Bera Messi augum - úlpa varð að rúst - fallegt athæfi
7.1.2023 | 16:27
Orðlof
Fiskari
En ef seinni hlutinn -maður í fiskimaður þykir óheppilegur, hvers vegna er orðið sjómaður þá látið standa óbreytt?
Í nýlegu viðtali sagði samskiptastjóri Samgöngustofu
að við mótun laganna hafi sérstaklega hafi verið gætt að því að orðalag þeirra væri kynhlutlaust, en þó ekki þannig að það nái til tiltekinna hugtaka sem hafa unnið sér til hefðar að vera sérstaklega kynjuð.
Þótt seinni hluti málsgreinarinnar sé ekki mjög skýr og e.t.v. eitthvað brenglaður geri ég ráð fyrir að þarna sé átt við orð eins og sjómaður sem er margfalt algengara orð en fiskimaður, og því hafi ekki þótt ástæða til að hrófla við því. Enda er sjómaður, öfugt við fiskari, ekki notað sem íðorð í lögunum og því ekki skilgreint þar sérstaklega.
Fólk getur auðvitað haft þá skoðun að fiskari sé orðskrípi en nýyrði er það sannarlega ekki eins og áður segir. Það kemur meira að segja fyrir í fyrstu bók sem var prentuð á íslensku, þýðingu Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu 1540.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Spilliblota spáð á sunnudag.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Ánægjulegt er að sjá gamalt og gott orð kynnt á vef Moggans. Spillibloti er annað orð yfir hláku og blota, þekkt orð í nútímamáli. Sjá Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
Tillaga: Engin tillaga.
2.
Þurfa að bíða lengur eftir því að bera Messi augum.
Frétt á fréttablaðinu.is.
Athugasemd: Óskaplega er þetta slæm villa. Segir ýmislegt um stjórnendur Fréttablaðsins.
Tillaga: Þurfa að bíða lengur eftir því að berja Messi augum.
3.
Trén frostbarin og kuldaleg að sjá, en að undanförnu hafa frosttölur hér á landi margsinnis verið tveggja stafa.
Myndatexti á forsíðu Morgunblaðsins 6.1.23.
Athugasemd: Tilgerðaleg skrif. Tillagan er mun skárri en tilvitnunin. Hvað merkir annars orðið frostbarinn? Geta tré verið barin frosti?
Oft er talað um að menn séu veðurbarðir. Sá sem er kalinn eftir ógnarveður að vetrarlagi er ekki frostbarinn þó kalinn sé.
Tré sem hefur tekið á sig ísingu er ekki frostbarið, það er hélað eða hrímað.
Tillaga: Trén héluð og kuldaleg að sjá, en að undanförnu hefur frostið margsinnis farið yfir tíu gráður.
4.
Það kom stærðar gat á hana og úlpan var rústir einar.
Frétt á fréttablaðinu.is.
Athugasemd: Fatnaður sem eyðileggst verður ekki að rúst. Hins vegar geta hús skemmst svo mikið að þau verða rústir einar. Rústir eru leifar af mannvirki af einhverju tagi.
Í sífrera finnast oft rústir en það eru þúfur eða hólar í freðmýri.
Blaðamaðurinn virðist vera óvanur, hefur ekki góðan orðaforða.
Tillaga: Stærðar gat á hana og úlpan eyðilagðist.
5.
Fallegt athæfi Guðmundar sem arfleiddi 200 milljónum.
Frétt á fréttablaðinu.is.
Athugasemd: Nafnorðið athæfi getur merkt margt. Í nútímamáli er það oftar en ekki notað um það sem neikvætt er; glæpsamlegt athæfi, ófyrirgefanlegt athæfi, fyrirlitlegt athæfi, saknæmt athæfi og svo framvegis. Fallegt athæfi er sjaldgæft orðalag.
Hins vegar getur athæfi merkt verk, breytni, athöfn, hátterni og framferði svo eitthvað sé nefnt.
Reyndur blaðamaður hefði notað annað orð en athæfi, til dæmis breytni.
Í fréttinni er klaufaleg villa, sagt að arfurinn hafi verið 200 milljónir punda sem væri um 35 milljarðar íslenskra króna.
Tillaga: Fallegt breytni Guðmundar sem arfleiddi 200 milljónir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)