Ökutæki og ökutæki - á grunnu dýpi - gosi í Torfajökli árið 1477
16.8.2023 | 13:32
Orðlof
Hún Sturla
Enda þótt Sturla sé karlmannsnafn er það málfræðilega kvenkynsorð og beygist eins og stofa.
Af þeim sökum er ýmist miðað við merkingarlega kynið og sagt hann Sturla eða það málfræðilega og sagt hún Sturla.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Hlaupið hófst í miðbæ Akureyrar klukkan átta í morgun. Á næstu dögum vinnur hópurinn sig suður á bóginn og enda ferðina miklu á Reykjavíkurmaraþoninu
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Hópurinn hleypur suður, lakara er að segja að hann vinni sig suður á bóginn. Vinnuflokkur gerir jarðgöng, vinnur sig í gegnum fjallið. Flókið orðskrúð í fréttum er orðið algengara en einfalt og skiljanlegt mál.
Tillaga: Hlaupið hófst í miðbæ Akureyrar klukkan átta í morgun. Á næstu dögum hleypur hópurinn suður og endar ferðina miklu á Reykjavíkurmaraþoninu
2.
Skjálftavirknin hefur lognast út af.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Betra er að segja að dregið hafi úr skjálftum eða þeir hafi hætt. Einfalt mál er alltaf best í fréttaskrifum.
Tillaga: Skjálftavirknin hefur hætt.
3.
Snjóskaflinn hægra megin í Gunnlaugsskarði í Esjunni var farinn að deilast í minni skafla þegar Morgunblaðið kannaði málið síðdegis í gær.
Frétt á blaðsíðu 11 í Morgunblaðinu 15.8.23..
Athugasemd: Betra hefði verið að segja að skaflinn sé farinn að skiptast.
Svo mikið hefur verið talað um skaflinn í Gunnlaugsskarði í Esju að blaðamaðurinn taldi sig þurfa að fara þangað og skoða og það gerði hann enda örugglega hörkunagli. Með fréttinni eru birtar myndir af skaflinum en hann er ómerkilegri í nálægð en tilsýndar. Blaðamaðurinn á hrós skilið fyrir framtakið.
Ég hef nokkrum sinnum gengið um Gunnlaugsskarð sem þó er ekki skarð heldur hvilft og fyrir neðan eru ógreiðfær gil og hamrar. Í fjölmörgum ferðum á Esju hefur lærst að víða er skárra að fara en þarna.
Fyrir mörgum árum er sumarið þótti kalt varð mörgum tíðrætt um staðfestu skaflsins. Í góðum vinahópi bollalögðu menn að fara í Gunnlaugsskarð með skóflur og moka árans snjónum í burtu svo sumarhitar mættu hækka. Við nánari umhugsun gæti tilgangurinn hafa verið að hrekkja þá sem hafa hann sem mælikvarða á veðurfar. Af einskærri leti varð ekkert af krossferðinni. Hugmyndin var samt góð.
Tillaga: Snjóskaflinn hægra megin í Gunnlaugsskarði í Esjunni var farinn að skiptast í minni skafla þegar Morgunblaðið kannaði málið síðdegis í gær.
4.
Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Sæbraut í vesturátt, á gatnamótum við Langholtsveg. Á þremur sólarhringum fóru 13.941 ökutæki þessa akstursleið og því óku hlutfallslega mjög fáir ökumenn of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var 81 km/klst en þarna er 60 km hámarkshraði. Sá sem hraðast ók mældist á 111. Einu ökutæki var ekið gegn rauðu ljósi á umræddu tímabili.
Frétt á Fréttatímanum og á vef lögreglunnar.
Athugasemd: Þetta er ekki frétt heldur kraðak orða, átakanlega léleg fréttaskrif. Kansellístíllinn er yfirþyrmandi svo lesandanum verður óglatt og nástaðan er svo megn að sama lesanda liggur við yfirliði. Þá þarf að kalla á viðbragðsaðila.
Höfundurinn er hefur enga tilfinningu fyrir fréttaskrifum. Fréttatíminn birtir ósköpin án þess að blikna, dómgreindarleysið er algjört. Löggan sem samdi þetta virðist ekki kunna að skrifa, það sannast hér. Löggan er stjórnlaus, lætur alls kyns bull frá sér fara eins og hér hefur verið margsinnis bent á. Slíkt ætti að varða við lög og refsingin fangelsi upp á vatn og brauð.
Tillagan er miklu betri en tilvitnunin.
Tillaga: Fylgst var með umferð til vesturs á Sæbraut við Langholtsveg. Alls óku 13.941 ökutæki þarna um en hámarkshraðinn er 60 km/klst. Fáir óku of hratt, meðalhraði þeirra var 81 km/klst, sá sem hraðast fór var á 111. Einn ók á rauðu ljósi.
5.
Mögulega á tiltölulega grunnu dýpi.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Sagt er í fréttinni að kvikan sé á grunnt dýpi? Átt er við að hún sé ekki djúpt, það er að segja frekar grunnt. Della er að tala um grunnt dýpi. Eldfjallafræðingurinn sem blaðamaðurinn ræðir við orðar þetta ekki svona heldur blaðamaðurinn.
Svo er það lýsingarorðið mögulegur sem ungir og óreyndir blaðamenn ofnota. Hér hefði að skaðlausu mátt nota orð eins og líklegur, hugsanlegur, sennilegur og fleiri.
Tillaga: Hugsanlega er frekar grunnt niður á kviku.
6.
Síðast gaus í Torfajökli 1477 að sögn Sigríðar og var það hraungos á sprungu, svipað og gosin sem hafa verið á Reykjanesskaga undanfarin ár.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Eflaust hefur einhvern tímann gosið í Torfajökli en það varð þó ekki árið 1477. Þá varð mikið gos á eldsprungu í Veiðivatnalægðinni og teygði hún sig inn í Torfajökulsöskjuna. Eldgosin á Reykjanesi eru langt frá því að líkjast gosinu á Veiðivatnasprungunni sem stóð líklega í nokkur ár.
Útilokað er að Sigríður Kristjánsdóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni hafi sagt þetta. Allar líkur eru á því að blaðamaðurinn hafi misskilið hana svona hrapalega.
Syðsti gígurinn á Veiðivatnasprungunni er á öxlinni við Brennisteinsöldu, sunnan Landmannalauga. Þá rann Laugahraun og enn er hiti í sprungunni, heitt vatn kemur undan jaðri þess og er notað til baða.
Í gosinu urðu Veiðivötn til í þeirri mynd sem við þekkjum þau í dag.
Mikilvægt er að gera greinarmun á öskjunni sem kennd er við Torfajökul og honum sjálfum. Það að auki er afar brýnt að blaðamenn hafi þekkingu í landafræði og jarðfræði.
Tillaga: Síðast gaus í Torfajökulsöskjunni árið 1477 að sögn Sigríðar og var það hraungos á eldsprungu sem kennd er við Veiðivötn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)