Holur í hönnuninni - brú yfir sýki - sitjandi forseti
31.7.2023 | 22:09
Orðlof
Biðgreiðslukort og staðgreiðslukort
Þegar farið var að nota kort til að greiða fyrir vörur og þjónustu ekki síður en reiðufé og ávísanir voru þau ýmist kölluð greiðslukort eða þau voru kennd við kortafyrirtækin sem gefa þau út.
Það dugar þó ekki alltaf til því kortin eru tvenns konar, kreditkort og debetkort.
Menn sætta sig misvel við þessa blendinga jafnvel þótt orðin kredit og debet sé viðurkennd hugtök í bókfærslu og bankaviðskiptum.
Þess vegna hefur verið lagt til að kalla þessi kort biðgreiðslukort og staðgreiðslukort í samræmi við hlutverk þeirra.
Einnig hefur verið stungið upp á orðinu krítarkort um kreditkort enda eru þau notuð til þess að kaupa eitt og annað upp á krít eins og stundum er sagt, þ.e.a.s. út í reikning.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Í reglubókinni kemur fram að spilarar skuli ekki klæðast skóm sem eru með opna tá og teljast nú Crocs vera í sama flokki vegna holanna í hönnuninni.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hvað eru holur í hönnuninni? Mynd með fréttinni sýnir skó með götum yfir rist og á hliðum. Varla er blaðamaðurinn svo illa áttaður að hann segi göt vera holur?
Hvað er átt við orðalaginu opin tá? Eftir myndinni að dæma er fremst hluti skóna, táin, ekki opin.
Lesandinn skilur ekki fréttina og blaðamaðurinn reynir ekki að skýra út orðalagið og hann beinlínis eyðileggur fréttina. Að vísu er hún frekar ómerkileg.
Tillaga: Engin tillaga.
2.
Stjórnarformaður breska bankans NatWest, Howard Davies, hefur tilkynnt að bankinn muni setja á fót sjálfstætt eftirlit til að rannsaka tildrög þess að bankinn lokaði fyrirvaralaust bankareikningi Nigel Farage í bankanum.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Nástaðan í málsgreininni er æpandi. Fjórum sinnum kemur fyrir orðið banki. Því miður er þetta ekki allt því málsgreinin afar illa samin.
Orðalagið setja á fót sjálfstætt eftirlit er beinlínis rangt. Líklegast er að bankinn munu láta rannsaka þetta tiltekna atvik. Eftirlit er ekki rannsókn. Þetta gengur ekki upp: eftirlit til að rannsaka.
Af hverju ekki að nota hvers vegna í stað tildrög þess.
Mikilvægt er að blaðamenn fjölmiðla kunni hrafl í íslensku, ekki er nóg að þeir séu góðir í ensku. Orðalag á ensku eða öðrum tungumálum á ekki að þýða samkvæmt orðanna hljóðan á íslensku. Hugsunin skiptir öllu.
Tillaga: Howard Davis stjórnarformaður breska bankans NatWest hefur tilkynnt að rannsakað verði hvers vegna reikningi Nigel Farage var lokað fyrirvaralaust.
3.
Borgin kosti til gerð sleppisvæðis við Kalkofnsveg, kostnað við flutning einnar brúar yfir sýki við götuna ...
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Ekki veit ég hvað sleppisvæði merkir en er nokkuð viss um að við Kalkofnsveg er sjógönguseiðum ekki sleppt né heldur er þar sauðfé sleppt á fjall.
Svo er það þetta með sýkina. Eflaust bráðsnjallt að yfirvinna sjúkdóma með brú. Við nánari umhugsun gæti verið að blaðamaðurinn rugli saman tveimur orðum; sýki og síki. Merkingar þeirra eru gjörólíkar.
Tillaga: Engin tillaga.
4.
Um helmingur þeirra er kominn á eftirlaunaaldur og sitjandi forseti er áttræður
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Orðalagið er svo rangt sem mest má vera. Á íslensku tölum við um núverandi forseta. Á ensku er hann nefndur sitting president. Grátlegt er að blaðamenn á Ríkisútvarpinu fái að skrifa svona átölulaust.
