Bíllaus dagur fór fram - skriðdrekar mæta - Rushmore-fjall þjálfara
29.9.2023 | 10:08
Orðlof
Góður og vondur stíll
Góður stíll einkennist af stuttum málsgreinum og -liðum. Af sagnorðum á kostnað nafnorða, lýsingarorða, atviksorða, smáorða og klisjusetninga. Af frumlagi nafnorða og germynd sagnorða. Einkum þó einkennist hann af harðri útstrikun hvers konar truflana.
Margir skrifa vondan stíl, því að þeir frjósa, er þeir horfa á skjáinn. Þeir leita skjóls í úreltum reglum um stíl úr háskólahefðum um ritgerðir. Aðrir skrifa illa, af því að þeir eru hræddir. Þeir líta á texta sem fljót, sem þeir geti stigið yfir, með því að tipla á nafnorðum.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Bíllausi dagurinn fór fram á föstudag
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Núorðið fer allt fer fram og er þó engin framför í því. Orðalagið í fréttinni er slæmt, bendir til að blaðamaðurinn búi ekki yfir miklum orðaforða.
Tillaga: Bíllausi dagurinn var á föstudaginn
2.
CNN greinir frá því að fjöldi viðbragðsaðila hjá slökkviliði New York borgar sem hafa látist
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Hvað merkir orðið viðbragðsaðili? Stundum er það haft yfir þá sem koma fyrstir á slysstað. Orðið er engu að síður drasl og hætti að læsa inni á stað þar sem blaðamönnum er bannaður aðgangur. Það er bæði illa saman sett og ofnotað.
Þeir sem starfa hjá slökkviliði hafa hingað til verið kallaðir slökkviliðsmenn. Engin ástæða er til að gefa þeim eitthvert annað heiti.
Tillaga: CNN greinir frá því að fjöldi slökkviliðsmönnum í New York sem hafa látist
3.
að fyrstu bandarísku orrustuskriðdrekarnir væru mættir inn fyrir landamæri Úkraínu.
Frétt á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 26.9.23.
Athugasemd: Blaðamenn verða að átta sig ekki á að sagnirnar að koma og mæta eru ólíkar. Í ofangreindri tilvitnun er réttara að orða það sem svo að skriðdrekarnir séu komnir. Hafi stjórnendur fylgt þeim væri eðlilegt að segja að þeir væru mættir.
Sögnin að mæta virðist fyrst og fremst vera bundin persónu, fólki, það mætir. Dauðir hlutir mæta ekki.
Í Íslenskri orðsifjabók segir um orðið:
hitta, koma til móts við, koma á fund eða e-n stað
Sögnin að koma er notuð á annan hátt og getur haft víðtækari merkingu og notkun hennar frjálslegri en mæta.
Tillaga: að fyrstu bandarísku orrustuskriðdrekarnir væru komnir inn fyrir landamæri Úkraínu.
4.
Forstjóri Samherja þurfti að víkja sæti úr stjórn Síldarvinnslunnar þegar kaupin voru ákveðin.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Málsgreinin er óskýr sem og raunar öll fréttin. Lesandinn veit ekki hvort forstjórinn hafi vikið af fundi þegar stjórnin ákvað sig eða hvort hann hafi hætt í stjórninni.
Í fréttinni segir:
Fullyrt er í tilkynningu að hann hafi ekki komið að ákvarðanatöku vegna viðskiptanna.
Skárra hefði verið að orða þetta á þessa leið:
Fullyrt er í tilkynningu að hann hafi ekki komið að ákvörðun um viðskiptin.
Ákvarðanataka er draslorð. Þegar því er sleppt verður textinn skýrari.
Tillaga: Forstjóri Samherja þurfti að víkja sæti þegar stjórn Síldarvinnslunnar tók ákvörðun um kaupin.
5.
Artgemeinschaft telur um 150 félaga og tengist ýmsum öðrum öfgahópum lengst til hægri á pólitíska rófinu
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Tillagan er mun betri en ofangreint. Það er ekki einu sinni fínt að segja að hópur eða félag telji 150 félaga.
Tillaga: Í Artgemeinschaft eru um 150 félagar og tengist það ýmsum öðrum öfgahópum lengst til hægri á pólitíska rófinu
6.
Endurkoma Liverpool í seinni hálfleik.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Stundum flögrar að manni að blaðamenn sem sérhæfa sig í íþróttum séu eitthvað undarlegir til höfuðsins. Þeir eru óskaplega góðir í ensku en oft arfaslakir í íslensku. Hið síðarnefndan er slæmt fyrir lesendur.
Orðið endurkoma merkir aðeins að koma aftur. Ekkert annað. Lið sem lendir undir í fótboltaleik en sigrar að lokum hefur greinilega náð sér á strik.
Enska orðið comeback sem iðulega er notað í fótboltalýsingum enskra blaða.
Á enska fjölmiðlinum The Times segir:
Liverpool vs Leicester City: Szoboszlai stunner seals comeback win.
Þetta þýðir að í leik Liverpool og Leicester hafi leikmaðurinn Szoboszlai komið liði sínu yfir með frábæru marki og því hafi Liverpool unnið.
Illa skrifandi blaðamenn segja að markið hafi verið endurkoma fyrir Liverpool. Engu að síður fóru leikmenn liðsins hvergi.
Þá er það milljón króna spurningin: Sé hægt að tala um endurkomu Liverpool hvað á þá að kalla tap Leicester? Andheitið við endurkomu hlýtur að vera afturför.
Afturför Leicester í seinni hálfleik.
Þetta gæti alveg gengið.
Tillaga: Liverpool náði sér á strik í seinni hálfleik.
7.
Á fleygiferð upp Rushmore-fjall íslenskra þjálfara.
Frétt á Vísi.
Athugasemd: Tvímælalaust er þetta kjánalegast samlíking sem birst hefur í íþróttafréttum og er þó úr mörgu bullinu að velja.
Í fréttinni segir:
- og Arnar er á góðri leið með að klífa upp á topp Rushmore-fjalls íslenskra þjálfara.
- Ef til væri Rushmore-fjall íslenskra þjálfara undanfarin fjörutíu ár [ ] væri búið að hamra út myndir af þeim Heimi Guðjónssyni, Ólafi Jóhannessyni, Guðjóni Þórðarsyni og Ásgeiri Elíassyni á fjallið. Er þá litið til árangurs hér heima (sorrí, Heimir Hallgrímsson).
- Arnar er á fljúgandi farti upp Rushmore fjall íslenskra þjálfara
- en hér heima er enn hægt að nema ný lönd og klífa enn hærra upp Rushmore fjall íslenskra þjálfara, alla leið á toppinn.
Blaðamaðurinn hamrar á vonlausri hugmynd sinni.
Af hverju er blaðamaðurinn að ávarpa þennan Heimi með orðunum Sorrí, Heimir? Er maðurinn vinur hans, ættingi eða fótboltaþjálfari sem gengur ekki á fjöll. Sorrí hvað?
Blaðamaðurinn skrifar fyrir sjálfan sig. Hann gleymir sér í klisjum.
Þó hér hafi dómgreind blaðamannsins brugðist er má segja honum ýmislegt til hróss. Fréttin er nokkuð læsilega skrifuð og því sem næst villulaus.
Hins vegar ætti hann að lesa ritreglur Jónasar sem segir:
- Skrifaðu eins og fólk, ekki eins og fræðimenn.
- Settu sem víðast punkt og stóran staf.
- Strikaðu út óþörf orð, helmingaðu textann.
- Forðastu klisjur, þær voru sniðugar bara einu sinni.
- Keyrðu á sértæku sagnorði og notaðu sértækt frumlag.
- Notaðu stuttan, skýran og spennandi texta.
- Sparaðu lýsingarorð, atviksorð, þolmynd, andlag og viðtengingarhátt.
- Hafðu innganginn skýran og sértækan.
Þetta og fleira gagnlegt er á vef Jónasar Kristjánssonar sem eitt sinn var ritstjóri Vísis, Dagblaðsins og DV. Hann kunni til verka í blaðamennsku.
Tillaga: Engin tillaga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)