin að vera) ólík svæði. 

Svo er nauðsynlegt að þaulvanur blaðamaður lesi yfir texta sinn fyrir birtingu og helst með gagnrýnu hugarfari. Ástæðan er einfaldlega sú að vanur skrifari getur verið jafn mistækur og byrjandi. Þetta þekkjum við allir sem stundað höfum skrif að einhverju marki.

Tillaga: Eins og áður sagði er Suðurkjördæmi flókið og þéttbýlissvæðin ólík, til dæmis Höfn, Suðurnes og Eyjar.

4.

„Hamingjuóskir til ykkar.

Algeng kveðja.                                         

Athugasemd: Nóg er að óska fólki til hamingju. Móttakandi kveðjunnar veit þegar kveðjunni er beint til hans, aðrir taka hana ekki til sín.

„Til hamingju“ er alls ekki snubbótt kveðja, heldur eins sú fegursta sem til er. Óþarfi er að bæta einhverjum óþarfa við til að lengja hana.

Tillaga: Óska þér/ykkur til hamingju.

5.

„Gunn­ar seg­ir að bú­ist hafi verið við því að hraunið myndi um­kringja hól­inn í rúma viku núna, vegna þess að hraun í Geldingadöl­um hef­ur verið að hækka sig upp í skarð í Geld­inga­döl­um.

Frétt á mbl.is.                                         

Athugasemd: Fyrri hluti málsgreinarinnar er illskiljanlegur. Seinni hlutinn er endaleysa með nástöðu sem eyðileggur. Samanlagt er hugsunin loðin og skrifin flóknari en þau þurfa að vera. Ef blaðamaður les ekki yfir það sem hann skrifar með gagnrýnu hugarfari er hann að bregðast lesendum. Lesi hann yfir og heldur að allt sé í lagi eru líkur til þess að hann sé ekki vel ritfær. Framar öllu eiga yfirmenn hans á ritstjórninni að leiðbeina honum.

Áður en eldgosið hófst voru fell eða fjallsranar milli Geldingadala. Þar eru þau enn og óþarft að kalla þau hóla. Helgafell við Stykkishólm er 78 m og engum dettur í hug að kalla það „hól“. Áhorfendafellið eða „gónhnúkurinn“ stendur álíka hátt upp úr hraunbreiðunni.

Þar að auki er það óumdeilanleg staðreynd að margir viðmælendur fjölmiðla ekki vel máli farnir. Þó menn séu í einkennisbúningi og beri fínan titil eru þeir ekkert endilega skýrir og vel máli farnir. Þá er betra að blaðamaðurinn endurskrifa í óbeinni ræðu skilji hann á annað borð það sem hinn sagði (en sleppi því ella).

Tillaga: Gunnar segir að í nokkurn tíma hafi verið búist við því að hraun myndi renna yfir skarðið milli fellanna í Geldingadal og yfir í næsta dal.


Bloggfærslur 1. júní 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband