Raðfrumkvöðull - upptaka af dauðdaga - forgangsraða orðspori sínu
20.7.2023 | 10:00
Orðlof
Seiva
Vista er gömul sögn í málinu, skyld sögninni vera, og merkti koma einhverjum til dvalar á ákveðnum stað.
Um miðjan níunda áratuginn var hún tekin upp í tölvumál og gefin ný merking, en þó vissulega skyld þeirri eldri; geyma skrá á diski.
Áður hafði slettan seiva (sbr. ensku sögnina save) verið notuð í þeirri merkingu í nokkur ár.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Raðfrumkvöðullinn Elon Musk upplýsti
Frétt á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu 17.7.23.
Athugasemd: Hvað er raðfrumkvöðull? Er það maður sem er frumkvöðull oftar en einu sinni.
Á orðaneti Árnastofnunar eru þessi samheiti nefnd: Brautryðjandi, forgöngumaður, forsprakki, forvígismaður, frumherji, hvatamaður og upphafsmaður.
Spyrja má: Þarf að gera greinarmun á þeim sem er frumkvöðull á einu sviði og þeim sem er reynist vera frumkvöðull aftur og aftur?
Nokkrir erlendir vefir eru með sömu frétt og Mogginn en í fljótu bragði gat ég ekkert séð neitt um raðfrumkvöðulinn Elon Musk. Dreg því þá ályktun að orðið sé uppfinning blaðamanns Moggans.
Tillaga: Elon Musk upplýsti
2.
Á sama tíma eru eþíópískir þjóðdansar dansaðir
Frétt á blaðsíðu 29 í Morgunblaðinu 18.7.23.
Athugasemd: Skelfing flatt og ómerkilegt er að segja að dansar séu dansaðir, stökk stokkin, göngur gengnar og svo framvegis.
Í fréttinni er sagt frá skemmtilegum atburðum víða um heim og fylgja myndir. Blaðamaðurinn er fljótfær, ekki einu sinni heldur tvisvar. Hann les ekki yfir frétt sína.
Tillaga: Á sama tíma eru eþíópískir þjóðdansar sýndir .
3.
Skemmtiferðaskip slitnaði frá bryggju í miklum vindi.
Frétt á visi.is.
Athugasemd: Fyrir nokkrum árum hefði ofangreind málsgrein verið orðuð eins og segir í tillögunni. Veðurfræðingar tala sífellt um mikinn vind og lítinn vind. Þeir eru hættir að nota orð eins og hvassviðri eða hægviðri. Áróður veðurfræðinga hefur haft áhrif á blaðamann Vísis. Það er slæmt.
Í fréttinni er endurtekið að skipið hafi losnað frá bryggju vegna vinds.
Í fréttinni segir:
Enginn slasaðist í atvikinu sem hefur þó vakið nokkurn óhug.
Þarna hefði mátt sleppa feitletraða orðinu og hefði merkingin málsgreinarinnar ekkert breyst.
Tillaga: Skemmtiferðaskip slitnaði frá bryggju í hvassviðri.
4.
Fundu upptöku af dauðdaganum en ekki líkið.
Frétt á vísi.is.
Athugasemd: Skrýtið orð dauðdagur. Ekki finnst það í orðabók.Hins vegar er til dauðadagur, dauðadægur, endadægur, dánardagur, dánardægur, banadægur, endadægur. Öll orðin eiga við andlát eða dauða. Ekkert þeirra er hægt að nota sem dauði eða andlát.
Af tilvitnuðu orðunum má draga þá ályktun að blaðamaður Vísis sé ekki vanur skrifum og hafi ekki traustan orðaforða til að styðjast við. Annars hefði hann skrifað svipað og segir í tillögunni.
Í fréttinni segir:
Upptakan hélt áfram og sýndi að bát hans hvolfdi út af öflugum straumi sem kom frá jöklinum.
Feitletruðu orðin geta þarna merkt að hann bátunum hafi hvolft vegna straumsins. Þau geta einnig merkt að báturinn hafi ekki verið í straumnum heldur nálægt honum (dæmi: hann var á sjó grunnt út af landi). Sé hið fyrrnefnda rétt hefði verið skárra að skrifa:
Upptakan hélt áfram og sýndi að bát hans hvolfdi í öflugum straumi sem kom frá jöklinum.
Mörgum blaðamönnum veitti ekki af aðstoð þeirra reyndari en slæmt er ef hún er ekki í boði.
Tillaga: Fundu upptöku af banaslysinu en ekki líkið.
5.
Fyrir tveimur árum leiddi rannsókn í ljós að lögreglan hafði kerfisbundið forgangsraðað orðspori sínu fremur en að fletta ofan af málum.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hvernig er hægt að forgangsraða orðspori og í ofanálag kerfisbundið? Orðalagið er kjánalegt, óskiljanlegt og óboðlegt á vef Morgunblaðsins.
Tillaga: Engin tillaga.
6.
Leituðu að jarðsýnum við Lambahraun.
Frétt á blaðsíðu 18 í Morgunblaðinu 20.7.23.
Athugasemd: Hvort eru vísindamenn í eða við Lambahraun? Á þessu er nokkur munur.
Hvar er Lambahraun? Blaðamaðurinn lætur þess ógetið. Á örnefnakorti Landmælinga eru til þrjú Lambahraun; norðan við Hofsjökul, austan við Hlöðufell og við Fljótstungu vestan við Strút í Borgarfirði.
Hvað er til dæmis berghula? Blaðamaðurinn skýrir það ekki. Lesandinn þarf að fletta upp í orðabók til að skilja. Óvenjulegt er að segja að safna skuli íslensku bergi og berghulu. Er átt við grjót eða bergtegundir? Blaðamaðurinn virðist ekki hafa skilið viðmælendur sína.
Í fréttinni segir:
Þá greinir hann frá því að samspil jökla og eldvirkni spili einnig inn í
Samspil spilar inn í Klúðurslega orðað. Maðurinn greinir frá, sagnorðið á ekki við hér. Betra er að segja frá.
Fréttin er áhugaverð en væri betri ef reyndur blaðamaður hefði lesið hana yfir og gefið óvönum höfundinum góð ráð.
Tillaga: Engin tillaga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)