Þú ert með stóran skjálfta - sækja úrslit - verslun í næringarkeðju
19.7.2022 | 13:34
Orðlof
Í barndóm aftur komnir
Í bréfi til alþingismanna árið 1663 baðst Árni lögmaður Oddsson undan því að gegna áfram starfi sínu. Hann bar við heilsubresti og ritaði með eftirminnilegum hætti:
Svo sem fuglinn flýgur ekki vel, þá hann missir fjaðranna, einn hestur þreytist undir of þungri byrði, svo hann neyðist til að leggjast, skipið siglir ei án byrjar, eldurinn logar ei þá eldsneytið þrýtur, og allir eldar náttúrlegir brenna út um síðir, og allt hold slitnar sem klæði, því vil eg meðkenna [viðurkenna] minn vanmátt enn nú að nýju [sama erindi hafði hann borið upp 1662] og engan góðan mann á tálar draga (Alþ VII, 4 (1663)).
Allt mun þetta vera tímalaust í þeim skilningi að flest á það enn við. Síðar í sama bréfi segir hann:
En sá sem ekki minnist hvað sér alkunnugur maður heitir eg vil ekki tala um fleiri náttúrunnar bresti, sérhver getur sjálfum sér næst. Heimsins ósómi og veraldarinnar villuveltur veikja þá, sem ístöðulitlir eru, og þá, sem í barndóm eru aftur komnir. (Alþ VII, 5 (1663)).
Sjálfur kannast ég vel við að muna ekki hvað ýmsir heita og ég er meira að segja farinn að rugla saman nöfnum á barnabörnum mínum en það er aukaatriði í þessu samhengi.
Pistlar Jón G. Friðjónssonar.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Við erum stoltar af því að klæða stelpurnar okkar á EM.
Auglýsing á blaðsíðu 7 í Morgunblaðinu 18.7.22.
Athugasemd: Þannig segir í auglýsingu frá versluninni Hjá Hrafnhildi og á stórri mynd brosa landsliðsmenn, óaðfinnanlega klæddir. Þetta eru stelpurnar okkar eins og sagt er, glæsilegir fulltrúar Íslands.
Klæða er sagnorð og merkir að fara í föt, jafnvel að setja einhvern í föt eins og sagt er á málinu.is. Orðið er dregið af nafnorðinu klæði sem getur merkt dúkur, flík og fatnaður.
Verslunin Hjá Hrafnhildi klæðir ekki stelpurnar okkar. Þær gera það sjálfar. Hins vegar útvegar það sparifötin í ferðina.
Orðalagið skilst vissulega en hefði mátt vera hnitmiðaðra.
Tillaga: Engin tillaga.
2.
Hann biðlar því til Willum Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra að grípa til aðgerða og stuðla að betri sjúkraflutningum.
Frétt á blaðsíðu 6 í Morgunblaðinu 18.7.22.
Athugasemd: Hvað merkir að biðla? Er átt við að biðja, óska, krefjast, heimta?
Áður fyrr merkti orðið að biðja sér konu. Það er dregið af orðinu biðill. Á fyrri tíð virðist hafa verið algengt að þegar beðið var um hönd konu var fyrst rætt við föðurinn eða annan sem réði. Konan var ekki alltaf höfð með í ráðum.
Í Njálssögu segir svo er Gunnar Hámundarson frá Hlíðarenda hitti Hallgerði Höskuldsdóttur í fyrsta sinn og voru þau á Þingvöllum er alþingi var háð:
Hversu munt þú svara ef eg bið þín? segir Gunnar.
Það mun þér ekki í hug, segir hún.
Eigi er það, segir hann.
Ef þér er nokkur hugur á, segir hún, þá finn þú föður minn.
Síðan skildu þau talið.
Gunnar biður hennar ekki því þó ekkja sé vísar hún honum á föður sinn. Og hann fer á fund Höskuldar Dala-Kollssonar. Viðstaddur er bróðir hans Hrútur Herjólfsson, segir í sögunni:
Þar kom niður ræða Gunnars að hann spurði hversu þeir bræður mundu því svara ef hann bæði Hallgerðar.
Sutt en listileg frásögn og eftirminnileg í alla staði:
Hversu líst þér Hrútur frændi? segir Höskuldur.
Hrútur svaraði: Ekki þykir mér þetta jafnræði
Hvað finnur þú til þess? segir Gunnar.
Hrútur mælti: Því mun eg svara þér um þetta er satt er. Þú ert maður vaskur og vel að þér en hún er blandin mjög og vil eg þig í engu svíkja.
Vel mun þér fara, segir Gunnar, en þó mun eg það fyrir satt hafa að þér virðið í fornan fjandskap ef þér viljið eigi gera mér kostinn.
Eigi er það, segir Hrútur, meir er hitt að eg sé að þú mátt nú ekki við gera. En þó að vér keyptum eigi þá vildum vér þó vera vinir þínir.
Gunnar mælti: Eg hefi talað við hana og er þetta ekki fjarri hennar skapi.
