Gríðarlega verðskuldað - ofankoma með vindi - nýir stílar á hverjum degi
9.10.2022 | 11:37
Orðlof
Alveg
Í Brekkukotsannál segir frá því að þeir séra Snorri Björnsson (1710-1803), prestur á Húsafelli, og séra Jón skáld Þorláksson á Bægisá (1744-1819) hafi hist á Kjalvegi og hafi þá Jón ljóðað á Snorra:
Ljót er bölvuð blekkingin
blindar á lífsins Kjalveg.
Snorri svaraði samstundis:
Þó er verst ef þekkingin
þjónar henni alveg.
Það mun að vísu ekki standast að þeir hafi hist Jón og Snorri og ort þessa vísu í sameiningu. Lokaorð hennar, alveg, er hins vegar ekki gamalt í málinu og elstu heimildir um það eru frá byrjun 19. aldar.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Það er nokkuð ljóst að Breiðablik verður Íslandsmeistari, sem er gríðarlega verðskuldað enda tímabil Breiðabliks búið að vera magnað.
Frétt á blaðsíðu 49 í Morgunblaðinu 8.10.22.
Athugasemd: Merkingarlaus hringlandi í málsgreininni. Mun skárra er að orða hana eins og segir í tillögunni.
Það er oft ónauðsynlegt í upphafi setningar og jafnvel víðar, kallast aukafrumlag, stundum leppur, og hefur enga sjálfstæða merkingu. Fer afar illa í rituðu máli en er mikið notað í talmáli og er ekkert að því; það er nú það.
Aukafrumlagið þykir yfirleitt frekar þunnur þrettándi. Hvað skyldi nú gerast sé orðinu sleppt. Ekkert gerist nema það eitt að málsgreinin lítur mun betur út. Merkingin helst óbreytt. Gott er að sleppa að skrifa það sem engu máli skiptir.
Hver er munurinn á því sem er verðskuldað og gríðarlega verðskuldað? Þegar grannt er skoðað er hann varla mikill. Til er sögnin að verðskulda og lýsingarorðið verðskuldaður. Afar sjaldgæft er að sjá stigbreytingu lýsingarorðsins; verðskuldaðri árangur, verðskuldaðasti árangurinn. Enn má ítreka að gott er að sleppa því sem engu skiptir.
Lýsingarorðið magnaður virðist vera notað í tíma og ótíma af fólki sem dettur ekkert annað í hug eða er að flýta sér. Þar af leiðir að orðið er þvælt og merkingin óljós.
Fjölmörg önnur eru jafngóð eða betri: Stórfenglegur, æðislegur, magnþrunginn, stórkostlegur, stórbrotinn, kröftugur, mergjaður, ótrúlegur, tilkomumikill, áhrifamikill, áhrifaríkur og merkilegur svo örfá dæmi séu nefnd.
Í fréttinni stendur:
Þá fá Víkingur og KA verðskulduð Evrópusæti.
Blaðamaðurinn sér ekki nástöðuna. Til að sleppa við hana þarf að umorða, til dæmis á þennan veg:
Víkingur og KA fá Evrópusæti og eiga þau fyllilega skilin.
Mikilvægt er að skrifarar séu gagnrýnir á eigin skrif og óttist ekki að þurfa að umskrifa texta sinn. Oft er það til bóta.
Tillaga: Nokkuð ljóst er að Breiðablik verður Íslandsmeistari, sem er verðskuldað enda hefur Breiðablik staðið sig afar vel.
2.
Seltjarnarneskirkja var vígð á Valhúsahæð 1989
Frétt á baksíðu Morgunblaðsins 8.10.22.
Athugasemd: Þetta er ekki beinlínis rangt enda er blaðamaðurinn vel máli farinn. Betur hefði þó farið á því að skrifa þetta eins og segir í tillögunni. Má vera að þetta sé smekksatriði.
Tillaga: Seltjarnarneskirkja á Valhúsahæð var vígð árið 1989
3.
Ofankoma með vindi
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins 8.9.22.