Sitjandi forseti merkir ekkert annað á íslensku en að maðurinn sitji sem er andstæðan við standandi forseta.
Fyrir nokkru var hér vísað í ummæli Guðrúnar Kvaran sem segir í grein um málfar í stjórnsýslu og á það einnig vel við um fjölmiðlafólk:
Ýmsir þeirra sérfræðinga, sem vinna við skýrslugerð af ýmsu tagi, eru menntaðir erlendis. Þeir hugsa margir um sérsvið sitt á máli þess lands sem þeir lærðu í og skrifa oftast um það á sama máli. Orðin í skýrslunum eru að vísu íslensk en setningaskipan og form er erlent.
Enskan er lævís og lipur, svo vitnað sé í kunnan bókartitil. Allir þykjast kunna ensku en vandinn snýr að því að koma henni til skila á íslensku án þess að valda tjóni á málinu. Sitjandi blaðamaður Ríkisútvarpsins sem skrifaði ofangreinda tilvitnun ætti að hafa þetta í huga.
Tillaga: Um helmingur þeirra er kominn á eftirlaunaaldur og núverandi forseti er áttræður .
5.
Skea er þekktur fyrir að hafa bjartsýnna viðhorf til loftslagsbreytinga en starfsbræður sínir.
Frétt á á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 31.7.23.
Athugasemd: Þarna á að standa starfsbræður hans. Lakara er þó að í fréttinni kemur hvergi fram í hvaða starfsgrein Jim Skea starfar og því er óljóst hverjir starfsbræður hans eru. Skea gæti starfað á hjólbarðaverkstæði, gjafavöruverslun, framleitt salernispappír eða verið verðbréfamiðlari.
Með því að gúgla manninn kemur í ljós að hann er hámenntaður og hefur sérhæft sig í loftlagsbreytingum. Líklega hefur hann ekki eins miklar áhyggjur af þeim eins og margir aðrir rannsakendur.
Hitt telst slök blaðamennska ef frétt er ekki nógu upplýsandi og lesandinn þarf að leita annarra heimilda til að skilja hana.
Tillaga: Engin tillaga.
6.
Leiðtogar Afríkuríkja hafa gefið herforingjastjórninni í Níger vikufrest til þess að láta af hendi völd í landinu.
Frétt á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 31.7.23.
Athugasemd: Þetta er illa skrifuð málsgrein og tillagan lítið skárri. Her lætur ekki af hendi völd heldur leggur þau niður.
Eftirfarandi hefði átt að orða betur:
- Hóta löndin því að beita afli gegn landinu
- Er þetta þriðja valdaránstilraunin á þremur árum sem snýr að lýðræðislega kjörnum forseta landsins.
- en þurftu að flýja vegna táragass sem var á þá beitt.
- Franska ríkið hefur fordæmt innbrotstilraunina og varað við því að það muni hefna sín ef
- Níger er staðsett á Sahel-beltinu í Vestur-Afríku.
- en síðan þá hafa fimm valdarán verið framin í landinu, að þessu meðtöldu, og enn fleiri misheppnast. (Valdarán og misheppnuð valdarán)
- Þessi tiltekna valdaránstilraunin er viðbragð við rýrnun öryggisástands landsins í sambandi við blóðsúthellingar Jihadista.
- Níger er í sjöunda sæti á lista Alþjóðakjarnorkumálastofnunar um úraníum-framleiðendur heims en er samt sem áður meðal fátækustu landa heims.
Blaðamaðurinn hefði átt að láta einhvern lesa yfir fréttina fyrir birtingu.
Tillaga: Leiðtogar Afríkuríkja hafa gefið herforingjastjórninni í Níger vikufrest til að leggja segja af sér.
7.
Talibanar segja tónlist valda siðferðisspillingu.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Hvort spillir tónlist siðferði eða valdi siðferðisspillingu? Um það skal ekki rætt hér.
Hitt er þó hafið yfir allan vafa að betra er að nota sagnirnar frekar en hjálparsagnir með nafnorðasögnum.
Tillaga: Talibanar segja tónlist spilla siðferði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)