Aftur í fyrndinni - sýna viðbrögð - flugskeyti sem fóru og drápu
15.11.2022 | 19:49
Orðlof
Nafnorðastíll
Á þessum vettvangi hefur verið vikið nafnorðastílnum svo kallaða, tilhneigingu til að ofnota nafnorð eða búa til ný samsett nafnorð. Dæmi um þetta blasa víða við.
Á forsíðu Morgunblaðsins í morgun gat t.d. að líta þriggja dálka fyrirsögn:
Efla þarf skaðaminnkun (Mbl 5.1.17, 1).
Í meginmáli mátti lesa að um var að ræða það sem kallað var skaðaminnkunarverkefni Rauða krossins, einnig kom fram að brýnt væri að þjónusta þennan hóp út frá skaðaminnkun og enn fremur:
Þarf að efla skaðaminnkunarþjónustu verulega (Mbl 5.1.18, 14).
Ekki er öll vitleysan eins, þá væri ekkert gaman að henni.
Málfarsbankinn. Jón G. Friðjónsson.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Ekkert er gefið um að repúblikanar hreppi þau í nægilegum mæli og líklegt að demókratar eigi allnokkur þeirra vís.
Frétt á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu 14.11.22.
Athugasemd: Hér er rætt um atkvæði í bandarísku þingkosningunum. Málsgreinin er loðin og illskiljanleg.
Orðalagið að manni sé ekkert gefið um eitthvað merkir til dæmis að honum líki ekki við eða hafi ímugust á.
Við nánari athugun, nenni maður á annað borð að velta þessu fyrir sér, gæti blaðamaðurinn átt við að ekki sé víst að repúblikanar fái nægilega mörg atkvæði.
Oft á lesandi fréttar tvo kosti. Marglesa það sem hann skilur ekki í fyrstu atrennu, hvort sem illa er skrifað eða málefnið flókið, og reyna að skilja. Hinn kosturinn sem lesandinn getur nýtt sér er sleppa því að lesa fréttina, fletta yfir á næstu síðu.
Af þessu má ráða hversu mikilvægt er að blaðamaður vandi skrif sín, lesi yfir, og helst að einhver annar geri það líka. Það er hins vegar sjaldan gert, viðkvæði fjölmiðlamanna er að ekki sé tími til þess, þeir eru að flýta sér og að endingu bitnar allt á lesandanum. Manni dettur í hug hvað gerðist ef sama viðhorfið væri til dæmis í matvælaframleiðslu.
Ekki er öll framleiðslan eins, sagði maðurinn, og lokaði dagblaðinu.
Tillaga: Ekki er víst repúblikanar hreppi nógu mörg og líklegt að demókratar eigi allnokkur þeirra vís.
2.
Deilur um ábyrgð komandi kynslóða á því sem gerðist aftur í fyrndinni er fullkomið fánýti og tímasóun
Leiðari Morgunblaðsins 14.11.22.
Athugasemd: Öllum getur orðið á í skrifum og þess vegna er brýnt að fá aðra til að lesa yfir því sjálfvirk leiðréttingaforrit hefðu ekki gert athugasemd við ofangreint.
Þarna er atviksorðinu aftur ofaukið.
Tillaga: Deilur um ábyrgð komandi kynslóða á því sem gerðist í fyrndinni er fullkomið fánýti og tímasóun
3.
Manchester United hefur nú sýnt viðbrögð við því sem fram hefur komið
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Þetta er orðalag er í svokölluðum nafnorðastíl sem einkennir ensku. Íslenskt mál byggir á sagnorðum en margir blaðamenn halda að enskt orðalag eigi að vera ráðandi. Þarna er talað um að sýna viðbrögð í stað þess að bregðast við.
Fullyrða má að nafnorðastíllinn sé ein sú mesta hætta sem stafar að íslenskunni.
Tillaga: Manchester United hefur nú brugðist við því sem fram hefur komið
4.
Dóra Björt kom aftur til Íslands sem trúlofuð kona.
Frétt á fréttablaðinu.is.
Athugasemd: Þetta er broslegt. Blaðamaðurinn sem samdi fyrirsögnina á skilið hrós fyrir að reyna sitt besta en engu að síður er útkoman hallærislega skondin, líkt og barn hafi samið hana.
Lesandinn spyr sig hvort þessi Dóra Björt hafi farið út sem ólofuð stelpa en komið heim sem trúlofuð kona. Auðvitað er þetta enn barnalegri útúrsnúningur.
Einfaldast er að segja að hún og unnustinn hafi trúlofað sig í útlandinu því ekki var hún ein um þetta.
Tillaga: Engin tillaga.
5.
Rússnesk flugskeyti fóru yfir landamæri Póllands og drap tvo í kjölfarið.
Frétt á fréttablaðinu.is.
Athugasemd: Flugskeytin eru í fleirtölu, þau fóru. Svo breytist orðalagið í eintölu og þau drap. Ekki heil brú í þessu. Enginn dó í kjölfari flugskeytanna en þau urðu tveimur að bana þegar þau sprungu og það gerðist auðvitað við lendingu.
Tillaga: Tveimur rússneskum flugskeytum var skotið yfir til Póllands og urðu tveimur að bana.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)