Sigdalur - öryggi hverfur á braut - kvika undir kvikugangi
15.11.2023 | 10:32
Orðlof
Deyja fyrir aldur fram
Orðasambandið deyja fyrir aldur fram (of snemma, fyrr en vænta mátti) er af sama toga en í nútímamáli gætir þess nokkuð að það sé notað í myndinni um aldur fram, t.d:
deyja langt um aldur fram (12.11.06).
Hér gætir ugglaust áhrifa frá merkingu orðasambandsins um of, sbr. e-ð er (einum) um of.
Sömu tilhneigingar gætir reyndar einnig í orðasambandinu rasa fyrir ráð fram en af því er einnig kunnugt afbrigðið rasa um ráð fram.
Hvorug myndanna deyja um aldur fram né rasa um ráð fram styðst við uppruna.
Til fróðleiks má geta þess að elsta dæmi um orðasambandið um of er frá 16. öld:
*Um of var syndin sterk.
Atviksorðið of stendur hér sem nafnorð í svipaðri merkingu og megn, afl.
Jón G. Friðjónsson, Málfarsbankinn.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Skipið nötraði þegar stórir skjálftar sendu af stað hljóðbylgjur og skullu á fleyinu.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Þarna hefði betur farið á því að skrifa eins og segir í tillögunni. Fréttin er hins vegar fróðleg.
Tillaga: Skipið nötraði þegar stórir skjálftar sendu af stað hljóðbylgjur sem skullu á því.
2.
Óttast að fjölskyldan missi allt sem hún hafi unnið fyrir.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Þetta er dálítið undarleg fyrirsögn. Hvað er það sem fólk hefur unnið fyrir? Einfaldlega það sem hún á.
Eftir að hafa lesið inngang fréttarinnar stendur: Fólk óttast að missa allt sitt. Í þessu felst kjarni málsins og hefði fyrirsögnin átt að vera þannig.
Tillaga: Óttast að fjölskyldan missi allt sitt.
3.
Segir Úlfar í samtali við mbl.is að það verði gert í hollum en aðgerðin gagnvart öðru hollinu er farin af stað.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Fréttin fjallar um leyfi fyrir Grindvíkinga til að sækja verðmæti í hús sín. Holl getur merkt áfangi, hópur eða álíka, allt eftir samhenginu.
Hvað er átt við með aðgerð gagnvart öðru hollinu? Þetta er illskiljanlegt og forsetning gangvart hjálpar ekkert.
Blaðamaðurinn gætir sín ekki á nástöðunni, holl og holl. Tillagan er skárri.
Betur fer á því að skrifa fréttina í þátíð.
Í fréttinni stendur, nástaðan er feitletruð en hún er samt ekki aðalatriðið:
Segir hann að með þessum hætti komi ekki til þess
Sjaldan fer vel á því að byrja málsgrein á sagnorði nema verið sé að spyrja einhvers. Hér eru þrjú dæmi:
Segir hann að með þessum hætti verði það ekki gert?
Segir hann að með þessum hætti verði það ekki gert.
Hann segir að með þessum hætti verði það ekki gert.
Talsverður munur er á þessu. Hvert myndi lesandinn vilja að stæði í fréttinni?
Tillaga: Úlfar sagði í samtali við blaðamann að það verði gert í hollum og hafa nú tvö farið af stað.
4.
Íslenska landsliðið sýndi góða frammistöðu gegn Tyrkjum.
Kvöldfrétt í Ríkisútvarpinu 13.11.23.
Athugasemd: Íþróttablaðamenn á Ríkisútvarpinu eru elskir að nafnorðalýsingum rétt eins og enskumælandi þjóðir. Sjaldan segja þeir að segja að íþróttamenn hafi staðið sig vel.
Tillaga: Íslenska landsliðið stóð sig vel gegn Tyrkjum.
5.
Sigdalurinn hefur sigið í nótt og er enn á hreyfingu
Frétt á Vísi.
Athugasemd: Sigdældina í Grindvík má ekki kalla sigdal vegna þess að hún hefur engin einkenni dals. Ekki frekar en að segja að holt og hæðir séu fjöll. Öskjuhlíð og Breiðholt eru ekki fjöll. Akureyrarkirkja stendur ekki á fjalli. Gígur er ekki dalur, laut er ekki dalur, ekki dæld, hvilft ekki heldur. Ekið var á bílinn minn um daginn og dæld myndaðist, ekki dalur.
Þessi sigdæld myndaðist vegna þess að land yfir kvikuganginum seig um einn metra að jafnaði.
Tillaga: Sigdældin hefur sigið í nótt og er enn á hreyfingu
6.
Margrét kveðst óviss um að hún geti snúið aftur heim þegar öryggið sem fylgja skal heimilinu er horfið á braut.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Málsgreinin er í lagi en niðurlagið óþarft. Það sem er horfið er einfaldlega farið, hér hreinlega gufað upp.
Til fróðleiks má nefna það sem Jón G. Friðjónsson segir á vef Málfarsbankans:
Þegar í elsta máli eru þess fjölmörg dæmi að no. braut hafi glatað orðfræðilegri merkingu og standi þá sem ao. í hlutverksmerkingu, þ.e. orðasambandið fara á braut/brott/burt er hliðstætt e. go away og þ. weggehen. Til einföldunar má segja að grunnmyndir af ao. séu þrjár:
braut, brott og burt.
Af hverri myndanna þriggja eru kunn allmörg afbrigði.
Miðað við upphaflega merkingu orðsins braut sem er vegur, leið, slóð, er varla hægt að segja að aðrir en menn fari á braut, það er fari sinn veg. Varla fer lykt á braut, þægindi eða þá öryggi. Ótalmargt hverfur.
Tillaga: Margrét kveðst ekki vita hvort hún geti snúið aftur heim því öryggi heimilisins er horfið.
7.
Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur segir að kvikan á Reykjanesskaga sé á litlu dýpi undir kvikuganginum
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Vonandi skaðast kvikugangurinn nú ekki af kvikunni sem er undir honum.
Grínlaust. Orðalagið getur varla staðist. Miklu frekar að í stað kvikugangs eigi að standa sigdæld. Hins vegar er þetta undarlega orðalag endurtekið síðar í fréttinni og þrátt fyrir það skilur lesandinn ekkert. Skilur blaðamaðurinn það sem hann skrifaði?
Að öllum líkindum er verið að tala um yfirborðið, ekki tómt rými neðanjarðar sem kvika geti komist upp í. Sé svo ætti tóma rýmið að kallast eitthvað annað en kvikugangur.
Í fréttinni er talað um sigdal í stað sigdælar. Enginn dalur hefur myndast í Grindavík. Sigdældin er á yfirborðinu og undir er kvikugangur sem nefnist svo vegna þess að í honum er kvika. Þegar kvika í slíkum gangi hefur kólnað er talað um berggang. Þeir sjást víða eftir að mýkra berg í kringum þá hefur rofnað, til dæmis í móbergi.
Tillaga: Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur segir að kvikan á Reykjanesskaga sé á litlu dýpi undir sigdældinni .
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)