Athugasemd: Þetta segir veðurfræðingur í viðtali. Skrýtið orðalag. Ofankoma er yfirleitt haft um snjókomu. Þegar snjóar í hvassviðri er talað um hríð. Þekkja veðurfræðingar ekki orðið eða er þetta hluti af nýlensku þeirra.
Veðurfræðingurinn sagði að mikil úrkoma falli þegar hiti er um frostmark. Alþýðufólk myndi orða það þannig að þá snjói. Hefur fennt yfir þetta orða í huga veðurfræðinga.
Tillaga: Hríð
4.
Þrátt fyrir margar sóknir fyrri hálfleik var markalaust þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Frétt á visi.is.
Athugasemd: Klisjur íþróttablaðamanna eru oft máttlausar og oft bjánalegar. Ekkert er að því að tala einfalt og skýrt mál. Þrátt fyrir margar sóknir ...: Já, liðin skiptast á að sækja en fæstir telja sóknirnar.
Hvað koma búningsherbergi málinu við? Allir þekkja regluna: Þegar fjörtíu og fimm mínútur eru liðnar skipta liðin um vallarhelming. Þá er hálfleikur ekki búningsherbergjagangur.
Margt í fréttinni er skrýtilega orðað. Hér eru nokkur gullkorn:
- Liðin skiptust á að sækja endana á milli. (En ekki hvað?)
- Bæði lið sýndu áfram vilja til að vinna leikinn (En ekki hvað?)
- Valsmenn náðu ekki að nýta yfirburði sína þegar komið var á síðasta þriðjung vallarins. (Er fótboltavelli skipt í þrjá hluta en ekki tvo?)
- Þeir fengu nokkrar flottar stöður í og við vítateig KR-inga. (Hvað eru stöður í fótboltaleik? Eru ekki allir á hlaupum?)
- Heimamenn refsuðu fyrir það í lokin. (Bull, fótboltalið refsa ekki.)
- KR fer í Kópavog laugardaginn 15.október klukkan 17:00 og mætir þar Breiðablik. (Er ekki nóg að segja að KR mæti Breiðabliki á þessum tíma?)
Fréttin er að stórum hluta aðeins innihaldslítið mal sem lesandinn hefur ekkert gagn af. Líklega er ekki við blaðamanninn að sakast heldur þá sem stjórna fjölmiðlinum. Þeir virðast ekki leiðbeina byrjendum, hvorki í uppbyggingu frétta né skrifum. Ef til vill eru þeir engu skárri.
Tillaga: Þrátt fyrir margar sóknir var makalaust í hálfleik.
5.
Rússland hefur gefið út að það hafi verið bílsprengja sem var sökudólgurinn.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Dólgur merkir ofstopamaður. Sökudólgur er sekur maður. Hvorki bíll né sprengja er dólgur, sökudólgur eða maður.
Hér færi betur fer á því að tala um Rússa, ekki Rússland.
Tillaga: Rússar hafa fullyrt að bílsprengja hafi skemmt brúna.
6.
Margir liðsmenn Íslands á mótinu fengu matareitrun í Slóveníu
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Yfirleitt er það orðað þannig að fólk verði fyrir matareitrun sem er rökrétt? Sjá Málfarsbankann.
Tillaga: Margir liðsmenn Íslands á mótinu urðu fyrir matareitrun í Slóveníu
7.
Fékk töskuna til baka í molum.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Fatnaður og hlutir úr tauefni fer ekki í mola þó skemmist. Frekar er talað um efni í henglum eða tægjum.
Tillaga: Fékk töskuna til baka í henglum.
8.
Töskur á Boozt.com - Nýir stílar á hverjum degi.
Auglýsing á Google.com.
Athugasemd: Hvað skyldi fyrirtækið vera að auglýsa? Mætti halda að þetta væri auglýsing frá apóteki.
Samkvæmt málið.is getur stíll verið:
- ritæfing
- tímatalsaðferð
- Yfirbragð, svipmót
- stafir, letur
- ritfæri, griffill
Við má bæta að til eru lyf sem kölluð eru stílar. Þeir eru settir inn í líkamann en ekki í gegnum munn. Sjá nánar hjá Lyfju.
Tillaga: Engin tillaga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)