Hrútur mælti: Veit eg að svo mun vera að ykkur er báðum girndarráð. Hættið þið og mestu til hversu fer.
Biðillinn Gunnar á Hlíðarenda var ekki biðill lengi og voru kaupin samþykkt og brúðkaup haldið.
Víkur nú sögunni til nútíma. Hér er verið að amast út sögnina að biðla sem er greinilega ofnotuð af blaðamönnum. Merkingin er oftast óljós. Enginn fer í kröfugöngu og biðlar um eitthvað, í þeim er krafist. Beðið er til guðs og óskað eftir að hann geri eitthvað, ekki biðlað.
Sé einhver beðinn um eitthvað er óþarfi að notað sögnina að biðla. Börn biðja jólasveininn um gjöf, þau biðla ekki. Mikið andskoti væri tungumálið óljóst ef við myndum ekki orða hugsun okkar að fullu.
Tillaga: Hann biður því Willum Þór Þórssonar heilbrigðisráðherra að grípa til aðgerða og stuðla að betri sjúkraflutningum.
3.
Það hefur oft sést að ef þú ert með stóra skjálfta, þá færðu svokallaða eftirskjálftavirkni. Það hefur til dæmis gerst í Suðurlandsskjálftum, þá færðu einn stóran skjálfta og svo eru ákveðnar sprungur sem verður mikil skjálftavirkni á í kjölfarið. En þetta er aðeins öðruvísi þar sem um er að ræða framrás kvikugangs. Þú ert að fá mjög stóran skjálfta sem veldur spennubreytingum í jarðskorpunni
Frétt á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu 18.7.22.
Athugasemd: Ég hef aldrei fengið jarðskjálfta? En þú lesandi góður? Nei, ég hélt ekki enda er þetta frekar óvandað talmál.
Blaðamaðurinn skrifar nákvæmlega upp orð viðmælanda síns rétt eins og einkaritari í gamla daga. Honum dettur ekki í hug að umorða það sem sagt er eða breyta og skrifa í óbeinni ræðu. Hann virðist hafa skilið skynsemina eftir heima.
Fyrir vanan blaðamann er svo óskaplega auðvelt að færa orðalagið til betri vegar, en fái hann engar leiðbeiningar frá ritstjórninni verður fréttin svona hrikalegt stórslys. Hvernig er hægt að birta svona?
Verkefni blaðamanns er að miðla upplýsingum. Hann gerir engum greiða með því að skrifa upp talmál, hvorki viðmælenda sínum og allra síst okkur lesendum.
Tillaga: Oft koma eftirskjálftar á eftir stórum skjálftum. Í Suðurlandsskjálftum verður oft einn stór skjálfti og eftir það mikil skjálftavirkni. En þetta er aðeins öðruvísi þar sem um er að ræða framrás kvikugangs. Mjög stór skjálfti veldur spennubreytingum í jarðskorpunni
4.
Það var erfitt að koma okkur í þá stöðu að þurfa að sækja úrslit á móti Frakklandi
Frétt á fréttablaðinu.is.
Athugasemd: Hvað merkir að sækja úrslit? Veit blaðamaðurinn það? Þetta er ekki til. Leikur liða í fótbolta endar, það eru úrslit hans, lyktir.
Ekki er heldur hægt að segja að ná í úrslit, það er bara bull. Úrslit eru ljós í enda leiks hvernig sem hann fer.
Ekki segja að úrslit leiksins sé niðurstaða. Leitun er að orði sem er eins útjaskað. Íþróttablaðamenn Ríkisútvarpsins misnota það gegndarlaus rétt eins og þeir þekki ekki orðin úrslit, sigur, jafntefli eða tap.
Hins vegar reyna fótboltamenn að sigra og það á viðmælandi Fréttablaðsins við. Blaðamenn verða að lagfæra það sem hrekkur upp úr viðmælendum sínum í æsingi eftir leik.
Tillaga: Það var erfitt að koma okkur í þá stöðu að þurfa að sigra Frakkland
5.
Ef hópur fer hér um og leiðsögumaður kaupir kannski 40 brauð á leið upp á hálendið hlýtur að skapast ástand
Frétt á blaðsíðu 2 í Fréttablaðinu.
Athugasemd: Kaupi enginn brauð skapast ástand? Kaupi leiðsögumaðurinn ekki brauð en fjörutíu farþegar eitt hver, hefur þá skapast ástand?
Skrif blaðamannsins skapar ástand? Er Fréttablaðið í ástandinu?
Í fréttinni segir:
Hún [verslunin] hefur aftur á móti stórt hlutverk í næringarkeðju þeirra sem búa í Mývatnssveit og eiga leið um.
Mikilvægt er að spyrja hvor fólk éti verslanir í Mývatnssveit? Það væri nú ljóta ástandið.
Tillaga: Komi hópur hingað á leið upp á hálendið og leiðsögumaðurinn kaupi fjörutíu brauð hlýtur þeim að fækka
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)