Dæmdur fyrir brennu - þegar vindur blæs - alvarlegt flugatvik
22.12.2022 | 10:52
Orðlof
Frekjudallur
Lýsingarorðið frekjudós er kunnugt frá lokum 19. aldar [ ] en rætur þess eru vafalaust danskar þótt samsvörunin sé ekki bein, sbr. d. frækketøs.
Með hliðsjón af frekjudósinni hafa málhagir menn svo myndað orðin frekjudolla [ ] og frekjudallur [ ].
Sagnarsambandið brenna af er fengið úr dönsku (brænde af hleypa af skoti) en sá sem þetta ritar vandist því að það merkti skjóta knetti (úr vítaspyrnu) fram hjá marki, sbr. no. afbrennsla.
Nú virðast margir nota það með vísun til þess er vítaspyrna er misnotuð hvort sem markmaður ver knöttinn eða skotið er fram hjá.
Fjölmörg önnur orð sem öðlast hafa þegnrétt í málinu eiga rætur sínar í dönsku þótt þau beri það ekki með sér, t.d. bandóður (< d. bindegal); goggunarröð (< d. hakkeorden) og dægurfluga (< døgnflue).
Jón G. Friðjónsson. Málfarsbankinn.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Landsréttur mildaði á föstudaginn dóm yfir [xxx], fyrir brennu
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Maður var dæmdur fyrir íkveikju. Blaðamaðurinn tekur upp orðalag úr dómi Landsréttar, en í honum segir:
Er ákærða gefin að sök brenna
Vera má að þetta sé eitthvað lögfræðimál en engu að síður kveikti maðurinn í húsnæði. Varð líklega úr því brenna. Engu að síður var sakarefnið íkveikja.
Tillaga: Landsréttur mildaði á föstudaginn dóm yfir [xxx], fyrir íkveikju
2.
Ein tilkynning barst um að skjálftinn hefði fundist í Drangshlíðardal.
Frétt á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu 19.12.22.
Athugasemd: Jarðskjálfti varð í Mýrdalsjökli, ekkert tiltakanlega stór, 3,8 stig. Hann ætti þó að vera nægilega stór til að finnast í næsta nágrenni.
Mogginn birtir fréttina frá Veðurstofunni og í henni kemur fram að skjálfti hafi fundist í Drangshlíðardal, bærinn er við Skógá og í honum er Skógarfoss, handan árinnar eru Skógar sem flestir þekkja. Það er engin frétt því Drangshlíðardalur er um 25 km frá upptökum skjálftans. Þetta er svipuð vegalengd eins og frá Fagradalsfjalli að Skólavörðuholti í Reykjavík.
Tillaga: Engin tillaga.
3.
Úr frostinu dregur þegar vindurinn blæs.
Veðurfréttir í Ríkissjónvarpinu eftir kvöldfréttir 22.12.19.
Athugasemd: Blæs vindurinn? Í alvöru, blæs hann? Er hann skepna sem setur stút á varirnar og blæs? Eða er þetta barnamál veðurfræðings?
Vindi hefur verið lýst sem hreyfing lofts. Honum hefur á íslensku hefur verið lýst á ótal vegu sem veðurfræðingar forðast að nefna. Þeir virðast sjaldan nota nota gömul og gegn orð sem lýsa vindstyrk. Segja þess í stað lítill vindur, talsverður vindur eða mikill vindur. Ekki er mikil reisn yfir þess háttar mali.
Hvers konar derringur er í manninum, kann sá að segja sem þetta les. Gott að hann nefndi orðið derringur, því orðið getur þýtt mikillæti en það er einnig veðurorð sem sumir þekkja og merkir stinningskaldi.
