Útsýni yfir Esju - raungerast - fundur fór fram - endurteknir jarðskjálftar
22.11.2023 | 11:41
Orðlof
Hæstaréttarmálaflutningsmaður
Fólk hefur lengi velt fyrir sér þessari spurningu og gert sér leik að því að búa til orð eins og
Vaðlaheiðarvegavinnuverkfærageymsluskúr eða jafnvel hæstaréttarmálaflutningsmannsvinnukonuútidyralyklakippuhringur.
Slík orð koma auðvitað ekki fyrir í venjulegu máli en í raun og veru má hugsa sér að halda endalaust áfram að prjóna við þau.
Menn hafa aftur á móti athugað hversu löng orð koma fyrir í raunverulegum textum og komist að því að þau verði tæpast lengri en 8-10 atkvæði.
Í einni athuguninni reyndist lengsta orðið sem greinilega var ein heild vera ellefu atkvæði. Það var undirstöðuatvinnufyrirtæki en sjálfsagt er hægt að finna fleiri orð af sömu lengd í öðrum textum.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Garðurinn sem umlykur húsið er gróinn og þaðan er fallegt útsýni yfir Esjuna.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Garðurinn er umhverfis einbýlishús. Nokkuð vantar upp á að hann umlyki til dæmis veggi, glugga og þak.
Hæsti hluti Esju er 914 metrar hár og nefnist Hábunga. Ekkert hús er nógu hátt svo frá því sjáist yfir Esjuna. Frá mörgum húsum af ýmsum stærðum er útsýni til Esju.
Í fréttinni segir:
en það státar af þremur svefnherbergjum og einu baðherbergi.
Í Íslenskri orðsifjabók segir að sögnin að státa merki að hreykja sér, gorta, láta mikið. Hefur einhver heyrt um hús sem hreykir sér eða gorti? Varla. Státa á við fólk, síður dauða hluti.
Þetta er skárra:
en í því eru þrjú svefnherbergi og eitt baðherbergi.
Tillaga: Garðurinn er gróinn og þaðan er fallegt útsýni til Esju.
2.
Jarðskjálfti af stærðinni 3,7 mældist klukkan 05:35 í morgun, um þrjá kílómetra vestur af Kleifarvatni.
Frétt á Vísi.
Athugasemd: Ekki er óalgengt að árekstur verði í Ártúnsbrekku í Reykjavík. Enginn sómakær blaðamaður myndi orða það þannig að hann hefði orðið þremur km austur af gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.
Jarðskjálftamælar Veðurstofunnar eru víða, meðal annars við Kleifarvatn. Sá nam skjálfta sem varð í Móhálsadal, það er vestan við Sveifluháls, um þrjá km frá mælinum.
Í fréttum á skjálftinn að vera aðalatriðið, ekki hversu langt hann er frá mælinum. Áreksturinn var í Ártúnsbrekku. Skjálfti varð í Móhálsadal, mun skemur frá Djúpavatni en Kleifarvatni.
Tillaga: Jarðskjálfti sem mældist 3,7 stig mældist varð klukkan 05:35 í morgun skammt frá Djúpavatni í Móhálsadal.
3.
Úkraína hefur gert margar tilraunir til að fara yfir ána og halda stöðu sinni þar, sem nú virðist loks vera að raungerast.
Frétt á blaðsíðu 15 í Morgunblaðinu 20.11.23.
Athugasemd: Sögnin raungera er draslorð. Mörg önnur eru betri, til dæmis að takast.
Tillaga: Úkraína hefur oft reynt að fara yfir ána og ná þar fótfestu, sem nú virðist loks hafa tekist.
4.
Í morgun fór fram samráðsfundur sérfræðinga Veðurstofunnar, Háskóla Íslands og almannavarna.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Er ekki einfaldara og skýrara að orða þetta eins og gert er í tillögunni? Það sem á annað borð er hlýtur að fara fram.
Í fréttinni segir:
sýna að landrisið í Svartsengi er talsvert hraðara en áður en kvikugangurinn myndaðist
Þetta má orða á betri veg:
sýna að landið rís talsvert hraðar í Svartsengi en áður en kvikugangurinn myndaðist
Merkingin hefur ekkert breyst. Hið fyrra gengur út á nafnorðið landris rétt eins og í ensku. Hið síðara byggir á sagnorðinu rísa.
Og hvað með það? Jú, í fréttinni er sextán sinnum talað um landris sem er alltof mikið. Nástaða dauðans.
Aldrei er nefnt að land rísi, orðalag sem mætti sjást mun oftar.
Tillaga: Í morgun var samráðsfundur sérfræðinga Veðurstofunnar, Háskóla Íslands og almannavarna..
5.
Allra leiða leitað til standa með Grindvíkingum
Frétt á Vísi.
Athugasemd: Þarf að elita leiða til að standa með Grindvíkingum? Er ekki nóg að þeir hafi neyðst til að flýja bæinn sinn?
Þetta er frekar bjánaleg málsgrein.
Tillaga: Engin tillaga.
6.
Byggingarverkfræðingur telur áríðandi að breyta hönnun Fossvogsbrúarinnar áður en hún kemur til framkvæmda.
Frétt á Vísi.
Athugasemd: Hvað er átt við með orðalaginu áður en hún kemur til framkvæmda? Líklega er átt við byggingu hennar sem í sjálfu sér er framkvæmd. Hins vegar er eðlilegra að orða þetta eins og gert er í tillögunni.
Tillaga: Byggingarverkfræðingur telur áríðandi að breyta hönnun Fossvogsbrúarinnar áður en hún verður byggð.
7.
Konan kvartaði undan miklum dynkjum þegar gengið var um gólfið í kjölfar vinnunnar.
Frétt á Vísi.
Athugasemd: Allir vita hvað kjölfar er. Oft er talað um það sem gerist í kjölfar atburða af einhverju tagi. Í mörgum tilvikum er einfaldara að nota forsetninguna eftir.
Æði langt er á milli kjölfars og smíðavinnu innanhúss. Þess vegna er betra að sleppa orðalagi sem á ekki efnislega við.
Tillaga: Konan kvartaði undan miklum dynkjum þegar gengið var um gólfið eftir framkvæmdirnar.
8.
Grindvíkingar hafa mátt þola endurteknar jarðskjálftahrinur síðan Reykjanesskagi rumskaði.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Jarðskjálftar endurtaka sig ekki, þeir koma aftur og aftur. Sé skammt á milli má segja að hrinurnar séu sífelldar.
Varla er hægt að segja að bolti sem skoppi lendi endurtekið á gólfi.
Grjót sem fellur úr klettabelti skellur af og til í hlíðinni, ekki endurtekið.
Ökumaður sem lendir í umferðarteppu þarf í sífellu að taka af stað og svo stöðva, ekki aka endurtekið eða stöðva endurtekið.
Á Landspítalanum fæðast börn dag hvern, þó ekki endurtekið.
Í fréttinni segir:
Einmitt þannig tók Ísland að hlaðast upp, í endurteknum eldgosum yfir tugi milljóna ára.
Þetta er ekki rétt. Gosin voru ekki endurtekin heldur komu í sífellu upp ný og ný eldgos.
Tillaga: Grindvíkingar hafa mátt þola sífelldar jarðskjálftahrinur síðan Reykjanesskagi rumskaði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)