Orðlof
Vænn
Lýsingarorðið vænn hefur ýmsar merkingar, t.d. í samböndum eins og
að fá vænan skerf af einhverju, í góðum holdum eins og í sambandinu vænn dilkur og ekki síst góður, eins og þegar sagt er vænsti drengur.
Á undanförnum árum er farið að nota þetta orð í merkingunni vinsamlegur í ýmsum samsetningum þar sem þýða þarf enska orðið friendly; notendavænn, umhverfisvænn, fjölskylduvænn, vistvænn.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Manchester United vann gífurlega öruggan heimasigur á Leicester City
Frétt á blaðsíðu 26 í Morgunblaðinu 20.2.23.
Athugasemd: Fyrr má nú rota en dauðrota. Hver skyldi munurinn vera á gífurlega öruggum sigri eða öruggum sigri? Börnin segja: Pabbi minn er ofsalega mikið sterkur.
Allt er þetta með skrifað með óþarflega upphöfnum hætti. Einföld frásögn hefði þjónað lesandanum betur en í því pæla íþróttablaðmenn sjaldnast.
Í fréttinni segir:
Ríkjandi Englandsmeistarar
Hver skyldi vera munurinn á ríkjandi Englandsmeisturum og Englandsmeisturum? Orðinu ríkjandi er ofaukið. Í þessu sambandi er það draslorð, segir ekkert. Það er ofurvinsælt hjá barnungum íþróttablaðamönnum á öllum fjölmiðlum.
Tillaga: Manchester United vann Leicester City örugglega á heimavelli sínum
2.
Ég meina það má kannski segja sko að eina leiðin sem er hægt að hugsa sér að þetta stríð stoppi
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Enginn verður blaðamaður án tilsagnar. Svo virðist sem Ríkisútvarpið segi ekki nýliðum til um fréttaskrif. Blaðamennirnir nota upptökutæki og skrifa samviskusamlega niður ummælin, jafnvel með hikorðum eins og hér sést, en sem betur fer ekki þegar þeir snýta sér eða ræskja sig. Ekkert virðist lagfært og fréttin er bæði blaðamanni og viðmælanda til vansa.
Fréttin er endursögn á því sem sagt var í viðræðuþætti. Engin tilraun er gerð til að finna fréttapunkta. Fréttin byrjar á óáhugaverðu yfirliti sem allir þekkja. Þessu næst er rakið hvað þátttakendur sögðu í þættinum.
Öll fréttin er slöpp og ber engin einkenni fréttar, miklu frekar metnaðarlaust yfirlit til uppfyllingar.
Tillaga: Eina leiðin sem er hægt að hugsa sér að þetta stríð hætti .
3.
Vísindamennirnir hafa fylgst með háhyrningnum sem nefndur hefur verið Sædís um allnokkurt skeið og hafði honum eða öllu heldur henni verið gefið nafnið Sædís.
Frétt á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu 21.2.23.
Athugasemd: Góð regla eftir skrif er að lesa yfir. Þarna er nástaða. Blaðamaðurinn hefði átt að setja punkt í miðri málsgreininni og lagfæra um leið orðaröðun eins og gert er í tillögunni.
Fréttin er frekar tómleg miðað við fyrirsögnina.
Tillaga: Vísindamennirnir hafa um allnokkurt skeið fylgst með háhyrningnum sem nefndur er Sædís.
4.
Umdeildur fulltrúadeildarþingmaður með vaxandi áhrif innan Repúblikanaflokksins kallaði eftir því að Bandaríkjunum yrði skipt í tvennt
Frétt á vísi.is.
Athugasemd: Útiokað er að skilja orðalagið kalla eftir. Er átt við að merki að biðja um, óska eftir, krefjast einhvers, heimta eitthvað og svo framvegis?
Síðar í fréttinni er sagt að ofangreindur þingmaður hafi lagt eitthvað til, ekki kallað eftir. Það er skárra.
Tillaga: Engin tillaga.
5.
Eiginkonan sagði í kvörtun sinni að hún [taskan] hefði verið mjög dýr og átt að endast til margra ára.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Flestir hefðu án efa orðað það þannig að taskan hefði átt að endast í mörg ár. Af hverju er verið að víkja frá hefðbundnu máli?
Í þátíð hefði verið sagt að taskan hafi enst í mörg ár eða entist eða dugði í mörg ár. Engin segir að taskan hafi enst eða dugað til margra ára.
Tillaga: Eiginkonan sagði í kvörtun sinni að hún [takan] hefði verið mjög dýr og átt að endast í mörg ár.
6.
Ástæðan er eflaust sú að kvenkynsorð sem enda á &einfgaes1;-ur&einfgaes2;
Orðaborgarar á vefnum Málsgreinar hjá Árnastofnun.
Athugasemd: Feitletruðu orðin eru forritunarmál sem ófullkominn vefur hefur ekki unnið úr eins og hann átti að gera. Höfundur birtir lærðan texta sinn á vefnum og þetta er útkoman, ólæsilegur og óskiljanlegur (sjá til dæmis orðið vænn í Orðaborgarar). Hann gleymir að lesa skrifin yfir eftir birtingu og umsjónarmaður vefs Árnastofnunar hefur verið í kaffi í nokkur ár.
Ofangreind delluorð standa fyrir úrfellingarmerki () (á ensku apostrophe). Þau eru notuð til að afmarka orð eða orðasamband; orð eða samband orða. Einnig fella úr stafi; fellúr.
Ófullkomin vefforrit birta hins vegar aðeins fyrirskipunina sem er að baki táknsins.
Hið sama gerist í athugasemdum í Moggablogginu, þó ekki í meginmáli bloggsins. Hér er dæmi: „mislíkar mjög“. Væri vefurinn fullkominn ætti að standa þarna mislíkar mjög. Forritið birtir ekki tilvitnunarmerkin, gæsalappirnar, aðeins skipunina í forritunarmálinu.
Tillaga: Ástæðan er eflaust sú að kvenkynsorð sem enda á -ur
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)