Fyrir þá sem finnst umsjónarmaður vera með derring þá eru hér 112 orð sem lýsa vindi. Þau hafa verið birt hér áður en góð vísa er aldrei of oft kveðin:
- aftakaveður
- andblær
- andi
- andvari
- áhlaup
- bál
- bál
- bálviðri
- belgingur
- blástur
- blær
- blæs
- brimleysa
- derringur
- drif
- dúnalogn
- dús
- fellibylur
- fjúk
- fok
- foráttuveður
- galdraveður
- gambur
- garri
- gerringur
- gjóla
- gjóna
- gjóstur
- gol
- gola
- gráð
- gustur
- hrakviðri
- hregg
- hríð
- hroði
- hrök
- hundaveður
- hvassviðri
- hviða
- hvirfilbylur
- hægviðri
- illviðri
- kaldi
- kali
- kári
- kul
- kuldastormur
- kuldastrekkingur
- kylja
- kyrrviðri
- kæla
- lágdeyða
- ljón
- logn
- lægi
- manndrápsveður
- mannskaðaveður
- músarbylur
- nepja
- næðingur
- næpingur
- ofsarok
- ofsaveður
- ofsi
- ofviðri
- ókjör
- óveður
- remba
- rembingur
- rok
- rokstormur
- rumba
- runta
- ræna
- skakviðri
- slagveður
- snarvindur
- snerra
- snerta
- sperra
- sperringur
- stilla
- stormur
- stólparok
- stólpi
- stórastormur
- stórveður
- stórviðri
- strekkingur
- strengur
- streyta
- streytingur
- stroka
- strykur
- súgur
- svak
- svali
- svalr
- sveljandi
- svipur
- tíkargjóla
- túða
- veðrahamur
- veðurofsi
- vindblær
- vindkul
- vindsvali
- vindur
- vonskuveður
- ördeyða
- öskurok
Þessi orð má ekki nota. Í stað þeirra nota veðurfræðingar þessi:
- Lítill vindur
- Talsverður vindur
- Mikill vindur.
Alltaf skal veðurfræðingur segja að úr vindi dragi eða hann minnki. Sjaldan lægir eða hvessir.
Vel má vera að lögmál eðlisfræðinnar segi að í vindblæ dragi út frosti. Lögmál íslenskunnar eru hins vegar ekki svo ýkja flókin og því á að beita af af list en ekki leti.
Tillaga: Úr frostinu dregur þegar hvessir.
4.
Árin 1987 til 2000 smíðuðu Bandaríkjamenn alls 21 B-2. Þrjár þeirra hafa nú lent í alvarlegu flugatviki.
Frétt á blaðsíðu 38 í Morgunblaðinu 22.12.22.
Athugasemd: Atvik er dálítið undarlegt orð enda getur það þýtt svo margt. Líklega er það hér notað yfir enska orðið incident en það hefur mun víðtækari merkingu en orðið atvik. Enska orðið event er mun mildara en getur varla átt við hér.
Gera má ráð fyrir því að orðið atvik sé notað um atburð, orðið hefur fjölmargar merkingar en á ekki við hér. Betri eru orð eins og óhapp, slys, tjón og fleira.
Þegar tæki skemmast er varla hægt að tala um atvik. Ekki heldur þegar fólk meiðist eða slasast.
Tillaga: Á árunum 1987 til 2000 smíðuðu Bandaríkjamenn alls 21 B-2. Þrjár þeirra hafa nú lent í alvarlegu tjóni.
5.
18 alþingismenn úr fimm flokkum flytja tillöguna
Frétt (Baksvið) á blaðsíðu 40 í Morgunblaðinu 22.12.22.
Athugasemd: Eitthvað mikið er að á Mogganum þegar einn reyndasti blaðamaðurinn og einn af stjórnendunum byrjar málsgrein á tölustöfum. Kann hann ekki regluna? Aldrei skal nota tölustaf í upphafi málsgreinar. Það er hvergi gert í hinum vestræna heimi. Hann ætti að gúggla þetta.
Tillaga: Átján alþingismenn úr fimm flokkum flytja tillöguna
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)