Slys sem raungerist - einhverjum dögum síðar - það er, það er, það er
2.11.2023 | 13:57
Orðlof
Eigðu góðan dag
Vertu gæfu allrar án
allt þitt hreppi Drómi lán
ettu mör og mygluskán,
misstu í brækur þvag.
Ávallt sé þér voðinn vís
vertu svo með njálg og lýs,
ettu það sem úti frýs:
EIGÐU GÓÐAN DAG!
Bjarki Karlsson (2014).
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
sem evrópskt lággjaldaflugfélag, sem starfar á hinum mjög svo samkeppnishæfa Norður-Atlantshafsmarkaði, hefur skilað arðbærri ársfjórðungsniðurstöðu.
Frétt á Vísi.
Athugasemd: Þarna er átt við að á markaðnum sé mikil samkeppni. Vitnað er í norskan fluggreinanda eins og það er kallað og hann segir á Linkedin:
operating in the highly competitive North-Atlantic market
Blaðamaðurinn þýðir þetta beint og útkoman er röng. Ekki er átt við að svokallaður Norður-Atlantshafsmarkaður sé samkeppnishæfur. Tillagan er skárri.
Tillaga: sem evrópskt lággjaldaflugfélag á Norður-Atlantshafsmarkaði þar sem samkeppnin er mikil, hefur skilað arðbærri ársfjórðungsniðurstöðu
2.
Sendinefnd háttsettra lögreglufulltrúa frá Portúgal ferðaðist til Bretlands fyrr á þessu ári til að
Frétt á Vísi.
Athugasemd: Venjulega er sagt að menn fari frá einu landi til annars. Þeir sem ferðast eru á ferðalagi, leggja land undir fót, fara til annarra landa, skoða heiminn.
Heimildin getur verið vefur enska fjölmiðilsins Guardian en þar segir:
Earlier this year, a delegation of police officers travelled from Lisbon
Blaðamaðurinn þýðir þetta beint sem á ekki við.
Á ruv.is er sama frétt og þar stendur réttilega:
Breska ríkisútvarpið greinir frá því að sendinefnd portúgölsku lögreglunnar hafi farið til Bretlands
Á vef Ríkisútvarpsins stendur:
Goncalo Amaral, rannsóknarlögreglumaðurinn sem leiddi rannsókn málsins til að byrja með en var seinna fjarlægður, skrifaði til að mynda bók
Hér er eins og byrjandi skrifi. Lögreglumaðurinn var fjarlægður. Hvað var gert við manninn. Var hann handtekinn? Var farið með hann eins og hlut, fjarlægður af einum stð og settur eitthvað annað? Og sá fjarlægði skrifaði til að mynda bók. Hvað merkir þetta orðalag?
Í fréttinni stendur:
Þess utan hafa hjónin þurft að standa undir fjölmörgum ásökunum á netinu um að þau hafi drepið dóttur sína og hulið glæpinn.
Líklega er þetta bein þýðing úr ensku, hulið glæpinn.
Tillaga: Sendinefnd háttsettra lögreglufulltrúa frá Portúgal fór til Bretlands fyrr á þessu ári til að
3.
Hugmyndin með þessari tækni er að við getum lagt mat á umferðaröryggi áður en að það raungerist slys.
Frétt á blaðsíðu 4 í Morgunblaðinu 31.10.23.
Athugasemd: Þetta er afar illa skrifað. Orðið raungera, eiginlega drasl. Hingað til hefur sögnin að vera þótt ágæt og varla ástæða til að henda henni. Tillagan er nokkuð skárri.
Tillaga: Hugmyndin með tækninni er að leggja mat á umferðaröryggi áður en að slys verður.
4.
Einhverjum dögum síðar hafi byssumenn farið inn í húsið og skotið alla fjölskylduna til bana þegar
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Skrýtið að láta einhver koma í stað nokkur. Heimildin er vefur CNN en þar stendur:
Days later, gunmen returned and shot all nine members of the family, who were
Blaðamaðurinn reynir ekki að þýða þetta.
Á Málfarsbankanum segir:
Í staðinn fyrir orðið einhver fer oft betur t.d. á orðunum nokkur og fáeinir. Hann var í burtu í fáeina daga. (Síður: hann var í burtu í einhverja daga.)
Fólk sem hefur iðkað lestur frá barnæsku myndi aldrei rugla þessum tveimur orðum saman, einhver og nokkur.
Tillaga: Nokkrum dögum síðar hafi byssumenn farið inn í húsið og skotið alla fjölskylduna til bana þegar
5.
Það er mikið óréttlæti í heiminum en af og til verður það yfirþyrmandi.
Aðsend grein á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu 1.11.23..
Athugasemd: Hver er ritfær? Líklega eru flestir þokkalega ritfærir. Sumir segja að allt sé gott sem skilst. Þó er ýmislegt sem veldur því að sumir höfundar skrifa betur en aðrir.
Greinar í dagblöðum eru oft lítt áhugavekjandi. Kemur margt til. Nefna má að sumir skrifa of langt mál, aðrir skrifa óskipulega, enn aðrir komast ekki að kjarna síns mál fyrr en í lokin. Þannig má lengi telja.
Eitt af því lakara er þegar höfundar byrja málsgreinar á það. Orðið kallast stundum aukafrumlag því það hefur engin áhrif á sögnina sem ræður. Þó verður að taka það fram að stundum er nær ómögulegt að komast hjá aukafrumlaginu, það veit sá sem þetta skrifar. Hitt þroskar hvern mann ef hann reynir að skrifa sig framhjá því. Oftast er það til bóta.
Fyrir lesandann er verulega slæmt komist höfundur greinar ekki að kjarna máls fyrr en í lokin. Sá sem hér skrifar hefur hér fallið í þann pytt og ætti því að byrja aftur en gerir það auðsjáanlega ekki.
Höfundur greinarinnar í Mogganum byrjar fjórar málsgreinar í röð á orðinu það sem er ekki góður stíll:
- Það er mikið óréttlæti
- Það var yfirþyrmandi
- Það er ekki til afsökun
- Það sama á við um árás
Hann hefði getað umorðað þetta og þannig hefði greinin orðið skárri. Berum saman tilvitnunina og tillöguna.
Taka skal fram að hér er hvorki verið að álasa höfundi né verið að gagnrýna greinina efnislega.
Tillaga: Mikið óréttlæti er í heiminum en af og til verður það yfirþyrmandi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)