Innbrot í hverfi 104 - fannfergi án hliðstæðu - djúp úrkoma á Selfossi

Orðlof

Gelísku gleraugun

Almenningur er miklu þorstlátari í að þetta verði íhugað betur ef marka má viðbrögð við bók Þorvalds Friðrikssonar um Kelta: Áhrif á íslenska tungu og menningu. 

Þorvaldur er leikmaður í málfræðum en vel að sér í norrænum nútímamálum og lætur sér detta í hug ýmis orð sem honum virðist að gætu verið ættuð vestan um haf. 

Þær uppástungur eru órannsakaðar með aðferðum orðsifjafræðanna en gætu vakið málfræðinga til umhugsunar um „að gjörðar séu eftirleitir“ í orðaforðanum með nýju gelísku gleraugun á nefinu. 

Það er ekki lengur þannig að líklegasta upprunaskýring íslenska orðaforðans sé ævinlega í öðrum norrænum málum. Sú sjálfkrafa skýring er enn ein úrelt arfleifð rómantískrar söguskoðunar og þjóðernishugmynda 19. aldar. 

Gísli Sigurðsson. Tungutak. Blaðsíða 28 í Morgunblaðinu 17. desember 2022. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Um hálf­tíu­leytið í gær­kvöldi var til­kynnt um inn­brot í íbúðargeymslu í hverfi 104.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Blaðamenn á Mogganum halda að allt það sem frá löggunni kemur sé hafið yfir gagnrýni. Þeir taka vitleysu trúanlega, skrifa að póstnúmer séu heiti á hverfum og birta hreyknir.

Næst búast við að blaðamenn á Mogganum segi að stjórnarskipti hafi orðið í 45 (landsnúmer síma í Danmörku) eða verkföll séu í 44 (landsnúmer síma í Bretlandi).

Tapa blaðamenn glórunni við lestur á svokallaðri dagbók lögreglu? Ekki er blaðamaður Vísis neitt skárri en kollegar hans á Mogganum.

TillagaEngin tillaga.

2.

„… setti hljóða þegar hún opnaði úti­dyr sín­ar í morg­un og við blasti fann­fergi án hliðstæðu.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Hvað er „fannfergi án hliðstæðu“? Vera má að blaðamaðurinn hafi látið útlenskuna ráða orðalagi sínu. Af fréttinni má ráða að orðið hliðstæða merki fordæmi, það sem sjaldan eða aldrei hafi gerst áður. Það gæti verið rétt en hliðstæða getur þýtt margt annað.

Í mörgum erlendum málum eins og ensku (veit ekki um norsku) er áherslan á nafnorð en íslenskan byggir á sagnorðum. Þar af leiðir að við ættum ekki að rembast við að tala enska íslensku, hnoða óþarfa nafnorðum í ritmálið.

Margfalt betra er að leita að sagorði, jafnvel þó það þýði að setningin verði aðeins lengri en ella. Í það minnsta verður hún skýrari og eðlilegri, sjá tillöguna.

Skemmtileg er frásögn blaðamannsins af vandræðum fólks vegna fannfergis í Noregi. Fólki var ekki aðeins boðið húsaskjól og veitingar; „… og fólk get­ur brugðið sér á sal­ernið“.

Tillaga: … setti hljóða þegar hún opnaði úti­dyr sín­ar í morg­un og við blasti meiri snjór en hún hefur áður séð.

3.

Úrkoma á Sel­fossi í nótt og morg­un mæld­ist 39 millí­metr­ar og 15 millí­metr­ar á Kalf­hóli á Skeiðum.

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Hvað á að segja um þetta orðalag? Staðreyndin er einfaldlega sú að á Selfossi snjóaði, það „úrkomaði“ ekki. Vissulega má orða það þannig að úrkoma geti bæði verið rigning og snjór en þannig er það ekki í reynd. Almenningur talar um að það snjói eða rigni. Og íslenskan á orð yfir allt þar á milli. Í daglegu tali er orðið „úrkoma“ því sem næst óþarft.

Veðurfræðingar segja ekki rétt frá. Þeir eiga það til að finna upp orð eða nota óþarfa fræðileg orð og tala sig frá alþýðlegu máli. Þeir hræra í hefðbundnu orðalagi íslensku og útkoman er „gelding“ á málinu.

Aldrei myndi lesandinn heyra svona samtal á förnum vegi:

Jæja, það er aldeilis úrkoman. (Snjóar mikið)

Já, og hún er djúp. (Snjórinn er djúpur)

Bílar komast ekki lengur leiðar sinnar fyrir úrkomuhleðslunni. (Ófærð vegna snjóa)

Þó er verið að ryðja úrkomunni af vegum. (Snjóruðningur)

Verst er þegar talverður vindur blæs úrkomunni til. (Skafrenningur)

Veðurfræðingar mega ekki komast upp með að búa til nýja íslensku. Sjaldan nota þeir gömul íslensk veðurorð um vind, til dæmis kul, gjólu, andvara, rok, storm og svo framvegis. Nema kannski óvart. Hjá þeim er vindurinn aðalatriði; talsverður vindur, mikill vindur, lítill vindur. 

Úrkoma í föstu formi heitir snjór og í hvassviðri („mjög mikill vindur“) getur skafið.

Mikið óskaplega yrði missir íslenskunnar mikill ef veðurfræðingarnir myndu fá að ráða. Þó ber að geta þess að þeir ráða allmiklu, hafa ótrúlegan aðgang að fjölmiðlum með einhliða áróður sinni. Og enginn segir neitt.

Tillaga: Snjókoman á Sel­fossi í nótt og morg­un mæld­ist 39 millí­metr­ar og 15 millí­metr­ar á Kalf­hóli á Skeiðum.

4.

„… einn meðlimur hópsins, segir í samtali við Fréttablaðið að …

Frétt á fréttablaðinu.is.

Athugasemd: Mörgum finnst orðið meðlimur ekki gott, líklega vegna þess að það líkist dönsku, „medlem“. Vera kann að það sé þegar orðið „íslenskt“. Látum það nú vera en íhugum í staðinn hvort ofangreind tilvitnun sé betri en tillagan.

Auðveldlega má sleppa orðinu „meðlimur“, það er hvort sem er algjörlega óþarft, ekkert breytist. Hins vegar má nota orðalagið einn úr hópnum, einn í hópnum eða einn þeirra. Nú er það lesandans að taka afstöðu.

Blaðamaðurinn hefði mátt vanda ýmislegt annað í fréttinni. 

Tillaga: … einn úr hópnum, segir í samtali við Fréttablaðið að 


Bloggfærslur 18. desember 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband