Stundum lang en stundum stutt - tryggja 50% atkvæða - í fangageymslu fyrir rannsók málsins
2.10.2022 | 11:42
Orðlof
Skælbrosa
Skæl- í skælbrosa er fengið frá sögninni að skæla gráta, gretta sig.
Í Corvinuspostillu frá miðri 16. öld er þetta dæmi samkvæmt Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans:
hæddu at mier / skældu sig oc skoku hofudin.
Þarna er merkingin greinilega grettu sig.
Nafnorðið skæla merkir grátur en í fleirtölu einnig grettur; regnskúrir.
Að skælbrosa er að brosa breitt, oft þannig að sjái í tennurnar, en einnig að viðkomandi glotti með grettu. Orðið getur því stundum haft á sér neikvæðan blæ allt eftir því hverju er verið að lýsa.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
EPDE-hugveitan, sem hefur það hlutverk að ýta undir betri framkvæmd kosninga og kosningaeftirlits, segir hins vegar að eftirlitsmenn eigi aldrei að yfirfæra eigin reynslu sem mælikvarða á það hvort kosningin í heild sinni hafi farið fram með lýðræðislegum hætti, sér í lagi ekki ef þeir hafa ekki tekið þátt í langtíma eftirlitsverkefni.
Frétt á blaðsíðu 11 í Morgunblaðinu 28.9.22.
Athugasemd: Málsgreinin er afar löng og illskiljanleg. Líklega hefði mátt skipta henni í tvær eða þrjár málsgreinar.
Feitletruðu orðin virðast út samhengi sem og það sem á eftir kemur.
Ég treysti mér ekki til að koma með tillögu.
Tillaga: Engin tillaga.
2.
6. september árið 2013 varð ákveðinn viðsnúningur
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hvers vegna byrjar vanur blaðamaður málsgrein á tölustaf? Varla er það vegna vanþekkingar, frekar hugsunarleysi, fljótfærni.
Þetta er aldrei gert, ekki í blaðamennsku né í almennt í skrifum.
Ákaflega auðvelt er að lagfæra villuna. Hægt er að skrifa töluna með bókstöfum, bæta fornafninu þann fyrir framan tölustafinn eða umorða. Hér má mæla er með hinu síðastnefnda.
Tillaga: Ákveðinn viðsnúningur varð 6. september
3.
Stundum langt en stundum stutt en alltaf fór hann einhverja kílómetra.
Frétt á blaðsíðu 2 í Fréttablaðinu 29.9.22.
Athugasemd: Ekki er mikil reisn yfir málsgreininni. Tillagan er skárri.
Tillaga: Ýmist lengra eða skemmra en alltaf hljóp hann nokkra km.
4.
En til að vinna kosninguna í fyrstu umferð og komast hjá seinni umferð þann 30. október þarf hann að tryggja meira en 50 prósent atkvæða.
Frétt á blaðsíðu 10 í Fréttablaðinu 29.9.22.
Athugasemd: Yfirleitt er talað um að sigra eða vinna í kosningum. Sjálf kosningin tekur ekki þátt.
Fái frambjóðandi meira en 50% atkvæða þarf ekki að kjósa aftur milli þeirra tveggja sem fengu flest atkvæði. Það hlýtur að liggja í augum uppi. Þar af leiðir að óþarft er að tíunda þetta með að komast hjá seinni umferð.
Frambjóðandi tryggir ekki nein atkvæði, hann tryggir sér þau.
í fréttinni segir:
en hugsanlega nær hann að ná til þeirra 7 prósenta kjósenda sem eru óákveðnir eða hyggjast ekki kjósa.
Nær hann að ná? Þetta er fljótfærnislegt orðalag. Skárra er að segja að hann nái hugsanlega til þeirra sjö prósenta kjósenda.
Tillaga: Til að sigra í fyrstu umferð kosninganna þann 30. október þarf hann að tryggja sér meira en 50 prósent atkvæða.
5.
Ráðist á fjölskylduföður á meðan hann keypti mat.
Frétt á vísi.is.
Athugasemd: Eitt er að ráðast á mann sem er að kaupa mat en verra virðist löggunni og blaðamanni Vísis að fórnarlambið sé fjölskyldufaðir. Hér eru nokkrar tilbúnar fyrirsagnir:
- Haltur maður missir franskar kartöflur.
- Trjágrein fellur á einhleypan mann.
- Þriggja barna móðir blótar inni í bensínstöð.
- Vistmaður í fangageymslu segist saklaus.
- Svindlað á konu í annarlegu ástandi.
- Maður verður fyrir rannsókn máls og meiðist
Í fréttinni segir:
Í dagbók lögreglu segir að árásarmaðurinn hafi verið handtekinn og vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.
Dálítið eru skrifarar málvilltir, þarna ætti að standa vegna rannsóknar málsins.
Alltaf er verið að rannsaka mál. Fullur kall eða kelling er tekinn til yfirheyrslu, sett í fangelsi eða sleppt. Hvað kemur svo út úr þessum rannsóknum? Það hefur hingað til ekki þótt fréttnæmt þó mikilvægt sé að segja frá því í löggudagbókinni. Annað sem vantar er að tíunda klósettferðir og hvað löggur á vakt drekka marga kaffibolla.
Blaðamenn gleyma því til hvers þeir eru þegar þeir líta á dagbókina, missa alla skynsemi og gagnrýna hugsun. Þeir telja dagbókina fjársjóð, allt í henni séu fréttir ritaðar á gullaldarmáli. Samt eru flestar fréttirnar frekar ómerkilegt. Blaðmenn sjá ekki að löggan ber ekkert skynbragð á fréttir, engu að síður afrita þeir dagbókina og líma inn í fréttaforritið og birta. Fyrir vikið eru löggufréttirnar svo til eins á öllum fjölmiðlunum.
Sannleikurinn er hins vegar sá að dagbókin er yfirleitt nauðaómerkilegur samtíningur, oftast algjör smáatriði en það sem kann að vera einhvers virði er ekki gerð nein skil. Tóm yfirborðsmennska.
Tillaga: Engin tillaga.
6.
Ákærður fyrir margendurteknar hótanir og ofbeldi gegn lögreglumönnum.
Frétt á DV.is.
Athugasemd: Lakari blaðamenn hefðu sleppt því að nota þetta ágæta lýsingarorð og sett í staðinn hið ofnotaða og misskilda lýsingarorð ítreka.
Blaðamaðurinn á DV fellur ekki ofan í þá forugu holu og skrifar eins og höfðingja sæmir. Hann á hrós skilið.
Tillaga: Engin tillaga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)