Morð á manni - sjálfseyðandi drónar - hún er ekki á leiðinni út
19.10.2022 | 10:01
Orðlof
Allavega
Samkvæmt Íslenskri orðabók (1983) merkir orðið allavega á allan hátt, t.d. þegar sagt er Þetta getur farið allavega, eða af öllu tagi, eins og í sambandinu allavega bækur.
En í talmáli nota margir orðið í merkingunni hvað sem öðru líður. Þá er t.d. sagt Guðrún hefur oft verið til vandræða í skólanum. Allavega finnst sumum kennaranna það. Þegar orðið er notað á þennan hátt er sá sem talar að draga úr fullyrðingunni sem hann var búinn að setja fram eða setja e.k. fyrirvara.
Orðið allavega getur líka merkt fleira, t.d. að minnsta kosti eins og í setningunni Hann er allavega fimmtugur, ef ekki eldri. Sumir hafa amast við þessari notkun orðsins, t.d. telur Íslensk orðabók hana ekki góða og gilda.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Ræddu morð á Guðlaugi Guðlaugi.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Eitthvað virðist þetta ankannalegt. Bjánarnir í gæsluvarðhaldinu töluðu um að myrða manninn.
Á vísi.is, fréttablaðinu.is, ruv.is og jafnvel á dv.is er réttilega skrifað:
að myrða Guðlaug Þór.
Nafnorðaáráttan er mun hættulegri íslensku máli en þágufallsýki og margt annað.
Tillaga: Ræddu um að myrða Guðlaug.
2.
þegar Rússar gerðu árásir á borgina með svokölluðum kamikaze eða sjálfseyðandi drónum.
Frétt á blaðasíðu 13 í Morgunblaðinu 18.10.22.
Athugasemd: Sjálfseyðandi merkir að hluturinn tortímir eða eyði sjálfum sér. Slíkir drónar springa á ákvörðunarstað sínum rétt eins og eldflaugar. Þær hafa þó aldrei verið sagðar sjálfseyðandi.
Á ensku eru svona tæki kölluð self destruct drones og eru víða á netinu áhugaverðar greinar um þau.
Ég get ekki að því gert að mér finnst þetta dálítið skrýtið að kalla drónana sjálfseyðandi hvort heldur er á íslensku eða útlensku. Má vera að það sé vegna tæknilegra skilningsleysis.
Tillaga: Engin tillaga.
3.
Hér birtast allar helstu íþróttafréttir dagsins í dag, þriðjudagsins 18.október, í lifandi uppfærslu.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Svona hefur þetta verið í nokkurn tíma á vef Ríkisútvarpsins. Orðalagið er frekar viðvaningslegt og um leið yfirdrifið og því miður virðist það vera sjálfhverft.
Til hvers að segja hér birtast. Er ekki nóg að nefna skrifa íþróttafréttir dagsins. Raunar er dagsetningin óþörf. Tillagan er mun skárri.
Nástaðan er áberandi, dagsins, dag og dagsins. Viðvaningslegt.
Frasinn lifandi uppfærsla er það sem nefnt var sjálfhverft. Verið er að hreykja sér og nota orðalag sem hjálpar ekkert lesandanum ekkert. Hann tekur ekki andköf af hrifningu í hvert sinn sem hann les þetta.
Þar að auki er frekar óþægilegt að lesa fréttirnar í einum breiðum dálki. Lesandinn þarf að skrolla niður og leita. Það gera fjölmiðlar ekki með fréttir sínar. Lesendur nenna oft ekki að leita. Í góðum fjölmiðlum er reynt að vekja athygli á hverri frétt, ekki fela þær. Formið er margnotað á vef Ríkisútvarpsins; fyrir einstök viðtöl og fréttaskýringar sem er líklega ágætt en hentar ekki fyrir fjölda frétta. Svo virðist sem vefurinn sé ekki nógu vel hannaður, bjóði ekki upp á margar fréttir og því sé þessi kostur notaður.
Tillaga: Allar helstu íþróttafréttir dagsins.
4.
Stúlkubarn væntanlegt um miðjan janúar.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Ein aðalfréttin á vef Moggans og Fréttablaðsins er að nafngreint par eigi von á barni. Gasalega er þetta nú spennandi fréttaefni - eða þannig.
Svipuð ekkifrétt er á mbl.is. Í henni er greint frá því að einhver náungi sem enginn þekkir hafi keypt sér fimm ára gamlan Range Rover sem þó er rándýr. Og fær í þokkabót hamingjuóskir frá blaðamanninum (skrýtin blaðamennska). Ég á sjö ára gamla Toyotu en Smartland Moggans hefur ekki enn óskað mér til hamingju með hana. Líklega er bíllinn minn of gamall og ódýr og ég ekki einu sinni frægur.
Tillaga: Engin tillaga.
5.
Baðst afsökunar á mistökum en sagðist ekki á leiðinni út.
Frétt á vísi.is.
Athugasemd: Sá sem er á leiðinni út er inni í húsi og á leið út úr því. Þó kann að vera að hann sé á leið til útlanda. Jafnvel hvort tveggja.
Á ensku getur orðalagið on the way out merkt að hætta. Þegar við segjum á íslensku að einhver sé á leiðinni út er ekki átt við að hann muni hætta.
Orðréttar þýðingar úr ensku geta skaðað íslenska tungu meira en margt annað.
Tillaga: Baðst afsökunar á mistökum en sagðist ekki að hætta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)